Sync sérfræðingar

Hlekkir
Engar tengdar færslur fundust.
Sync sérfræðingar eru aðilar sem vinna fyrir tónlistarfólk, forleggjara eða plötufyrirtæki með það að markmiði að koma tónlist skjólstæðinga sinna í sjónvarp, kvikmyndir, auglýsingum, tölvuleikjum og öðru myndefni. Sync á enga góða íslenska þýðingu en enska orðið er dregið af orðinu synchronisation sem þýðist sem samstilling. Sync fólk sér því um að stilla saman tónlist og mynd.
 
Þeir byggja upp tengslanet við tónlistarráðgjafa og framleiðendur myndefnis og tengja tónlist sinna skjólstæðinga beint inn í verkefni — oft með því að reka eigin tónlistarbanka þar sem öll leyfi eru tilbúin og því krefst notkun hennar takmarkaðrar pappírsvinnu. 

Það er töluverð skörun á milli hlutverks sync sérfræðinga og tónlistarforleggjara, sérstaklega þegar kemur að því að koma tónlist fyrir í myndefni. Hins vegar er lykilatriði að skilja hver vinnur fyrir hvern og hvað samningar fela í sér.

Hver vinnur fyrir hvern?
  • Tónlistarforleggjarar og útgefendur ráða oft sync sérfræðinga innan síns fyrirtækis til að sinna kynningu og leyfisveitingum fyrir tónlist í þeirra umsýslu. Þjónusta sync teymisins er þá innifalin í samningi listafólksins við forleggjarann eða útgefandann.
  • Sjálfstætt starfandi sync sérfræðingar eru algengir en slíkir aðilar gera oft samstarfssamninga við forleggjara, útgefendur eða listafólk. Þeir kynna tónlistina, sækja tækifæri og sjá um leyfisferlið gegn hlutfalli af samþykktum samningum.
  • Í auknum mæli eru sync aðilar einnig að vinna með listafólki sem á öll sín réttindi sjálft — þ.e. án forleggjara eða útgefanda. Þeir taka þá að sér alla umsýslu í tengslum við sync, þ.m.t. skráningu, leyfisgerð og samningaviðræður

Sem þóknun taka Sync aðilar hlutfall af þeim tekjum sem þeir skapa. Þetta getur verið á bilinu 20-30% af heildartekjum en dæmi eru um að þessi tala geti orðið miklu hærri.

Við mælum ávallt með að leitað sé til lögfræðings áður en skrifað er undir samning við sync aðila. 
Tákn Tónlistarmiðstöðvar
Veldu það hlutverk í flæðiritinu sem þú vilt fræðast nánar um.