Á málþingi BHM um virði menntunar á Íslandi, sem haldið var 9. september síðastliðinn, voru kynntar niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem unnin var af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir BHM, og sýnir að arðsemi háskólanáms á Íslandi hefur aldrei mælst lægri.
Arðsemi háskólanáms felur í sér samanburð á kostnaði við nám og þeim fjárhagslega ávinningi sem háskólamenntun skilar yfir starfsævina, samanborið við þau sem ekki hafa lokið háskólanámi.
Í mörgum greinum mælist lítil sem engin arðsemi af háskólanámi og í einstaka greinum, svo sem listum og skapandi greinum, mælist arðsemin neikvæð.
Þessi niðurstaða var kveikjan að hugvekju Maríu Rutar Reynisdóttur, framkvæmdastjóra Tónlistarmiðstöðvar, sem hún flutti á málþinginu. Hún benti á að staðan endurspegli þann raunveruleika sem blasir við íslensku listafólki: „Samfélagið metur ekki störf listafólks og þeirra sem starfa í lista- og menningargeiranum að verðleikum,“ sagði hún.
Í erindi sínu vék María að stöðu listamannalauna og benti á að þrátt fyrir hækkun þeirra undanfarin ár væru þau enn langt undir viðmiðum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald. Hún minnti á að þetta væru verktakalaun án réttinda og að raunvirði þeirra væri undir lágmarkslaunum. „Ef ríkið ber ekki virðingu fyrir störfum listafólks – hver á þá að gera það?“ spurði hún.
María lagði áherslu á að horfa þurfi til lista og skapandi greina sem verðmætaskapandi atvinnugreina, fremur en að líta á stuðning til þeirra sem ölmusur eða aukavinnu. Hún benti á að nýleg skýrsla sýni fram á að framlag geirans nemi 3,5% af landsframleiðslu, sem er álíka og sjávarútvegur. Þá sýni rannsóknir að hver króna í opinbera fjárfestingu í menningu skili þremur krónum til baka í hagkerfið.
Hún tók dæmi af nýjum Tónlistarsjóði, sem Tónlistarmiðstöð umsýslar, þar sem stefnan var tekin á að hækka styrki og forðast bjarnagreiða sem felast í lágum styrkjum til margra verkefna. Þessi mikilvæga leiðrétting sem miðar að því að losa verkefni úr spennitreyju sjálfboðastarfa og undirfjármögnunar hefur þó haft í för með sér að færri verkefni fá styrki og þegar við bætist sí vaxandi aðsókn í sjóðinn stendur árangurshlutfall umsækjenda nú í um 17% – sem telst óviðunandi lágt.
Í erindinu hvatti María stjórnvöld til að grípa til sambærilegra aðgerða fyrir skapandi greinar og áður hefur verið gert með aðkomu þeirra að því að byggja upp stóriðju og sjávarútveg í landinu. Hún nefndi meðal annars að fjölga þyrfti listamannalaunum og leiðrétta þau með hækkunum, efla menningarsjóði og gera fleiri langtímasamninga til að tryggja fyrirsjáanleika, sem og að styrkja menningarstofnanir og miðstöðvar lista og skapandi greina.
„Við verðum að snúa við þeirri þróun að menntun í listum og menningu hafi neikvætt virði,“ sagði hún í lok erindisins. „Við gerum það með því að breyta viðhorfinu og orðræðunni – og með því að fjárfesta í listum og menningu eins og hverri annarri verðmætaskapandi atvinnugrein.“