Auglýst eftir umsóknum vegna úthlutunar úr Tónlistarsjóði

4
.  
March
 
2025

Tónlistarmiðstöð auglýsir eftir umsóknum vegna seinni úthlutunar Tónlistarsjóðs árið 2025. Umsóknarfrestur er til og með 15. apríl kl. 15:00.

Um er að ræða þriðju úthlutun nýs Tónlistarsjóðs en sjóðurinn hefur nú þegar úthlutað um 170 milljónum króna til tæplega 190 verkefna, auk 25 milljónum í ferðastyrki sem veittir á tveggja mánaða fresti.

Samkvæmt tónlistarlögum og reglum um Tónlistarsjóð er hlutverk sjóðsins að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistariðnaði. Sjóðurinn skal stuðla að kynningu á íslensku tónlistarfólki og tónsköpun hér á landi og erlendis.

Tónlistarsjóður veitir fimm styrki úr fjórum deildum:

Tónlistarstyrkir – veittir úr deild frumsköpunar og útgáfu. Styrkur til að semja tónlist, taka hana upp, gefa út og kynna.

Flytjendastyrkir – veittir úr deild lifandi flutnings. Styrkur til tónleikahalds og tónleikaferða innanlands. Styrkirnir eru veittir beint til tónlistarfólks eða umbjóðenda þess. Langtímastyrkir eru í boði.

Viðskiptastyrkir – veittir úr deild þróunar og innviða. Styrkur vegna tónlistarverkefna svo sem tónlistarhátíða, tónleika­staða, tónleikaraða, viðskiptahugmynda í tónlist og sprotaverkefna. Langtímastyrkir eru í boði.

Markaðsstyrkir – veittir úr deild útflutnings. Styrkur til að vekja athygli erlendis.

Ferðastyrkir – veittir úr deild útflutnings. Sótt er um á vef Tónlistarmiðstöðvar á tveggja mánaða fresti. Styrkur vegna ferðalaga til að sækja sér tækifæri erlendis.

Styrkir úr Tónlistarsjóði skulu veittir til ákveðinna verkefna og að öllu jöfnu þurfa verkefni að hefjast innan 18 mánaða eftir að úthlutun fer fram. Almennt eru ekki veittir styrkir til rekstrar og umsýslu samtaka, fyrirtækja og stofnana, sem hljóta regluleg rekstrarframlög, né til verkefna eða viðburða sem þegar hafa átt sér stað.

Umsóknir verða ekki teknar til greina ef lokaskýrslur, eða áfangaskýrslur, fyrir verkefni sem fengu styrk árið 2022 eða síðar hafa ekki borist í umsóknarkerfið. Þetta á við styrkveitingar úr „gamla“ Tónlistarsjóði og Hljóðritasjóði, en ekki Útflutningssjóði. 

Tónlistarmiðstöð sinnir úthlutun úr Tónlistarsjóði fyrir hönd Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis.

Hér má nálgast upplýsingar og umsóknargögn.

Umsóknum, áfangaskýrslum og lokaskýrslum skal skilað á rafrænu formi.

Vinnustofa -  Listin að skrifa styrkumsókn

Tónlistarmiðstöð býður tónlistarfólki og fagfólki í tónlistariðnaðinum upp á vinnustofu í styrkumsóknargerð með verkefnastjóranum Julie Runge Bendsen. Vinnustofan mun fara fram á skrifstofu Tónlistarmiðstöðvar, Austurstræti 5, miðvikudaginn 19. mars, klukkan 16.30-18.00.

Julie mun deila með þáttakendum helstu aðferðum sem hún nýtir sér við styrkumsóknargerð. Hún mun fara yfir hagnýtar spurningar og mismunandi sjónarmið sem þarf að velta fyrir sér við gerð styrkumsókna og veita þátttakendum hvatningu og innblástur við umsóknargerðina.

Julie Runge Bendsen er sjálfstætt starfandi verkefnastjóri sem sérhæfir sig í styrkumsóknargerð fyrir norræna tónlistargeirann. Af samstarfsaðilum sem Julie hefur unnið með má nefna Iceland Airwaves, INNI, Lea Kampmann, Source Material og The Physical Cinema Festival. Julie hefur verið hluti af íslensku tónlistarsenunni frá árinu 2015 sem starfsnemi í Mengi, þar sem hún varð síðar rekstrarstjóri. Hún starfaði einnig hjá Tónlistarborginni Reykjavík og öðlaðist þar dýrmæta reynslu af styrkjaumhverfinu í gegnum Úrbótasjóð tónleikastaða og tók þátt í að tryggja veglegan Evrópustyrk fyrir verkefni innan Tónlistarborgarinnar.

Skráningarform og frekari upplýsingar má finna hér >>>

Lestu einnig

Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar