Umboðsaðilar eru fulltrúar tónlistarfólks og alla jafna nánasta samstarfsfólk þess. Verkefni umboðsfólks eru afar fjölbreytt, en almennt sjá þau um það sem viðkemur viðskiptahlið ferils skjólstæðinga sinna.
Umboðsfólk aðstoðar við að finna rétta samstarfsaðila, svo sem útgáfufyrirtæki, tónleikabókara, tónlistarforleggjara og fleiri lykilaðila innan greinarinnar. Þau halda utan um samskipti við þessa aðila og vinna með þeim að þróun ferils listamannsins. Í því felst m.a. að leggja drög að útgáfu, skipulegging tónleikaferða, stefnumótunarvinna og aðstoð við samningsgerð.
Starf umboðsfólks er því oft bæði flókið og umsvifamikið og byggir á góðu sambandi við skjólstæðinginn. Sumt tónlistarfólk gerir formlega samninga við umboðsaðila sína en annað heldur samstarfinu óformlegu. Við mælum ávallt með að leitað sé til lögfræðings áður en skrifað er undir samning við umboðsaðila.
Almennt er miðað við að umboðsaðilar fái greitt hlutfall af þeim tekjum sem hann kemur að því að afla. Í langflestum tilfellum er þóknun umboðsaðila 20% af nettó tekjum skjólstæðings.