Dreyfingarfyrirtæki

Veldu það hlutverk í flæðiritinu sem þú vilt fræðast nánar um.
Hlekkir
Dreifingarfyrirtæki bjóða listafólki og útgefendum leið til að koma tónlist sinni á markað án þess að þurfa að afsala sér eignarhaldi á upptökum sínum. 




Dreifingarfyrirtæki sjá um að koma tónlist í hendur neytenda, bæði í formi hljómplatna og í gegnum stafrænar streymisveitur eins og Spotify, Apple Music og Amazon Music. Þau vinna ýmist beint með listafólki eða í gegnum samninga við útgáfufyrirtæki sem nýta þjónustu þeirra.Þjónustan er venjulega veitt gegn þóknun, oft á bilinu 15–20% af tekjum.

Dreifingaraðilar eru mjög fjölbreyttir – allt frá sjálfvirkum stafrænum dreifingaraðilum eins og DistroKid og CD Baby, yfir í stærri fyrirtæki sem bjóða mun yfirgripsmeiri þjónustu og eru þá oft kölluð útgáfuþjónustufyrirtæki (label service companies)

Útgáfuþjónustufyrirtæki

Útgáfuþjónustufyrirtæki sameina dreifingu og faglega útgáfuþjónustu undir einu þaki.
Þau bjóða meðal annars:
  • Markaðssetningu og kynningarherferðir
  • Áætlanagerð fyrir útgáfur
  • Umsýslu réttinda, þar með talið fyrir Sync þjónustu sem kynnir tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp og auglýsingar
Þessi fyrirtæki bjóða listafólki sveigjanlega þjónustu þar sem það heldur yfirleitt fullum eignarrétti á upptökum sínum en greiðir fyrir þá þjónustu sem það kýs að nýta. Tekjuskiptingin er oft hagstæðari fyrir listafólk en í hefðbundnum útgáfusamningum.

Á síðustu árum hafa stóru útgáfurisarnir eins og Universal Music Group, Sony Music Entertainment og Warner Music Group keypt marga áður sjálfstæða dreifingaraðila og útgáfuþjónustufyrirtæki.

Til dæmis:
  • AWAL (í eigu Sony Music),
  • The Orchard (í eigu Sony Music),
  • PIAS (í eigu Universal Music Group)
  • FUGA (undir Downtown Music Holdings sem UMG eru í viðræðum um að kaupa)

Á mannamáli

Dreifingarfyrirtæki: „Við hjálpum þér að koma plötunni þinni á Spotify og í plötubúðir – gegn hlutdeild í tekjum.“

Útgáfuþjónustufyrirtæki: „Við dreifum plötunni þinni, hjálpum þér með kynningu, áætlanir og réttindamál – og þú heldur áfram að eiga hana sjálfur.“
Tákn Tónlistarmiðstöðvar