Tónlistarmiðstöð fer á WOMEX 2024

1
.  
October
 
2024

Tónlistarmiðstöð verður með viðveru á WOMEX tónlistarhátíðinni í ár en hátíðin verður haldin í Manchester á Englandi, 23-27 október næstkomandi.

WOMEX er í senn tónlistarhátíð og ráðstefna tileinkuð tónlist frá öllum heimshornum og er hún sú stærsta sinnar tegundar í Evrópu með yfir 2600 gesti frá yfir 90 þjóðlöndum, á ráðstefnunni einni saman.

Tónlistarmiðstöð verður, ásamt hinum norðurlöndunum, með bás á norræna svæðinu og verður hann m.a. mannaður íslensku tónlistarfólki sem verður þar til að kynna sín verkefni og leita sér viðskiptasambanda.

Þau sem mynda sendinefndina frá Íslandi í ár eru þau:

Jóhann Ingi Benediktsson, Harpa Þorvaldsdóttir, Sigmar Þór Matthíasson og Guðmundur Atli Pétursson fyrir hönd hljómsveitinnar Brek, þær Alexandra Kjeld og Arngerður María Árnadóttir fyrir hönd tónlistarhópsins Umbru, einyrkinn Svavar Knútur Kristinsson og Sigtryggur Baldursson fyrir hönd Tónlistarmiðstöðvar.

Sendinefndin mun kynna fyrir hátíðinni íslensku lagalistana sem Tónlistarmiðstöð heldur úti á streymisveitum og endurgreiðslukerfið Record in Iceland, sem veitir endurgreiðslur fyrir hljóðritanir sem fram fara á Íslandi. 

Þau sem hafa áhuga á þessari hátíð og ráðstefnu geta enn skráð sig og tekið þátt, enda öllum opið sem áhuga hafa á þessum geira tónlistar. Upplýsingar veitir Sigtryggur Baldursson á netfangi sigtryggur@icelandmusic.is.

Sigtryggur Baldursson

Sigtryggur Baldursson á að baki áralangan og framúrskarandi feril í tónlist, bæði listrænan og faglegan. Einn þekktasti trommuleikari landsins og brautryðjandi í útflutningi sjálfur með Sykurmolunum á níunda áratugnum. Hefur hann í seinni tíð gjörbreytt landslagi tónlistar á Íslandi sem framkvæmdastjóri ÚTÓN en í stjórnartíð hans kom hann meðal annars á fót Útflutningssjóði íslenskrar tónlistar og Record in Iceland endurgreiðslukerfinu.

Svavar Knútur

Með einlægni og einfaldleika að vopni hefur Svavar Knútur náð að skapa sér sérstöðu jafnt fyrir frumsamin lög sín og túlkun á sígildum íslenskum sönglögum. Hann er þekktur fyrir að blanda saman húmor og alvarlegum málefnum, að draga áhorfendur sína gegnum hláturrokur og táradali með kærleikann og gleðina sem endastöð. Svavar hefur lýst sjálfum sér sem Brokkolíi tónlistarinnar, ekkert endilega hvers manns hugljúfi, en meinhollur og lúmskt góður ofnbakaður með bráðnum osti.

Umbra

Íslenski tónlistarhópurinn Umbra var stofnaður árið 2014 af fjórum kvenkyns tónlistarmönnum sem sameinast af ástríðu fyrir fornum og nýjum tónlistarstefnum. Frá upphafi hefur sýn þeirra verið að skapa sinn eigin tónlistarheim með sérstökum hljómi og einstökum flutningi á fornum, hefðbundnum og nýjum tónverkum. Efnisskrá hópsins samanstendur af frumlegum útsetningum á hefðbundnum lögum og helgum og veraldlegum miðaldatónverkum frá Íslandi og meginlandi Evrópu. Auk þess hafa þær flutt íslensk nútímatónverk eftir nokkra af fremstu tónskáldum landsins.

Alexandra Kjeld og Arngerður María Árnadótti fara fyrir hönd hljómsveitarinnar Umbra.

Brek

Tónlist Breks er að mestu leyti frumsamin og byggir hún á fjölbreyttum áhrifum frá ýmsum stílum þjóðlagatónlistar. Með áherslu á að skapa heillandi en aðgengilegt andrúmsloft býður Brek uppá ríkulegan hljóðheim í bland við augnablik sem ögra hlustendum.

Kjarni tónlistar Breks byggir á fjölþættri notkun íslensks máls og með því að blanda hefðbundinni íslenskri þjóðararfleifð við einkenni annarra þjóðlegra hefða reyna þau að brjóta niður múra tónlistarstefna og rækta sérhæfðan hljóðheim.

Brek hefur látið mikið fyrir sér fara í íslenski tónlistarsenunni en árið 2022 var fyrsta plata þeirra kosin plata ársins í flokki þjóðlagatónlistar á Íslensku Tónlistarverðlaunin.

Lestu einnig

Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar