Tónlistinn 2025 - Tónlistarárið í máli og myndum

08 January 2026

Árslistar Tónlistans voru nýverið gefnir út og þar er að finna alls konar áhugaverða tölfræði um tónlistarneyslu Íslendinga árið 2025. Listar Tónlistans eru tveir, annars vegar listi yfir mest seldu plötur ársins og annar yfir vinsælustu lög ársins. Plötulistinn inniheldur sölutölur í verslunum og á netinu en listinn tekur einnig mið af heildarspilun platna á Spotify og er sú spilun umreiknuð í seld eintök samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Lagalistinn inniheldur samantekt á mest spiluðu lögum ársins í útvarpi, auk þess sem hann tekur mið af spilun á Spotify að jöfnu við spilun útvarpsstöðva. 

Hvorugur listinn tekur tillit til spilunar á öðrum streymisveitum og því eru listarnir ekki fullkomið mælitæki en komast þó nærri því en flest önnur tól. Þess má þó geta að upplagseftirlit FHF áætlar að tekjur frá Spotify nemi allt að 95% af heildartekjum vegna stafrænnar tónlistar á Íslandi. Því má gefa sér að þó að listarnir tækju mið af öðrum streymisveitum myndi það ekki hafa veruleg áhrif á þá. 

Samkvæmt nýútkomnu upplagseftirliti FHF fyrir árið 2024 jókst sala á íslenskri tónlist á milli ára um 16%.. Hún er þó enn í miklum minnihluta þegar það kemur að heildarsölu tónlistar á landinu en sala á íslenskri tónlist nemur um 20% af allri seldri tónlist á landinu og um 19% af streymdri tónlist. Listar yfir mest seldu plöturnar og vinsælustu lögin sýna allt aðra mynd sem gefur til kynna að tónlistarneysla sé töluvert dreifð. 

Sala á íslenskum plötum árið 2025

  • 16 af 20 mest seldu plötum ársins voru eftir íslenskt listafólk
  • Vögguvísur Hafdísar Huldar er í efsta sæti en Hafdís seldi meira en næstu 3 sæti (Herra Hnetusmjör, Birnir og Daniil) samanlagt.
  • Yfir helmingur íslenskra platna í efstu 20 sætunum voru rappplötur
  • 53 af 100 mest seldu plötum ársins eru íslenskar
  • 20,7% íslenskra platna á topp 100 eru samdar eða fluttar af konum
  • 7,5% íslenskra platna á topp 100 eru samdar eða fluttar af hljómsveitum 
  • Einungis 7,5% íslenskra platna á topp 100 komu út árið 2025 og eiga þær það allar sameiginlegt að vera rappplötur

Segja má að listinn yfir mest seldu plötur ársins einkennist af ákveðnu tímaleysi. Fyrir utan íslensku rappplöturnar á topp 20 má finna tiltölulega nýlegar en sígildar plötur á borð við Kveðja, Bríet (2020), A/B með KALEO (2016) og Dýrð í dauðaþögn eftir Ásgeir (2012). Erlendu plöturnar á listanum eru enn eldri, en Parachutes (2000) með Coldplay, OK Computer (1997) og In Rainbows (2007) með Radiohead og Rumors (1977) með Fleetwood Mac eru allar í efri hluta listans. 

Að allar nýju íslensku plöturnar á listanum séu rappplötur gefur til kynna að íslenska rappið sé fært um að ná vinsældum hraðar en aðrar tónlistarstefnur. Þó virðast vinsældir þess fjara aðeins hraðar út; af 27 íslenskum plötum á listanum sem eru eldri en 5 ára eru einungis 7 rappplötur.

Fyrir utan Hafdísi, sem átti mest seldu plötu ársins, er enga aðra konu að finna í efstu 10 sætunum. Kveðja, Bríet vermir 12. sæti listans og A Matter of Time með Laufey er í því 15. Konur eiga því 3 af 20 mest seldu íslensku plötum ársins.

Listinn geymir einungis fjórar plötur eftir íslenskar hljómsveitir. Þær eru samnefnd plata KALEO (2013) og A/B (2016) með sömu hljómsveit, 1918 með ICEGUYS (2024) og Garg með Sálinni hans Jóns míns (1992). Þetta eru jafn margar plötur og Birnir er með á listanum. 

Vinsælustu lög ársins 2025

  • 15 af 20 vinsælustu lögum ársins voru eftir íslenskt listafólk
  • Öll íslensku lögin í topp 20 yfir vinsælustu lög ársins eru á íslensku og eru þau öll rapplög eða innihalda rapp
  • Ekkert lag í efstu 20 sætum listans er samið eða flutt af íslenskri konu
  • 7 af 15 íslenskum lögum í efstu 20 sætum listans eru rapp dúettar 
  • 60% af 100 vinsælustu lögum ársins eru íslensk
  • 92% íslenskra laga á lista yfir 100 vinsælustu lög ársins eru á íslensku
  • 20% íslenskra laga á lista yfir 100 vinsælustu lögin eru samin eða flutt af konum
  • 11,5% íslenskra laga á lista yfir 100 vinsælustu lögin eru samin eða flutt af hljómsveitum

Listinn yfir vinsælustu íslensku lög ársins 2025 er nokkuð einsleitur og sýnir skýrt fram á að karlkyns rapparar ráða ríkjum. Sérstaklega er athyglisvert að líta til samstarfs rapparanna, en tæplega helmingur íslensku laganna á topp 20 eru rappdúettar

Athyglisvert er að ekkert lag í efstu 20 sætunum er flutt eða samið af íslenskri konu og eru einungis 20% af íslensku lögunum á topp 100 listanum samin eða flutt af konu. Alaska1867 nær efsta sæti íslenskra kvenna en hún lendir í 26. sæti listans í samstarfi við Aron Can og Þormóð og næsta kona á lista er BRÍET í 55. sæti í samstarfi með Birni. Einungis þrjú lög á listanum (Rólegur kúreki með BRÍET, Silver Lining með Laufeyju og Touch me með Ásdísi) eru eftir sólólistakonu.

Hljómsveitarformið er á undanhaldi á lagalistanum en 7 af 60 íslenskum lögum geta talist hljómsveitaverk og eiga ICEGUYS þrjú af þeim. 

Íslenskan er allsráðandi á listanum en eina íslenska listafólkið á listanum sem flytur lög sín á ensku er Laufey, KALEO, Of Monsters and Men, ÁSDÍS og Daði Freyr. Allt listafólk sem nýtur mikilla vinsælda á alþjóðavísu. 

Í stuttu máli

Lestu einnig
Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar