Bransaveisla 2025 tilkynnt!

24 October 2025

Bransaveisla 2025!

Dagana 4.-7. nóvember fer Bransaveislan fram í fimmta sinn. Bransaveislan er ókeypis fræðslu- og viðburðaröð sem Tónlistarmiðstöð og Tónlistarborgin Reykjavík halda með stuðningi frá Íslandsstofu. Tilgangur Bransaveislu er að tengja þá erlendu fagaðila sem eru á landinu í tilefni af Iceland Airwaves, mikilvægustu faghátíð (e. showcase) okkar Íslendinga, beint við íslenska tónlistarsamfélagið. Boðið verður upp á meistaranámskeið, vinnustofur, pallborðsumræður og ýmislegt annað.

Dagskrá Bransaveislunnar í ár er gríðarlega fjölbreytt og metnaðarfull. Meðal helstu viðburða má nefna meistaranámskeið í umboðsmennsku sem er haldið í samstarfi við MMF Iceland. Þetta er í þriðja sinn sem MMF Iceland og Bransaveislan vinna verkefnið í sameiningu og í ár verður það engin önnur en Niamh Byrne, umboðskona Gorillaz og Blur, sem mun leiða meistaranámskeiðið. 

Meðal nýrra verkefna má nefna Feedback, samstarfsverkefni Tónlistarmiðstöðvar og Reykjavik Grapevine sem veitir ungum og upprennandi tónlistarpennum tækifæri til að skrifa um hátíðina undir leiðsögn sérfræðinga úr helstu röðum tónlistarblaðafólks á lands- og heimsvísu. Verkefnið hefst á vinnustofu í menningarmiðlun undir handleiðslu Althea Legaspi, fréttaritstjóra hins goðsagnakennda tónlistartímarits Rolling Stone. 

Fastir liðir verða jafnframt á dagskrá eins og hinir sífellt vinsælu tengslamyndunarfundir, þar sem tónlistarfólk getur bókað örfundi hjá þessum stjörnum prýdda hópi fagfólks sem er hingað komið til að kynnast og tengjast íslensku tónlistarlífi.

Aðgangur að öllum viðburðum Bransaveislu er ókeypis en skráning er nauðsynleg og pláss í sumum tilfellum takmarkað. Því hvetjum við áhugasama eindregið til að kynna sér veisluna sem fyrst og nýta sér þetta einstaka tækifæri til hins ýtrasta.

Dagskrá: 

Einn, tveir og Airwaves!

Hvar: Tónlistarmiðstöð, Austurstræti 5, 101 Reykjavík 
Hvenær: Miðvikudagur, 29. okt @ 17.30-19.00
Viðburðurinn fer fram á íslensku

////////////////////////////////////

Á „Einn, tveir og Airwaves“ fá þátttakendur ráðgjöf um hvernig best sé að nýta þau tækifæri sem skapast í tengslum við faghátíðir (e. showcase festivals) á borð við Iceland Airwaves og Bransaveisluna sjálfa. Viðburðurinn er hugsaður fyrir tónlistarfólk sem er að koma fram á hátíðinni eða tengdum viðburðum og samstarfsfólk þeirra.

Faghátíðir gegna lykilhlutverki fyrir alþjóðlegan tónlistariðnað og er Iceland Airwaves engin undantekning. Hátíðin er árlega sótt af tugum er ekki hundruðum fulltrúa helstu útgáfufyrirtækja, bókara og fleira og er því einn mikilvægasti vettvangur sem íslensku tónlistarfólki býðst til að koma sér á framfæri.

Á „Einn, tveir og Airwaves” gefst gestum tækifæri til að spjalla við aðstandendur hátíðarinnar, fulltrúa íslenska tónlistarbransans og starfsfólk Tónlistarmiðstöðvar um reynslu þeirra og hvernig nýta megi slíka viðburði sem stökkpall fyrir frekari tækifæri.

Meðal þátttakenda verða Sindri Ástmarsson (bókari Iceland Airwaves), Soffía Kristín Jónsdóttir (umboðskona og meðstofnandi Iceland Sync) og Leifur Björnsson (sérfræðingur hjá Tónlistarmiðstöð).

Boðið verður upp á léttar veitingar og notalega stemningu.

Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest!

Takmarkað sætaframboð er í boði.

Nánari upplýsingar og skráningarform má finna hér >>


Sticky Records kynna: Hvað þarf marga fermetra til að hýsa samfélag?

Hvar: Prikið, Bankastræti 12, 101 Reykjavík
Hvenær: Þriðjudag, 4. nóv @ 17.30-19.00
Viðburðurinn fer fram á ensku

////////////////////////////////////

Hvernig mótast rými af samfélaginu sem vex innan þess? Hvernig stuðlar staðurinn að því að samfélagið vaxi út fyrir veggi hans? Hvað þarf til að byggja upp lifandi menningarvistkerfi á örfáum fermetrum?

Í hjarta miðbæjarins hefur Prikið þróast úr litlu kaffihúsi í skapandi miðstöð, plötuútgáfu og menningarlegan hornstein borgarinnar. Innan fárra fermetra hefur myndast vistkerfi þar sem tónlistarfólk, hönnuðir, myndlistarfólk og viðburðahaldarar hrærast saman. 

Sticky Records hefur verið órjúfanlegur hluti af þessari þróun. Útgáfan er óhagnaðardrifin og nýstárleg og hefur eflt og stutt við fjölda listafólks sem hefur lagt grunninn að nýrri bylgju íslenskrar hiphop- og rafsenu.

Þetta samtal sameinar lykilaðila úr tónlistar- og listasenu Reykjavíkur til að ræða hvernig grasrótarrými á borð við Prikið móta og næra samfélag.

Í pallborði sitja: Geoffrey Huntingdon (kolkrabbi Priksins og stjórnandi Sticky Records), Viktor Weisshappel (Strik Studio), Egill Ástráðsson (Garcia Events), Kolbrún Óskarsdóttir (Kusk).

Umræðum stjórnar Rebecca Mason (Inside Out).

Fylgstu með á Facebook viðburðinum >>

Samtal um skapandi greinar: Rekstrarumhverfi tónlistar

Hvar: CCP, Bjargargötu 1, 102 Reykjavík
Hvenær: Miðvikudagur, 5. nóv @ 10.00-11.30

Viðburðurinn fer fram á ensku

////////////////////////////////////

Tónlistarmiðstöð, í samstarfi við Rannsóknarsetur skapandi greina, boðar til opins samtals á Bransaveislu um rekstrarumhverfi tónlistarfólks og tónlistarverkefna.

Viðburðurinn markar fyrsta skrefið í aðgerðaáætlun tónlistarstefnu stjórnvalda, þar sem kveðið er á um að hefja skuli skoðun á rekstrarumhverfi tónlistar á Íslandi og bera það saman við Norðurlönd og önnur lönd þar sem tónlistariðnaður stendur sterkum fótum.

Á viðburðinum kynna fulltrúar úr fræðasamfélaginu og tónlistargeiranum, ásamt erlendum fagaðilum, ólíkar nálganir á hvernig skapa megi öflugt rekstrarumhverfi tónlistarverkefna. Í kjölfarið verður opnað fyrir samtal við viðstadda þar sem áhersla er lögð á að safna sjónarmiðum til áframhaldandi vinnu.

Markmiðið er að leggja grunn að sameiginlegri framtíðarsýn og tryggja að rödd þeirra sem koma að rekstri í tónlist verði hluti af mótun og framkvæmd tónlistarstefnu stjórnvalda.

Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona Rannsóknarseturs skapandi greina, og María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar, flytja erindi. 

Í pallborði sitja: Rakel Mjöll Leifsdóttir (Alda Music), Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir (Reykjavík Early Music Festival), Pétur Oddbergur Heimisson (Jazzhátíð í Reykjavík), og Colm O’herlihy (Inni Music). 

Umræðum stjórnar Nick Knowles (Kxkn Management)

Skráning fer fram hér >>

Fylgstu með á Facebook viðburðinum >>

MMF Iceland kynnir: Meistaranámskeið í umboðsmennsku með Niamh Byrne

Hvar: Tónlistarmiðstöð, Austurstræti 5, 101 Reykjavík 
Hvenær: Miðvikudag, 5. nóv @ 13.30-15.30

Viðburðurinn fer fram á ensku

////////////////////////////////////

Meistaranámskeiðið í umboðsmennsku snýr aftur í samstarfi við MMF Iceland. Í þetta skiptið verður námskeiðið leitt af Niamh Byrne, meðstofnanda Eleven Management og umboðskonu Gorillaz og Blur svo eitthvað sé nefnt. Niamh býr yfir meira en 30 ára reynslu sem umboðskona og stýrir einni af framsæknustu umboðsskrifstofum Bretlands. 

Takmörkuð sæti í boði.

Skráning fer fram hér >>

KÍTÓN kynnir: Ómstrítt: Jafnrétti kynjanna og tónlist

Hvar: Tónlistarmiðstöð, Austurstræti 5, 101 Reykjavík
Hvenær: Miðvikudag, 5. nóv @ 15:00-16.30

Þann 24. október fagnar Ísland 50 ára afmæli Kvennaverkfallsins. Verkfallið varð hvati að víðtækum samfélagsbreytingum sem hafa skilað Íslandi efsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir jafnrétti kynjanna 16 ár í röð.

Þrátt fyrir að konur gegni æðstu embættum þjóðarinnar og stýri mörgum menningarstofnunum landsins er því miður allt aðra sögu að segja af tónlistarheiminum. Meirihluti vinsælustu tónlistar landsins er eftir karla, og samkvæmt gögnum frá STEF eru um 80% skráðra höfunda karlar og fá þeir um 85% höfundarréttarlauna sem STEF úthlutar. 

Hvernig getur þjóð sem þykir fyrirmynd í jafnréttismálum staðið svona illa þegar kemur að tónlistarsköpun? Hvaða hindranir standa í vegi fyrir jöfnum tækifærum? Ef Ísland getur ekki náð þessu – hver getur það þá?

KÍTÓN, í samstarfi við Bransaveislu, bjóða upp á pallborð til að ræða hvernig laga megi þessa skekkju og kynna helstu stefnumál samtakanna.

Í pallborði sitja tónlistarkonurnar Anna Róshildur og Katrín Helga Ólafsdóttir en þær eru báðar í stjórn KÍTÓN. Með þeim verða Guðjón Smári Smárason, tónlistarstjóri FM957, og Paul Bridgewater, ritstjóri breska tónlistarblaðsins The Line of Best Fit.

Umræðum stýrir Josie Gaitens, fjölmiðlakona, verkefnastýra og hattamódel. 

Skráning fer fram hér >>

Fylgstu með á Facebook viðburðinum >>



Tengslamyndunarfundir með fagaðilum í tónlist

Hvar: Bingó, Skólavörðustígur 8, 101 Reykjavík 
Hvenær: Miðvikudagur, 5. nóv @ 17.30-19.30 

////////////////////////////////////

Iceland Airwaves ráðstefnan, sem fer fram dagana 6. og 7. nóvember, dregur að sér fagaðila úr tónlistarheiminum frá öllum heimsins hornum og því er Airwaves vikan kjörið tækifæri til að mynda tengsl á milli íslensks listafólks, fagaðila og hins alþjóðlega tónlistariðnaðar.

Í þeirri viðleitni verða haldnir tengslamyndunarfundir á Bingó þann 5. nóvember frá 17:30-19:30. Þar verður hægt að sækja um 15 mínútna örfundi með þeim alþjóðlegu gestum sem hafa boðið fram sérfræðiþekkingu sína og þjónustu. Í kjölfarið bjóða Tónlistarmiðstöð og Tónlistarborgin Reykjavík þátttakendum upp á Happy Hour á sama stað.

Skráning hefst fimmtudaginn 30. nóvember og verður auglýst sérstaklega.

Lokahóf Bransaveislunnar og Happy Hour

Hvar: Bingó, Skólavörðustígur 8, 101 Reykjavík 
Hvenær: Miðvikudagur, 6. nóv @ 19.30-20.30 

////////////////////////////////////

Að loknum tengslamyndunarfundum býður Bransaveislan vinum. velunnurum og viðstöddum í Happy Hour á Bingó. Að hluta til lokahóf og að hluta til óformlegt fyrirpartý fyrir Iceland Airwaves hátíðina sem hefst fyrir alvöru daginn eftir.

Komið og fagnið með okkur og setjum okkur í stellingar fyrir mikilvægustu tónlistarveislu sem Ísland á.

Fylgstu með á Facebook viðburðinum >>

INNI kynnir: Pitch Party

Hvar: INNI, Bergþórugata 55, 101 Reykjavík 
Hvenær: Föstudagurinn 7. nóv // 17:00 - 19:00 

////////////////////////////////////

Í samvinnu við tónlistarfyrirtækið INNI bjóðum við upp á Pitch Party með teymi tónlistarráðgjafa og Sync sérfræðinga sem eru að sækja hátíðina. Þetta er tækifæri til að koma tónlist fyrir augu og eyru nokkurra af helstu tónlistarráðgjöfum heims en hópurinn verður hér á landi í fylgd Lauren Harman sem hefur unnið með íslenskum tónlistarfyrirtækjum í áraraðir og skapað íslenskum tónlistarfyrirtækjum gríðarleg tækifæri á heimsvísu.

Þátttakendur eru Lauren Harman, Andy Hamm, Alex Hackman og Kelsey Mitchell. 

Takmarkað sætaframboð er í boði - Umsóknarfrestur er til og með 2. nóvember 

Nánari upplýsingar og skráningarform má finna hér >>

Feedback: Nýliðun í menningarmiðlun

Hefur þig alltaf langað að segja heiminum frá því hvernig tónlist lætur þér líða?

Feedback er glænýtt verkefni á vegum Tónlistarmiðstöðvar og The Reykjavík Grapevine í samstarfi við Iceland Airwaves sem býður ungum og metnaðarfullum pennum upp á námskeið í tónlistarblaðamennsku.

Þátttakendur fá tækifæri til að skrifa um Iceland Airwaves fyrir Reykjavík Grapevine og hafa aðgang að skrifstofum og ritstjórn blaðsins á meðan á hátíðinni stendur. Að auki mun Tónlistarmiðstöð halda vinnustofu í tónlistarblaðamennsku miðvikudaginn 5. nóvember kl. 15.30-17.00. Á vinnustofunni fá þátttakendur ráðgjöf og leiðbeiningar frá tónlistarpennum í fremstu röð, þar á meðal Althea Legaspi, fréttaritstjóra hjá Rolling Stone.

Valdir þátttakendur fá blaðamannapassa á hátíðina, þóknun fyrir skrif sín og efni þeirra birtist á vef The Reykjavík Grapevine. Þau fá einnig leiðsögn frá ritstjórum Grapevine og áframhaldandi handleiðslu frá alþjóðlegu blaða og PR-sérfræðingum á meðan á hátíðinni stendur

Hverjir geta sótt um:

Við leitum að forvitnum, opinskáum og áhugasömum einstaklingum með góða enskukunnáttu og brennandi áhuga á lifandi tónlist. Það er ekki gerð krafa um fyrri reynslu af blaðamennsku, eingöngu frumkvæði og fersku sjónarmiði.

Við biðjum umsækjendur um að láta stuttan texta fylgja umsókn. Þetta geta verið vangaveltur um hvað sem er en við mælum með einhverju sem endurspeglar stíl og tón umsækjanda. Það þarf tæplega að taka það fram að við tökum ekki við texta sem er skrifaður af gervigreind.

Umsóknarform má finna hér >>

Lestu einnig
Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar