Hin stórbrotna Eydís Evensen tók sér stutt hlé frá því að fagna útgáfu nýja lagsins síns Drifter og tók við Love Letter lagalistanum okkar.
Drifter er fimmta smáskífan af væntanlegri plötu hennar Oceanic Mirror sem kemur út þann 10. Október. Í kjölfar plötuútgáfunnar leggur Eydís í gríðarlegt tónleikaferðalag þar sem hún mun koma fram víðsvegar um Evrópu, Bandaríkin og Bretland. Frekari upplýsingar um það má finna hér.
Lagalisti Eydísar andar hausti. Þegar allt leggst í dvala og hringrásin verður manni efst í huga. Andstæður í endalausum metingi; ólgusjórinn og blankalognið, gluggaveðrið og nístingsköld súldin. Stuttbuxurnar sem við ætluðum að nota í allt sumar fara ósnertar aftur inn í skáp og við drögum hikandi fram ullarnærfötin.
Ástarbréf Eydísar leiðir huga okkar hjá yfirvofandi vetri og hvetur okkur til að hjúfra okkur uppí sófa með heitt kakó og góða bók.
Eigiði yndislega helgi!