Myrkir Músíkdagar - metnaðarfull dagskrá sem fagnar því besta í samtímatónlist

Myrkir Músíkdagar, fremsta samtímatónlistarhátíð landsins, fer fram um næstu helgi 24.-26. janúar. Hátíðin, sem býður uppá sinfóníutónleika í bland við þverfaglega tilraunastarfsemi, tekur yfir hin ýmsu rými á víð og dreif um Reykjavík en meginþorri dagskránnar verður í Hörpu.
Hátíðin hefur verið haldin árlega frá stofnun hennar árið 1980 og er hún í dag þekkt langt út fyrir landsteinana fyrir tónlistardagskrá á heimsmælikvarða sem bæði innlent og erlent áhugafólk um samtímatónlist, sem og fagfólk, fær notið.

Hápunktar hátíðarinnar í ár er meðal annars VENTUS þar sem viibra og Eyjólfur Eyjólfsson spila saman á meðal annars rabbabara. Viibra var stofnaður haustið 2016 að tilstuðlan Bjarkar í tengslum við gerð plötu hennar Utopia. Á árunum 2018 til 2023 ferðaðist viibra með Björk víða um heim með hina margrómuðu sýningu Cornucopia. Meðlimir viibru eru virkir í íslensku tónlistarlífi sem flytjendur, tónskáld og kennarar.
Árlegir tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands á tónlistarhátíðinni Myrkum músíkdögum eru tilhlökkunarefni fyrir alla unnendur íslenskrar og alþjóðlegrar samtímatónlistar. Á tónleikunum, sem eru opnunartónleikar hátíðarinnar í ár, hljóma nýleg og athyglisverð verk frá Íslandi og Brasilíu. Tónleikarnir hefjast á verki Ingibjargar Ýrar Skarphéðinsdóttur, Balaena. Ingibjörg Ýr hefur á síðustu árum fest sig í sessi sem eitt áhugaverðasta tónskáld sinnar kynslóðar á Íslandi.
Hátíðin stendur einnig fyrir kynningardagskránni PODIUM í samstarfi við Tónlistarmiðstöð og Íslandsstofu. PODIUM er fyrir erlenda fagaðila sem leggja leið sína til Íslands til að finna það sem er mest spennandi í íslenskri samtímatónlist í dag. Erlendir gestir verða í ár fulltrúar frá Klang, Ultima, November Music, Estonian Music Days, Seismograf, Brooklyn Rail og Wallpaper.
Hátíðarpassi gildir á alla viðburði Myrka músíkdaga og er fáanlegur á Tix.is
Með Myrka Músíkdaga handan við hornið fengum við tónskáldin Þórð Hallgrímsson og Iðunni Einars til að setja saman sérstakan lagalista fyrir hátíðina. Lagalistinn, sem inniheldur uppáhald þeirra úr heimi íslenskrar samtímatónlistar, fangar fullkomlega anda Myrkra Músíkdaga.
Myrkir músíkdagar eru haldnir í samstarfi við Reykjavíkurborg, Tónlistarborgina Reykjavík og Tónlistarsjóð.