Minnumst Jóns Nordals
Jón Nordal, fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskóla Reykjavíkur og eitt ástsælasta tónskáld þjóðarinnar, lést í gær, þann 5. desember, 98 ára að aldri.
Eftir Jón liggja gríðarleg menningarverðmæti, en hann samdi ótal einleiks- og hljómsveitaverk, kammertónlist, konserta, kórlög og fleira. Mörg laga hans hafa skipað sér stóran sess í þjóðarvitund Íslendinga og má þar nefna lagið “Smávinir fagrir” sem hann samdi við Hulduljóð Jónasar Hallgrímssonar sem og “Hvert örstutt spor” úr Silfurtungli Halldórs Laxness. Með stærri hljómsveitarverka hans má nefna Bjarkamál (1956), Brotaspil (1962), Leiðslu (1973), Langnætti (1975), Tvisöng (1979) og Choralis sem var samið að ósk Mstislav Rostropovich, og frumflutt undir hans stjórn í Washington DC árið 1982.
Auk þess að vera afkastamikið tónskáld sinnti Jón mikilvægu hlutverki á öðrum sviðum íslenskrar tónlistarmenningar. Hann var skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík frá árinu 1959 til 1992, sat í stjórn Tónskáldasjóðs Ríkisútvarpsins í hartnær hálfa öld ásamt því að vera einn af stofnendum og fyrsti formaður Musica Nova, félagsskapar um flutning nútímatónlistar á Íslandi.
Jón var sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1993 og hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2010.
Til að minnast Jóns höfuð við safnað saman nokkrum af vinsælustu verkum Jóns í nótnaveitu Tónlistarmiðstöðvar hér, en einnig er hægt að hlusta á upptökur af verkunum í safninu hér.