.jpg)
Síðastliðinn föstudag kallaði RÚV til fundar með tónlistarfólki þar sem ný tónlistarstefna Ríkisútvarpsins var kynnt. Stefnan hefur verið í smíðum undanfarin misseri en hefur nú loks litið dagsins ljós og má finna hana hérna.
Þar setur Ríkisútvarpið sér háleit markmið varðandi miðlun á íslenskri tónlist og undirstrikar stefnan hlutverk RÚV sem bakhjarl íslenskrar tónlistar.
Sjónvarpið: Setur nýja íslenska tónlist í forgrunn og sinnir frumsköpun með umfjöllun, upptökum og fjölbreyttri miðlun. Sýnir reglulega frá tónleikum íslensks tónlistarfólks og tónlistarhátíðum víðsvegar um landið og leggur áherslu á að skýra samhengi og sögu íslenskrar tónlistar í heimildarmyndum og -þáttaröðum.
Rás 1: Íslensk tónlist á að vera 40% af þeirri tónlist sem leikin er árlega. Miðað er við að senda út tónlist frá allt að fimm innlendum tónlistarhátíðir á ári og pöntuð eru að minnsta kosti tvö frumsamin eða nýútsett tónverk á ári.
Rás 2: Íslensk tónlist er að lágmarki 40% þeirrar tónlistar sem leikin er á hverjum sólarhring og skulu sértækir tónlistarþættir vera að lágmarki 20 klukkustundir á viku. Stöðin kynnir jafnframt að lágmarki 5 nýja titla á lagalista í hverri viku og sendir út frá að minnsta kosti 4 stórum tónlistarviðburðum á ári.
Tónlistarráð Rásar 2 notaði einnig tækifærið og tók saman helstu tölfræði ársins 2025 og kynnti á fundinum. Þar kom meðal annars fram að meðal 100 mest spiluðu laga stöðvarinnar var hlutfall íslenskrar og erlendar tónlistar jafnt og það sama á við um kynjahlutfallið. Stöðin frumflutti yfir 800 nýja íslenska titla á árinu og voru 50 nýjar íslenskar plötur kynntar sem plötur vikunnar.
Þessar tölur eru til vitnis um þann metnað sem Rás 2 leggur í að rækta íslenska tónlistarsenu. Við fögnum jafnframt þessari skýru framtíðarsýn og hrósum Ríkisútvarpinu fyrir vel unnin störf í þágu íslenskrar tónlistar.
.jpg)
.jpg)