Ný Tónlistarmiðstöð hefur sig til flugs með formlegri opnun 23. apríl
Tónlistarmiðstöð verður formlega opnuð þann 23. apríl í nýjum höfuðstöðvum við Austurstræti 5 í Reykjavík. Opið hús verður frá klukkan 16:00 þar sem starfsfólk Tónlistarmiðstöðvar tekur vel á móti gestum og gangandi með léttum veitingum og tónlist.
Tónlistarmiðstöð er stofnuð með það að markmiði að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og -iðnaðar. Tillagan að framkvæmd hennar kemur úr skýrslu starfshóps sem skipaður var af mennta- og menningarmálaráðherra á Degi íslenskrar tónlistar þann 1. desember 2020. Þar kom fram:
“Það er grundvallaratriði að styrkja innviði tónlistariðnaðar á Íslandi til þess að hér geti dafnað sá blómlegi atvinnuvegur sem íslensk tónlistarstarfsemi hefur alla burði til þess að vera. Tónlist hefur um árabil verið mikilvægt framlag til ímyndar lands og þjóðar. Þess má geta að virði umfjöllunar um íslenska tónlist og tónlistarfólk á alþjóðavettvangi nam um 7 milljörðum króna árið 2020 skv. skýrslu CISION. Í stofnun Tónlistarmiðstöðvar felst skuldbinding um að gera gott mun betra.”
Í júní 2023 var svo fyrsta heildarlöggjöf um tónlist samþykkt á Alþingi sem markar heildarramma fyrir málefni tónlistar. Þar er bundið í lög að hérlendis skuli starfa Tónlistarmiðstöð en hún var formlega stofnuð við hátíðlega athöfn í Hörpu þann 15. ágúst sama ár. Þann 2. október var svo tilkynnt að María Rut Reynisdóttir yrði framkvæmdastjóri hinnar nýju miðstöðvar.
„Með því að færa íslenskri tónlist varanlegt heimili er verið að taka mikilvæga stefnu til framtíðar og gera þá umgjörð sem við höfum skapað listgreininni mun aðgengilegri. Nú verður hægt að leita á einn og sama staðinn eftir stuðningi, upplýsingum og innblæstri sem áður dreifðist yfir fjölda stofnanna. Þannig sameinast mikilvæg þekking og framtíðaráform undir einu þaki. Verkefni Tónlistarmiðstöðvar eru því mörg og spennandi. Það er ekki síst íslensku tónlistarfólki að þakka sem hefur með krafti sínum kveikt neista sem hefur skilað okkur einskærum áhuga á að leggja stund á tónlist, skapa tónlist og njóta tónlistar.“
–Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Menningar- og viðskiptaráðherra
Stofnaðilar Tónlistarmiðstöðvar eru STEF, Félag hljómplötuframleiðenda, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Tónskáldafélag Íslands auk menningar- og viðskiptaráðherra f.h. ríkissjóðs. Öll félögin eiga fulltrúa í stjórninni, en hana skipa undir formennsku Einars Bárðarsonar þau Sólrún Sumarliðadóttir, Ásmundur Jónsson, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Gunnar Hrafnsson, Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal.
María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, undirrita samning um Nýja Tónlistarmiðstöð. Mynd: Cat Gundry-Beck.
Hlutverk Tónlistarmiðstöðvar er að vera samstarfsvettvangur hagsmunaaðila tónlistar á Íslandi, sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð er jafnframt falin umsjón með rekstri og starfsemi nýs Tónlistarsjóðs sem sameinar gamla Tónlistarsjóð, Hljóðritasjóð og Útflutningssjóð. Upplýsingar um umsóknarfresti má nálgast á nýjum vef miðstöðvarinnar.
Við hlökkum til að taka á móti áhugasömum gestum á nýjum skrifstofum Tónlistarmiðstöðvar. Frá áramótum höfum við lagt allt kapp á að setja saman öflugt teymi, koma okkur fyrir og búa til hlýlega og metnaðarfulla umgjörð fyrir starfsemi miðstöðvarinnar. Við erum sérstaklega spennt að sýna íslenskri tónlistarsenu salinn sem við höfum til umráða þar sem við sjáum fyrir okkur að geta hýst marga spennandi og fræðandi viðburði næstu árin. Við höfum einnig unnið að ásýnd Tónlistarmiðstöðvar og gestir munu fá smjörþefinn af henni. Nú tökum við flugið og framundan er m.a. stefnumótun Tónlistarmiðstöðvar þar sem mörg verða kölluð til. Það eru vissulega spennandi tímar framundan!
– María Rut Reynisdóttir, Framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar
Starfsemi og starfsfólk Tónverkamiðstöðvar og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) færðist inn í nýja Tónlistarmiðstöð s.l. áramót en einnig hefur nýtt starfsfólk verið ráðið. Við Tónlistarmiðstöð starfa því auk framkvæmdastjóra alls þrír sérfræðingar í uppbyggingu innviða og útflutningi tónlistar, verkefnastjóri tónverkasafns og umsjónaraðili tónverka, markaðs- og kynningarstjóri, ráðgjafi í markaðsmálum og efnisframleiðandi, ásamt fjármála- og skrifstofustjóra.
Opnun Tónlistarmiðstöðvar fer fram þann 23. apríl og kl 16:00 verður opið hús fyrir öll áhugasöm á skrifstofum miðstöðvarinnar, Austurstræti 5, Reykjavík.