Bransaveisla 2024!
Bransaveislan 2024 tilkynnt - Viðburðaröð fyrir íslenska tónlistarsamfélagið þar sem einstakt tækifæri gefst til að tengjast alþjóðlegum fagaðilum úr tónlistariðnaðinum.
Dagana 4.-6. nóvember næstkomandi fer Bransaveislan fram í fjórða sinn. Bransaveislan er ókeypis fræðslu- og viðburðaröð sem Tónlistarmiðstöð og Tónlistarborgin Reykjavík halda utan um, með stuðningi frá Íslandsstofu, og er tilgangur hennar að tengja þá erlendu fagaðila sem eru á landinu í tilefni af Iceland Airwaves, mikilvægustu faghátíðar (e. showcase) okkar Íslendinga, beint við íslenska tónlistarsamfélagið. Boðið verður upp á meistaranámskeið, vinnustofur og ýmis önnur tækifæri til tengslamyndunar í miðbæ Reykjavíkur.
Samhliða Iceland Airwaves hátíðinni verður haldin einhver metnaðarfyllsta tónlistarráðstefna sem Ísland hefur séð. Tónlistarmiðstöð og Tónlistarborgin Reykjavík, ásamt Iceland Airwaves og Íslandsstofu, koma að bókun þessarar ráðstefnu og bjóða til landsins helstu frumkvöðlum og framúrskarandi einstaklingum úr alþjóðlega tónlistariðnaðinum. Bransaveislan er hugsuð sem viðbótardagskrá við þessa glæsilegu ráðstefnu og hefur það hlutverk að beintengja fagaðila alþjóðlega tónlistariðnaðarins við íslenskt tónlistarsamfélag.
Dagskrá Bransaveislunnar í ár er gríðarlega fjölbreytt og metnaðarfull og eru hápunktar hennar ýmsir. Júnía Lín, listrænn stjórnandi Laufeyjar, segir frá ferli sínum og James Sandom og Al Mills, frá umboðsskrifstofunni Red Light UK, halda meistaranámskeið fyrir íslenskan tónlistariðnað. Að auki hefst á Bransaveislunni námskeiðaröð sem ber nafnið „Útrás” og er ætluð fyrir listafólk sem hugar að útflutningi tónlistar sinnar. Fastir liðir verða jafnframt á dagskrá eins og hinir vel sóttu tengslamyndunarfundir, þar sem tónlistarfólk getur bókað tíma hjá þessum stjörnum prýdda hópi fagfólks sem er hingað komið til að kynnast og tengjast íslensku tónlistarlífi.
Aðgangur að öllum viðburðum Bransaveislu er ókeypis en skráning er nauðsynleg og pláss í sumum tilfellum takmarkað. Því hvetjum við áhugasama eindregið til að kynna sér veisluna sem fyrst og nýta sér þetta einstaka tækifæri til hins ýtrasta.
Dagskrá:
Einn, tveir og Airwaves!
Hvar: Tónlistarmiðstöð, Austurstræti 5, 101 Reykjavík
Hvenær: Mánudagur, 4. nóv @ 17.00-18.30
////////////////////////////////////
Í ár ætlum við að hefja leikinn með því að bjóða upp á óformlegan og opinn viðburð sem ber nafnið „Einn, tveir og Airwaves”. Þar gefst þátttakendum færi á að kynna sér og fá ráðgjöf um þau tækifæri sem myndast í tengslum við faghátíðir (e. Showcase festival) eins og Iceland Airwaves og Bransaveisluna. Við munum einnig kynna starf Tónlistarmiðstöðvar og hvernig hægt er að nýta þjónustu okkar ásamt því að ræða hvernig við getum komið betur til móts við tónlistarsamfélagið sem við þjónum.
Við bjóðum upp á léttar veitingar og rólegheit og vonumst til að sjá sem flesta.
Fylgstu með á Facebook viðburðinum >>
Mental Health Matters - Andleg heilsa í tónlistariðnaðinum /// Í samstarfi við MMF Iceland
Hvar: Tónlistarmiðstöð, Austurstræti 5, 101 Reykjavík
Hvenær: Þriðjudagur, 5. nóv @ 14.00-16.00
//////////////////////////////////////////
Í samstarfi við MMF Iceland og Tamsin Embleton frá Music Industry Therapist Collective bjóðum við upp á pallborðið Mental Health Matters, þar sem kafað verður ofan í ýmis málefni sem snúa að andlegri heilsu í tónlistariðnaðinum. Í takt við aukið álag á tónlistarfólk og fagaðila í tónlistariðnaðinum hefur áherslan á andlega heilsu einnig aukist og leitast þetta pallborð við að svara algengum spurningum um hvernig best er að hlúa að heilsu fagaðila og skjólstæðinga þeirra, listafólksins.
Fram koma:
Tamsin Embleton: Tamsin er stofnandi, menntaður geðlæknir og stofnandi Music Industry Therapist Collective. Hún hefur um áraraðir verið leiðandi rödd á sviði andlegrar heilsu í tónlistariðnaðinum og ritstýrði þar á meðal Touring and Mental Health: The Music Industry Manual sem var valin bók ársins af Rough Trade árið 2023.
Nanna Bryndís: Nanna er þekktust sem söngkona og lagahöfundur hljómsveitarinnar Of Monsters and Men sem er ein af vinsælustu hljómsveitum Íslandssögunnar. Árið 2023 gaf Nanna út fyrstu sólóplötuna sína How To Start a Garden.
Árni Þór Árnason: Með meira en 20 ára reynslu af tónlistariðnaðinum, bæði sem listamaður og umboðsmaður, býr Árni yfir gífurlega fjölbreyttri reynslu sem snertir á ýmsum sviðum iðnaðarins. Undanfarin átta ár hefur Árni sinnt umboðsmennsku fyrir Ólaf Arnalds, en þess fyrir utan er hann meðstofnandi og stjórnarformaður OPIA Community og MMF Iceland.
Umræðum verður stjórnað af Grími Atlasyni sem býr yfir 35 ára reynslu af tónleikahaldi og var þar á meðal framkvæmdastjóri Iceland Airwaves á árunum 2010-2018. Í dag er Grímur framkvæmdastjóri Geðhjálpar og tónlistarmaður í hjáverkum.
Fylgstu með á Facebook viðburðinum >>
‘Fireside Chat’ með Júníu Lín
Hvar: Tónlistarmiðstöð, Austurstræti 5, 101 Reykjavík
Hvenær: Þriðjudag, 5. nóv @ 16.00-17.00
////////////////////////////////////
Við kynnum með stolti svokallaðan „við arininn“ viðburð þar sem engin önnur en Júnía Lín ætlar að segja frá reynslu sinni sem listrænn stjórnandi, þar á meðal fyrir Grammy-verðlaunahafann Laufey. Júnía er sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu og hefur fágað en leikandi innsæi hennar spilað gríðarstórt hlutverk í stjarnfræðilegri velgengni Laufeyjar.
Umræðum verður stýrt af Helenu Sif Gunnarsdóttur sem er ráðgjafi í markaðs- og kynningarmálum hjá Tónlistarmiðstöð.
Ekki missa af einstöku tækifæri til að fræðast um fólkið sem styður við bakið á listamönnum.
Fylgstu með á Facebook viðburðinum >>
Útrás - Námskeið
Hvar: Tónlistarmiðstöð, Austurstræti 5, 101 Reykjavík
Hvenær: Þriðjudag, 5. nóv @ 17.30-19.30
////////////////////////////////////
Tónlistarmiðstöð býður öllum áhugasömum á námskeið í undirbúningi tónlistarverkefna til útflutnings. Námskeiðið hefst formlega á Bransaveislu og nýtist iðkendum allra tónlistarstefna, er öllum opið og þar að auki frítt.
Námskeiðinu er ætlað að valdefla sjálfstætt starfandi tónlistarfólk, veita því tól og tæki til að koma list sinni á framfæri og verða þannig tilbúið til útflutnings eða „export ready“.
Á þessum fyrsta viðburði námskeiðsins verður haldið pallborð um almannatengsl, markaðssetningu og „bio“-skrif og er tilgangurinn sá að þátttakendur fái heildarsýn á efni og verkfæri sem þarf til að kynna tónlistarverkefni og skerpi á markmiðum sínum í kynningarstarfi.
Paul Bridgewater: Paul er ritstjóri The Line of Best Fits em er stærsta tónlistarblað Bretlands sem einblínir á nýja tónlistaruppgötvun. Hann er einn ötulasti stuðningsmaður íslenskrar tónlistar á alþjóðavísu og hefur blaðið birt yfir 300 greinar um íslenska tónlist á 17 ára starfsævi sinni.
Sophie Walker: Einn af áhugaverðustu tónlistarpennum samtímans. Sophie hóf feril sinn hjá Paul á Best Fit en starfar samhliða skrifunum sem almannatengslafulltrúi hjá Toast Press.
Becky Mason: Becky er almannatengslafulltrúi hjá Inside Out sem er stærsta sjálfstæða markaðsskrifstofu Bretlands. Meðal skjólstæðinga hennar má nefna Bloc Party, CHVRCHES, Pale Waves og auðvitað Iceland Airwaves!
Leifur Björnsson mun stýra umræðum en hann er teymisstjóri útflutnings hjá Tónlistarmiðstöð ásamt því að sinna verkefnastjórn fyrir Record in Iceland verkefnið.
Fylgstu með á Facebook viðburðinum >>
Sync Masterclass with Lauren Harman /// Hosted by INNI
Hvar: INNI, Bergþórugata 55, 101 Reykjavík
Hvenær: Þriðjudaginn 5. nóv // 19:00 - 21:00
////////////////////////////////////
Í samvinnu við tónlistarfyrirtækið INNI bjóðum við upp á Sync Masterclass með Lauren Harman. Um er að ræða viðburð sem skiptist í fyrirlestur þar sem Lauren kynnir þátttakendur fyrir Sync-geiranum og tækjum, tólum og aðferðum honum tengdum. Síðari hlutinn er óformlegri en þá geta þátttakendur fengið nánari ráðgjöf, spurt spurninga, deilt tónlist sinni með Lauren og fengið endurgjöf.
Þetta er einstakt tækifæri til að nýta sér sérþekkingu fagaðila sem er allra fremst á sínu sviði.
Lauren er sjálfsskipuð „Sync-frænka“ og algjör frumkvöðull á sviði umsýslunar með tónlist fyrir myndefni (sync). Hún hefur unnið með listamönnum á borð við Andrew Bird, Beach House, Sufjan Stevens, Grizzly Bear, Justice ásamt hundruðum annarra og hefur sú vinna hennar skapað fleiri milljónir bandaríkjadala í innkomu fyrir listamenn, útgáfufyrirtæki, tónlistarforleggjara og umboðsmenn.
Í dag rekur hún ráðgjafafyrirtækið Very Well LLC sem byggir á 20 ára reynslu henni í framlínu sync iðnaðarins og veitir fyrirtækið tónlistariðnaðinum ráðgjöf um hvernig hámarka skal sync innkomu sína og koma til móts við þarfir tónlistarstjóra myndefnis.
Takmarkað sætaframboð er í boði - Umsóknarfrestur er til og með 31. október
Fylgstu með á Facebook viðburðinum >>
Polaris Music Hub Presentation /// hosted by STEF
Hvar: STEF, Laufásvegur 40, 101 Reykjavík
Hvenær: Miðvikudag 6. nóv @ 12.00-13.00
////////////////////////////////////
Norðurlöndin hafa ætíð verið leiðandi á sviði tónlistarstreymis, með hæsta hlutfall notenda á heimsvísu. Þar sem streymisformatið er hins vegar að ná hápunkti velgengni sinnar þarf að staldra við og skoða hvernig Norðurlöndin standa gagnvart nýjum veruleika þar sem verðhækkanir, gervigreind og ofuraðdáendur ráða ríkjum.
Zach Fuller gagnagreinandi sinnir rannsóknum fyrir Polaris Music Hub, en miðstöðin annast samningsgerð við alþjóðlegar streymisveitur (eins og Spotify og TikTok) fyrir hönd höfundarréttarsamtaka á Norðurlöndunum. Zach mun fjalla um nýjustu þróunina í norrænum tónlistariðnaði og hvert markaðurinn stefnir í náinni framtíð.
