Auglýst eftir umsóknum vegna úthlutunar úr Tónlistarsjóði
Tónlistarmiðstöð auglýsir eftir umsóknum vegna fyrri úthlutunar Tónlistarsjóðs árið 2025. Umsóknarfrestur er til og með 1. nóvember kl.15:00.
Samkvæmt tónlistarlögum og reglum um Tónlistarsjóð er hlutverk sjóðsins að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistariðnaði. Sjóðurinn skal stuðla að kynningu á íslensku tónlistarfólki og tónsköpun hér á landi sem erlendis.
Tónlistarsjóður veitir fimm styrki úr fjórum deildum:
Tónlistarstyrkir – veittir úr deild frumsköpunar og útgáfu. Styrkur til að semja tónlist, taka hana upp, gefa út og kynna.
Flytjendastyrkir – veittir úr deild lifandi flutnings. Styrkur til tónleikahalds og tónleikaferða innanlands. Langtímastyrkir eru í boði.
Viðskiptastyrkir – veittir úr deild þróunar og innviða. Styrkur vegna tónlistarverkefna svo sem tónlistarhátíða, tónleikastaða, viðskiptahugmynda í tónlist og sprotaverkefna. Langtímastyrkir eru í boði.
Markaðsstyrkir – veittir úr deild útflutnings. Styrkur til að vekja athygli erlendis.
Ferðastyrkir – veittir úr deild útflutnings. Sótt er um á vef Tónlistarmiðstöðvar á tveggja mánaða fresti. Styrkur vegna ferðalaga til að sækja sér tækifæri erlendis.
Styrkir úr Tónlistarsjóði skulu veittir til ákveðinna verkefna og að jafnaði ekki lengur en til 18 mánaða í senn. Almennt eru ekki veittir styrkir til rekstrar og umsýslu samtaka, fyrirtækja og stofnana, sem hljóta regluleg rekstrarframlög, né til verkefna eða viðburða sem þegar hafa átt sér stað.
Umsóknir verða ekki teknar til greina ef lokaskýrslur, eða áfangaskýrslur, fyrir verkefni sem fengu styrk árið 2022 eða síðar hafa ekki borist í umsóknarkerfið.. Þetta á við styrkveitingar úr „gamla“ Tónlistarsjóði og Hljóðritasjóði, en ekki Útflutningssjóði.
Tónlistarmiðstöð sinnir úthlutun úr Tónlistarsjóði fyrir hönd Menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Hér má nálgast upplýsingar og umsóknargögn.
Umsóknum, áfangaskýrslum og lokaskýrslum skal skilað á rafrænu formi.
Vinnustofa - skrifum umsóknirnar saman
Tónlistarmiðstöð, í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík og Eddu Konráðsdóttur framkvæmdastjóra Iceland Innovation Week, býður upp á vinnustofu þar sem umsækjendur geta fengið ráðleggingar og aðstoð við skrif styrkumsókna. Vinnustofan fer fram í húsnæði Tónlistarmiðstöðvar, Austurstræti 5, 101 Reykjavík, þann 9. október.