Tónleikahaldarar skipuleggja tónleika og tónlistarviðburði, bera ábyrgð á framkvæmd þeirra og markaðssetningu. Hlutverk þeirra er að para saman rétt listafólk, rétta staði og réttan markhóp.
Tónleikahaldarar starfa ýmist sjálfstætt eða fyrir tónleikastaði, hátíðir og viðburðafyrirtæki. Í mörgum tilfellum er um að ræða stór fyrirtæki sem eru einnig eigendur tónlistarhátíða, samanber Iceland Airwaves og Sena Live. Tónleikahaldarar vinna náið með bókurum og umboðsfólki og eru oft á tíðum sérfræðingar í sínum markaði, sem gerir þá að mikilvægum hlekk í alþjóðlegu samstarfi.
Á litlum markaði eins og Íslandi skarast þessi hlutverk oft. Umboðsaðilar sinna iðulega einnig bókunum og viðburðahaldi, t.a.m. hjá Iceland Sync, sem sinnir öllum þessum þáttum undir sama hatti.
Tónleikahaldari ber fjárhagslega ábyrgð á viðburðinum og tekur á sig alla áhættu sem fylgir því að setja tónleika á svið. Yfirleitt býður hann listafólki lágmarksþóknun (guarantee), sem er trygg greidd upphæð – óháð aðsókn. Ef tekjur tónleikanna fara yfir ákveðin mörk, getur listafólk fengið aukagreiðslu (overage) sem byggir á fyrirfram umsaminni prósentu af nettóhagnaði – til dæmis 75–80%.
Þetta tryggir listafólki öruggar lágmarkstekjur en möguleika á aukatekjum ef tónleikarnir ganga vel.