Þegar hér að neðan er vísað til tónskálds er eftir atvikum einnig átt við annan rétthafa höfundaréttar viðkomandi tónskálds eftir því sem við á. Það sama á við þegar talað er um textahöfunda og útsetjara.
Tónlistarmiðstöð varðveitir verk íslenskra höfunda. Þegar tónskáld leggur inn verk til Tónlistarmiðstöðvar er það ávallt skráð og varðveitt í gagnagrunni miðstöðvarinnar. Tónskáld getur einnig valið að verkið sé til sölu og dreifingar hjá miðstöðinni. Hægt er að taka verk úr sölu fyrirvaralaust, en ekki er hægt að draga verk til baka sem lagt hefur verið inn til varðveislu.
Skráning á verki hjá Tónlistarmiðstöð getur leitt til frekari flutnings á verkinu, enda eitt af markmiðum með slíkri skráningu að hvetja til útbreiðslu íslenskra verka. Tónlistarmiðstöð fær reglulega fyrirspurnir er snerta verkaval og dagskrárgerð, m.a. frá kórum, erlendum hljómsveitum eða tónlistarhátíðum og er viðkomandi þá oft vísað í gagnagrunn miðstöðvarinnar. Gagnagrunnur Tónlistarmiðstöðvar nýtist einnig tónlistarfræðingum og öðrum rannsakendum við rannsóknir á íslenskum tónlistararfi.
Ef tónskáld skráir tónverk til sölu og dreifingar veitir það Tónlistarmiðstöð leyfi til að selja verkið til þriðja aðila, m.a. í vefverslun Tónlistarmiðstöðvar, og dreifa því til kynningar.
Skráning nýrra tónverka fer fram í gegnum rafrænt skráningareyðublað sem aðgengilegt er á heimasíðu Tónlistarmiðstöðvar. Ef um stærri söfn er að ræða, t.d. úr dánarbúi þarf að hafa samband við verkefnastjóra tónverkasafns með upplýsingum um umfang o.fl.
Tónskáldið getur fengið án endurgjalds tvö prentuð eintök af tónverki (tvær raddskrár af hljómsveitar- og kammerverkum) sem lagt er inn til sölu og dreifingar.
Hlutur tónskálds af sölu tónverka er alltaf 25% af allri sölu/leigu og 50% af leigu vegna frumflutnings verks.
Ef tónverk er skrifað við höfundarréttarvarinn texta fær textahöfundur 8% söluverðs. Eins fær útsetjari verks í höfundarvernd 8% söluverðs. Í báðum þessum tilvikum heldur tónskáldið sínum 25%. Hlutur tónskálds hækkar aldrei upp fyrir 25%. t.d. í þeim tilvikum þar sem tónskáld skrifar tónlist við eigin texta eða gerir útsetningu á eigin tónsmíð.
Ef um er að ræða útsetningu á verki sem ekki er í höfundarvernd fær útsetjari 16,67% söluverðs.
Hlutur höfundarrétthafa af sölunni er greiddur út árlega, svo framarlega sem hlutur rétthafa nái lágmarksúthlutun sem er 5.000 krónur. Miðað er við almanaksár og nái inneignin ekki lágmarksúthlutun fjögur ár í röð, fellur hún niður. Tónskáldið heldur öllum útgáfu- og höfundarétti þó verkið sé lagt inn til sölu.
Tónskáldið hefur fullt leyfi til að taka verkin úr sölu án fyrirvara og/eða semja við annan útgefanda. Skráning verka hjá Tónlistarmiðstöð og leiga þeirra eða sala í gegnum miðstöðina hefur engin áhrif á höfundaréttargreiðslur af flutningi verksins (og eintakagerð) frá höfundaréttarsamtökum eins og t.d. STEFi og er skráning hjá Tónlistarmiðstöð óháð skráningu hjá höfundaréttarsamtökum.
Tónlistarmiðstöð sér um öll samskipti við flytjendur vegna nótnakaupa eða leigu á stærri verkum og er þjónusta miðstöðvarinnar tónskáldunum að kostnaðarlausu.
Öll tónverk sem skráð eru til sölu og dreifingar eru einnig skráð um leið til varðveislu.
Tónlistarmiðstöð skráir verkin í gagnagrunn sinn og gengur frá þeim til varðveislu í Landsbókasafni Íslands. Með slíku er varðveittur mikilvægur hluti af tónlistarsögu þjóðarinnar. Upplýsingar um verkin birtast í vefbúð Tónlistarmiðstöðvar, án þess að hægt sé að kaupa þau og vísar kaupendum áfram á þann stað sem hægt er að kaupa verkið, ef við á og Tónlistarmiðstöð veit af öðrum sölustað. Tónskáld getur sérstaklega beðið um að upplýsingar um verkin séu ekki birt í vefbúð miðstöðvarinnar.
Því fleiri tónverk sem skráð eru í safn miðstöðvarinnar því mun betri mynd gefur gagnagrunnurinn afstarfi íslenskra tónskálda.
Það telst vera handrit af tónverki ef um handskrifað fyrsta eintak tónverks er að ræða eða hægt er að sjá á annan hátt að um frumeintak sé að ræða.
Tónskáld geta lagt inn handrit að tónverkum inn til Tónlistarmiðstöðvar. Verkin eru þá skönnuð, skráð og varðveitt rafrænt hjá Tónlistarmiðstöð. Tónlistarmiðstöð gengur frá verkunum í varanlega varðveislu. Getur tónskáld þá valið um annað hvort:
a) að gengið verði frá verkunum í geymslur Tónlistarmiðstöðvar í geymslum Landsbókasafnsins eða,
b) að handritin verði afhent handritadeild Landsbókasafns.
Tónlistarmiðstöð mælir með að tónverkin séu afhent handritadeild. Við afhendingu í handritadeild missir tónskáldið leyfið til að draga handritið til baka og er það varðveitt í Landsbókasafni. Ef tónskáld vill geta dregið verkið til baka, en þarf á öruggri geymslu á handritunum að halda, eru verkin varðveitt í geymslum Tónlistarmiðstöðvar í Landsbókasafni. Tónskáldið getur þá ávallt beðið um að fá handritin aftur.
Samþykkt af stjórn Tónlistarmiðstöðvar 10.12.2024