Útgáfufyrirtæki

Útgáfufyrirtæki sjá um umsýslu upptökuréttar – ekki höfundarréttar. Höfundarrétturinn tilheyrir þeim sem skapar verkið eða umsýsluaðila þess, en upptökurétturinn nær til hljóðritaðrar útgáfu verksins. Útgáfufyrirtæki vinna því með upptökurnar: þau fjárfesta í þeim, kynna þær, dreifa þeim og selja.





 
Útgáfusamningar ná í flestum tilfellum til einhvers hámarksfjölda hljómplatna eða verkefna, og áskilur fyrirtækið sér oft rétt til að "taka upp næsta valkost" – þ.e. halda áfram samstarfi eða láta það renna út eftir hverja útgáfu.

Mjög algengur samningur felur í sér útgáfu á einni plötu með möguleika (“option”) á að gefa út fleiri, ef vel gengur. Þannig geta útgáfufyrirtæki tryggt fjárfestingu sína – eða hætt samstarfi ef þau sjá ekki fram á ávinning.

Stærð og umfang útgáfufyrirtækja

Útgáfufyrirtæki eru mjög ólík að stærð og starfsemi:
  • Stóru fyrirtækin
    (Universal Music Group, Sony Music, Warner Music) eiga tugi annarra útgáfu- og dreifingarfyrirtækja og eru með hundruði starfsmanna sem sinna kynningu, dreifingu, markaðssetningu og sölu. Þessi þrjú fyrirtæki ráða samanlagt um 70% af markaðshlutdeild í heimsmælikvarða.
  • Íslenskt dæmi
    Megnið af íslenskum upptökurétti, þar á meðal upptökusafn Ríkisútvarpsins, er í umsýslu Öldu, sem er í eigu Universal Music Group (UMG).
  • Minni fyrirtæki
    Minni fyrirtæki geta verið allt frá einum einstaklingi og upp úr. Þau eru fjölbreytt að gerð en eiga það sameiginlegt að fjárfesta í upptökurétti – hvort sem það felur aðeins í sér framleiðslu, upptöku, markaðssetningu eða annað.
Þegar samið er við útgáfufyrirtæki eignast það oft upptökuréttinn – en stundum er hann eingöngu leigður í fyrirfram ákveðinn tíma. Við mælum ætíð með að listafólk leiti sér lögfræðiálits áður en gengið er til samninga við útgáfufyrirtæki.

Fjármögnun og endurgreiðsla

Útgáfufyrirtæki taka á sig fjárhagslega áhættu með því að fjármagna upptökur, framleiðslu, markaðssetningu eða greiða fyrirframgreiðslur (advances) til listafólks. Þessi kostnaður verður síðan endurgreiddur úr hlut listafólks af tekjum sem skapast af upptökunni.  Skuldin fyrnist þó oft eftir ákveðinn tíma eða við lok samnings, ef hún hefur ekki verið greidd að fullu.

Á mannamáli: Ef gert er 50/50 samkomulag og útgáfufyrirtækið leggur út 1 milljón, þá lítur dæmið svona út:
  • Þegar sala nemur 1 milljón fær listafólkið 500 þúsund og útgáfufyrirtækið 500 þúsund.
  • Skuld listafólksins stendur þá enn í 500 þúsundum, þar sem aðeins þeirra eigin hlutur telst upp í skuldina.
  • Því þarf sala að ná 2 milljónum til að skuldin sé að fullu greidd. Á því stigi hefur útgáfufyrirtækið þegar hagnast um 1 milljón.
  • Eftir að skuld hefur verið greidd skiptist allur ágóði 50/50.

Útgáfufyrirtæki í dag og staðan á Íslandi

Útgáfufyrirtæki hafa verið í gríðarlegri sókn undanfarin ár, fyrst og fremst vegna streymis. Streymistekjur eru nú tæplega 70% af heildartekjum útgáfufyrirtækja. Þessi vöxtur snýst ekki eingöngu um nýja tónlist – eldri útgáfur sem áður sátu óhreyfðar á hillum eru nú orðnar verðmætar tekjulindir í gegnum streymi.

Á Íslandi endurspeglast þessi þróun að hluta, en staðan sýnir jafnframt að íslenskar útgáfur eiga undir högg að sækja. Samkvæmt upplagseftirliti Félags hljómplötuframleiðenda (FHF) fyrir árið 2023 var um 80% af tónlistarneyslu Íslendinga erlend. Aðeins 20% neyslunnar var íslensk tónlist, og af þeim hluta á Alda Music réttinn að helmingi þeirrar íslensku tónlistar sem seldist það árið.
Hlutfallsleg skipting útgáfufyrirtækja á íslenska markaðnum 2023:
Útgefandi / Flokkur
Hlutfall
Universal Music Group
33,09%
Sony Music Entertainment
15,37%
Aðrir erlendir útgefendur
14,05%
Warner Music Group
13,09%
Alda Music
10,74%
Aðrar íslenskar útgáfur
9,56%
Tákn Tónlistarmiðstöðvar
Veldu það hlutverk í flæðiritinu sem þú vilt fræðast nánar um.