Iceland Airwaves kynnir rísandi íslenskar stjörnur á stórhátíðinni SXSW í Texas

Iceland Airwaves, í samstarfi við Tónlistarmiðstöð og Íslandsstofu, tilkynnti í dag þátttöku sína á SXSW hátíðinni í Texas nú í mars. Á Iceland Airwaves tónleikunum koma fram söngvaskáldið ástsæla Elín Hall, tiraunapopplistakonurnar Lúpína og Sunna Margrét og indí-partíbandið í Superserious, en öll spiluðu þau einmitt á Iceland Airwaves hátíðinni í nóvember síðastliðnum.

Iceland Airwaves þarf vart að kynna til leiks hér á landi, en hátíðin, sem fagnaði 25 ára afmæli sínu á síðasta ári, hefur í áratugaraðir verið einn mikilvægasti vettvangur íslensks tónlistarfólks til að koma sér á framfæri – bæðii innanlands og fyrir þann gríðarlega fjölda erlendra fagaðila sem sækja hátíðina ár hvert. Mikilvægi hátíðarinnar á alþjóðavísu endurspeglast í áframhaldandi samstarfi hennar við SXSW en SXSW hátíðin, sem haldin er árlega í höfuðborg Texas, Austin, telst vera ein af stærstu og mikilvægustu faghátíðum og ráðstefnum í heimi.
Tónleikarnir fara fram þriðjudaginn 11. mars á tónleikastaðnum Shangri La í stórskemmtilegum austurhluta borgarinnar. Fyrir tónleikana mun Record in Iceland bjóða gestum í fordrykk á sama stað.
Allar nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Iceland Airwaves