Hátíðapotturinn: State of the Art og Sátan hljóta stuðning
.jpg)
Úthlutað hefur verið úr Hátíðapotti Tónlistarmiðstöðvar og Íslandsstofu og hlutu tónlistarhátíðirnar State of the Art og Sátan stuðning. Við óskum þessum metnaðarfullu og glæsilegu hátíðum innilega til hamingju.
Markmið Hátíðapottsins er að aðstoða íslenskar tónlistarhátíðir við að bjóða erlendum fjölmiðlum, listrænum stjórnendum og öðrum lykilaðilum til landsins í þeim tilgangi að kynna íslenskt tónlistarfólk, menningu og auðvitað hátíðirnar sjálfar.
Hátíðapotturinn var auglýstur í lok febrúar og lokaði fyrir umsóknir þann 25. mars. Alls bárust umsóknir frá sextán tónlistarhátíðum um land allt. Það var einstaklega ánægjulegt að sjá hversu fjölbreytt og lífleg tónlistarhátíðasenan er og var áhuginn á verkefninu gríðarlegur. Því standa vonir til að umfang Hátíðapottsins geti aukist á næstu árum.
Um hátíðirnar
State of the Art
Tónlistarhátíðin State of the Art fer fram í Reykjavík aðra vikuna í október 2025. Hátíðin ögrar hefðbundnu tónleikafyrirkomulagi, setur listafólk og áhorfendur í óvæntar aðstæður og heldur léttleikanum á lofti í grafalvarlegri glímu sinni við samtímann.
Í fyrra stóð hátíðin meðal annars fyrir píanótónleikum Bjarna Frímanns á bifvélaverkstæði, barokktónleikum á næturklúbbnum Auto og tónskáldahringekju þar sem sex tónskáld tóku þátt og fór þannig fram að hvert þeirra samdi verk fyrir það næsta og svo koll af kolli þar til hringnum var lokað. Hátíðin í ár heldur áfram að hrista upp í tónlistarvenjum með djarfri, glettinni og á köflum furðulegri dagskrá.
Að hátíðinni standa Bjarni Frímann Bjarnason, Bergur Þórisson og Magnús Jóhann Ragnarsson – allir meðal fremstu tónlistarmanna landsins – ásamt Sverri Páli Sverrissyni, reyndum viðburðahaldara og verkefnastjóra sem hefur komið að sumum af frumlegustu uppákomum sem sést hafa hér á landi. Saman skapa þeir vettvang þar sem hugmyndaauðgi og tilraunagleði fá að leika lausum hala.
Sátan
Sátan er þriggja daga þungarokkshátíð haldin í Stykkishólmi á Snæfellsnesi og fer hátíðin í ár fram dagana 5.–7. júní. Hátíðin leggur áherslu á að bjóða upp á fjölbreytt úrval af fremstu þungarokkshljómsveitum landsins, ásamt vel völdum erlendum gestum, og hefur það að leiðarljósi að varpa ljósi á breidd og gæði íslensku þungarokksenunnar. Samhliða tónleikadagskránni býður hátíðin einnig upp á metnaðarfulla og stórskemmtilega ráðstefnu, þar sem farið er yfir ýmis málefni tengd senunni.
Að Sátunni stendur hópur þungarokksunnenda og tónlistarfólks sem hefur verið virkt í íslensku senunni í yfir þrjá áratugi og býr yfir víðtækri reynslu af því að halda tónleika, skipuleggja hátíðir og spila sjálft. Forsprakki hennar er Gísli Sigmundsson, sem hóf feril sinn árið 1990 með hinni goðsagnakenndu Sororicide og hefur allar götur síðan verið virkur í íslensku þungarokksenunni – bæði sem tónlistarmaður og viðburðarhaldari, þar á meðal sem hluti af skipulagsteymi Eistnaflugs.
Með Gísla í kjarnateymi hátíðarinnar eru eiginkona hans Nancy, dóttir þeirra og Guðjón Óttarsson, fyrrverandi hljómsveitarfélagi Gísla í Sororicide. Saman stýra þau hátíð sem byggir á gríðarlegri reynslu og einlægri ástríðu fyrir senunni.
Allir eru velkomnir á Sátuna – óháð uppruna, litarhætti, trúarskoðunum, kyni eða kynhneigð, og það er aðeins eitt markmið: að allir, starfsfólk, hljómsveitir og gestir, fari heim brosandi eftir frábæra hátíð!