
Tónlistarmiðstöð fer að vanda á Eurosonic í janúar og auglýsir eftir tveimur íslenskum fagaðilum í tónlistariðnaðinum sem vilja taka þátt í ferðinni. Þetta er kjörið tækifæri til að efla tengslanet og kynna sig og sín verkefni á einni af mikilvægustu faghátíðum í Evrópu.
Eurosonic Noorderslag (ESNS) í Groningen, Hollandi er ein af stærstu faghátíðum Evrópu. Hátíðin er haldin ár hvert um miðjan janúar og einblínir hún á nýja evrópska tónlist. ESNS býður upp á 350 tónleika frá hinum ýmsu tónlistarstefnum og laðar hún að sér yfir 40.000 gesti, þarf af 400 bókara frá alþjóðlegum tónlistarhátíðum.
Samhliða hátíðinni fer fram ráðstefna sem býður upp á vinnustofur, pallborðsumræður og kynningar ásamt ýmislegt annað.
í ár koma þrjú íslensk atriði fram á hátíðinni en það eru ástsæla söngvaskáldið Elín Hall, partíprengjurnar Inspector Spacetime og málmsveitin Múr. Hátíðin hefur í gegnum tíðina hýst fjöldan allan af íslensku listafólki sem hefur oft á tíðum fengið ótal önnur tækifæri í kjölfar hennar. Þar má til að mynda nefna Ásgeir, Vök, Sunnu Margréti, Supersport og miklu fleiri.
Þau sem verða fyrir valinu fá ferðastyrk uppá 75.000 kr. og afslátt af hátíðar- og ráðstefnupassa. Auk þess fá þátttakendur í ferðinni aðgang að tengslamyndunarviðburðum sem Tónlistarmiðstöð kemur að í samstarfi við norrænar og evrópskar miðstöðvar. auk boðs á tengslamyndunarviðburði sem Tónlistarmiðstöð stendur að í samstarfi við norrænar miðstöðvar.
Við leitum að fagaðilum sem vinna við íslenska tónlist: útgefendum, umboðsfólki, bókurum, tónlistarforleggjurum, tónleikahöldurum eða öðrum fagaðilum. Áhersla er lögð á að þátttakendur starfi með tónlistarfólki sem er „tilbúið til útflutnings“, sé með skýra alþjóðlega sýn og áhuga á að byggja upp tengsl erlendum mörkuðum.
Nánari upplýsingar veitir Leifur Björnsson leifur@icelandmusic.is