Undirritaður samningur Tónlistarmiðstöðvar við ráðherra
Fyrsta úthlutun Tónlistarsjóðs fór fram við hátíðlega athöfn föstudaginn 23. febrúar í nýju húsnæði Tónlistarmiðstöðvar í Austurstræti 5. Við sama tækifæri undirrituðu María Rut Reynisdóttir framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra formlega undir samning um nýja íslenska Tónlistarmiðstöð.
„Okkur hefur tekist að stórefla umgjörð um tónlistarlífið í landinu í samræmi við skýra framtíðarsýn þar um. Það er ánægjulegt að sjá hina nýju Tónlistarmiðstöð taka til starfa og úthluta í fyrsta sinn úr nýjum og öflugri Tónlistarsjóð. Við eigum fjöldann allan af framúrskarandi tónlistarmönnum sem láta til sín taka hérlendis sem og erlendis. Öll þessi vinna er tileinkuð þeim,“
sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Tónlistarlög 33/2023 tóku gildi þann 7. júní 2023. Þar í II. kafla er bundið í lög að hér skuli starfa Tónlistarmiðstöð með fjölþætt hlutverk að uppbyggingu tónlistar á Íslandi, en hún var formlega stofnuð við hátíðlega athöfn í Hörpu þann 15. ágúst sama ár. Þann 2. október var svo tilkynnt að María Rut Reynisdóttir yrði framkvæmdastjóri hinnar nýju miðstöðvar.
Tónlistarmiðstöð er stofnuð með það að markmiði að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og -iðnaðar. Á árunum 2023-2025 er ráðgert að samtals 600 milljónir renni af fjárlögum til stofnunar Tónlistarmiðstöðvar og til eflingar sjóða tónlistar til viðbótar við þau framlög sem renna nú þegar til tónlistar.
Tónlistarmiðstöð mun bæði sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð mun styðja við uppbyggingu sprota og hlúa að ferli listafólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjölbreytni og grósku og að starfsumhverfið verði nútímalegt og hvetjandi fyrir íslenskt tónlistarlíf.
Starfsemi og starfsfólk Tónverkamiðstöðvar og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) færast inn í nýja Tónlistarmiðstöð sem tekur við hlutverki þeirra í dreifingu á tónverkum og útflutningi á íslenskri tónlist. Til viðbótar við þeirra teymi hafa bæst við fjármála- og skrifstofustjóri ásamt sérfræðingi í uppbyggingu og útflutningi á sígildri - og samtímatónlist.
„Það er einstaklega spennandi áskorun að fá að leiða nýja Tónlistarmiðstöð og vinna að hag íslenskrar tónlistar um land allt sem og erlendis. Stofnun Tónlistarmiðstöðvar er stórt skref fyrir íslenskt tónlistarlíf og þar sameinast Útón, Tónverkamiðstöð og hið nýja Inntón undir einum og sama hattinum þar sem unnið verður að því að efla allar hliðar tónlistarlífsins,“
– María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar
Auk þess að vera samstarfsvettvangur hagsmunaaðila um tónlist er Tónlistarmiðstöð jafnframt falin umsjón með rekstri og starfsemi nýs Tónlistarsjóðs en í hann renna gamli tónlistarsjóður, hljóðritasjóður og útflutningssjóður.
Nýr Tónlistarsjóður skiptist í fjórar deildir, með skilgreindum hlutföllum til úthlutana: Þróun og innviðir 21%, frumsköpun og útgáfa 25%, lifandi flutningur 25% og útflutningur 17%. Þar að auki munu 12% deilast á milli sjóða eftir ásókn umsækjenda og áherslum sjóðsins hverju sinni.
Fyrsta úthlutun fór fram 23. febrúar úr deildum lifandi tónlistarflutnings og innviða og má nálgast hér upplýsingar um veitta styrki. Í apríl verður opnað fyrir umsóknir um styrki úr öllum deildum.