Zach býr yfir tíu ára reynslu af gagnagreiningu á sviði tónlistar og hefur þar á meðal starfað fyrir Warner Music Group, IFPI og MIDiA Research. Financial Times og The Economist hafa vitnað ítarlega í rannsóknir hans og hann hefur verið tíður gestur á ráðstefnum eins og MIDEM, Music Biz Nashville og SXSW.
Boðið verður upp á léttan hádegisverð.
Takmörkuð sæti eru í boði
Fylgstu með á Facebook viðburðinum >>
Management Masterclass with James Sandom & Al Mills - Red Light Management /// Hosted by MMF Iceland
Hvar: Tónlistarmiðstöð, Austurstræti 5, 101 Reykjavík
Hvenær: Miðvikudagur, 6. nóv @ 14.00-16.00
////////////////////////////////////
Frá upphafi Bransaveislunnar hefur verið boðið upp á metnaðarfullt MANAGEMENT MASTERCLASS með frábærum umboðsmönnum og nú, annað árið í röð, er viðburðurinn haldinn í samstarfi við MMF Iceland. Að þessu sinni erum við svo heppin að hafa fengið til liðs við okkur James Sandom og Al Mills frá Red Light UK.
James Sandom er einn af stofnendum Red Light UK og margverðlaunaður umboðsmaður listamanna, lagahöfunda og pródúsera með 25 ára reynslu á bakinu. Al Mills er önnur lykilmanneskja hjá fyrirtækinu en áður en hún hóf störf hjá Red Light UK vann hún í Rough Trade London þar sem skoðanir hennar og listrænt innsæi spilaði stóran þátt í frama margra listamanna.
Á meðal listamanna á þeirra bókum má nefna The Strokes, Interpol, Belle & Sebastian og Ride. Red Light UK eru með þrjá listamenn á Iceland Airwaves hátíðinni í ár en það eru The Vaccines, Mary and The Junkyard og Monobloc.
Takmarkað sætaframboð er í boði.
Fylgstu með á Facebook viðburðinum >>
Tengslamyndunarfundir með fagaðilum í tónlist // International speed-meetings
Hvar: Bingó, Skólavörðustígur 8, 101 Reykjavík
Hvenær: Miðvikudagur, 6. nóv @ 16.00-18.00
////////////////////////////////////
IA ráðstefnan sem fer fram dagana 7. og 8. nóvember dregur að sér fagaðila úr tónlistarheiminum frá öllum heimsins hornum og því er Airwaves vikan kjörið tækifæri til að mynda tengsl á milli íslensks listafólks, fagaðila og hins alþjóðlega tónlistariðnaðar.
Í þeirri viðleitni verða haldnir tengslamyndunarfundir á Bingó þann 6. nóvember frá 16-18 þar sem hægt er að sækja um 15 mínútur í „speed-dating’ fund með þeim alþjóðlegu gestum sem hafa boðið fram sérfræðiþekkingu sína og þjónustu. Í kjölfarið bjóða Tónlistarmiðstöð og Tónlistarborgin Reykjavík þátttakendum upp á Happy Hour á sama stað.
Þetta er fjölbreyttur hópur fagaðila frá flestum sviðum tónlistariðnaðarins, til dæmis hátíðarbókarar, útgefendur, umboðsmenn og markaðsfulltrúar frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi.
Frekari upplýsingar + skráning fer fram hér >>
Fylgstu með á Facebook viðburðinum >>
Happy Hour
Hvar: Bingó, Skólavörðustígur 8, 101 Reykjavík
Hvenær: Miðvikudagur, 6. nóv @ 18.00-20.00
////////////////////////////////////
Tónlistarmiðstöð og Tónlistarborgin Reykjavík, í samvinnu við Íslandsstofu, bjóða þátttakendum í Bransaveislu og öðrum gestum Iceland Airwaves hátíðarinnar í lokahóf Bransaveislunnar og óformlegt fyrirpartý fyrir Iceland Airwaves hátíðina sem hefst fyrir alvöru daginn eftir.
Komið og fagnið með okkur og setjum okkur í stellingar fyrir mikilvægustu tónlistarveislu sem Ísland á.