Skekkjan: Hlutföll kynjanna í íslenskri tónlist
Við hjá Tónlistarmiðstöð settum nýverið saman lagalistann Iceland Music Charts. Listinn er vikuleg samantekt yfir mest spiluðu lögin á Íslandi og byggir á tölum frá streymisveitum og öllum helstu útvarpsstöðum landsins.
Iceland Music Charts er að okkar bestu vitund fyrsti listinn sem sameinar þessi gögn á reglulegan og faglegan hátt og sýnir þannig svart á hvítu hvaða íslenska tónlist er raunverulega vinsælust að hverju sinni.
Eftir að hafa uppfært hann vikulega undanfarinn mánuð blasir við okkur sú mikla kynjaskekkja sem þar er við völd. Í nýjustu uppfærslu listans eru einungis tvö lög flutt eða samin af konum – Á öllum hinum lögunum (sem eru 20 talsins) eru engar konur skráðar sem lagahöfundar eða pródúsentar.
Þetta endurspeglast einnig í nýlegum gögnum frá STEF, þar sem fram kemur að 80% skráðra höfunda árið 2024 voru karlar – og að um 85% af höfundagreiðslum það ár runnu til þeirra.

Í þessu samhengi tók tónlistarkonan Anna Róshildur það að sér að búa til lagalistann Skekkjur, með lögum eftir konur og kynsegin tónlistarfólk. Listinn er aðgengilegur á Spotify og hvetjum við alla til að hlusta á hann.