Ásgeir, Moyka og Elinborg á leiðinni til Mexíkó!

Listafólkið Ásgeir, Moyka og Elinborg hefur verið valið til að taka þátt í Mexico Calling - nýju samstarfsverkefni Music Norway, Faroe Music Export og Tónlistarmiðstöðvar, með stuðningi frá Norræna menningarsjóðnum og LiveMX.

Listafólkið mun koma fram á þrennum tónleikum á tónleikastaðnum Foro Indie Rocks! í Mexíkóborg dagana 17., 19, og 22. nóvember. Tónleikarnir marka hápunktinn í fjölþættu langtímaverkefni sem miðar að því að tengja listafólkið við einn af líflegustu og örast vaxandi tónlistarmörkuðum heims.

Listafólkið

Alt-popp listakonan Moyka (Noregur) hefur verið gríðarlega afkastamikil undanfarin ár og hlotið mikið lof fyrir vikið. Moyka, sem hefur verið kölluð “norska poppnornin” og “framtíð skandípoppsins”, gaf nýverið út smáskífuna 24/7 og fer nú með nýtt og spennandi efni til Mexíkó

Elinborg (Færeyjum) hefur getið sér gott orð fyrir myrkt elektrópopp sem byggir á færeyskum rótum hennar. Samhliða sólóferlinum hefur Elinborg einnig gefið út tónlist með pan-skandinavísku hljómsveitinni Hoym sem inniheldur meðal annars íslensku listakonuna K.Óla. Elinborg stefnir á útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar Í Ævir í haust.

Ásgeir (Íslandi) þarf varla að kynna fyrir Íslendingum en hann söng sig inn í hjörtu þjóðarinnar með plötunni Dýrð í dauðaþögn fyrir um 13 árum síðan. Ásgeir stefnir nú á útgáfu nýrrar plötu Julia og spilar þessi ferð til Mexíkóborgar mikilvægt hlutverk í kynningarherferð hennar.

Lestu einnig
Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar