Bransaveisla 2024 - Myndir
Bransaveislan 2024 hófst á skrifstofu Tónlistarmiðstöðvar með viðburðunum 1, 2 og Airwaves. Helena Sif Gunnarsdóttir, ráðgjafi í markaðs- og kynningarmálum, tók á móti gestum og kynnti Maríu Rut Reynisdóttur, sem sagði þátttakendum aðeins frá starfi Tónlistarmiðstöðvar.
Helena tók svo aftur við og fór yfir tilgang Bransaveislunnar og ráðlagði áhorfendum hvernig nýta skyldi faghátíðir eins og Airwaves sem best.
Dagur 2 hófst með pallborðsumræðum um andlega heilsu, þar sem Árni Þór, umboðsmaður Ólafs Arnalds, Nanna úr Of Monsters and Men, tónleikahaldarinn Grímur Atlason og Tamsin Embleton frá Music Industry Therapist Collective ræddu andlega heilsu og áskoranirnar sem sífellt meira krefjandi veruleiki tónlistariðnaðarins setur á hana.
Næst var Fireside Chat með Júníu Lín sem er listrænn stjórnandi tvíburasystur sinnar Laufeyjar. Helena Sif Gunnarsdóttir stjórnaði umræðunum sem fóru um víðan völl og fjölluðu þar á meðal um hlutverk listrænna stjórnanda og samfélagsmiðla og vægið sem þeir hafa í markaðssetningu tónlistar nú til dags.
Dagskrá dagsins lauk með ÚTRÁS, sem er námskeið í undirbúningi tónlistarverkefna til útflutnings. Paul Bridgewater, ritstjóri The Line Of Best Fit, Sophie Walker, blaðamaður og almannatengslafulltrúi og Rebecca Mason, almannatengslasnillingur frá Inside Out, ræddu markaðssetningu Press Kits og BIO skrif undir handleiðslu Leifs Björnssonar sem er sérfræðingur hjá Tónlistarmiðstöð.
Á sama tíma bauð Inni Music, í samstarfi við Tónlistarmiðstöðina, upp á Sync meistaranámskeið þar sem Lauren Harman bauð fólki upp á afslappað andrúmsloft fullt af víni og ostum og ómetanlegri fræðslu.
Þriðji dagur Bransaveislu átti að sama skapi helling af hápunktum
12:00: Á skrifstofu STEFs hélt Zach Fuller, gagnagreinandi hjá Polaris Music Hub, fyrirlestur um stöðu og framtíðaráhorf streymis á Norðurlöndunum.
13:00: James Sandom og Al Mills, sem er margverðlaunað umboðsfólk frá Red Light UK, héldu mjög fróðlegt meistaranámskeið um umboðsmennsku.
16:00: Tengslamyndunarfundirnir hafa lengi verið algjör hápunktur Bransaveislu og voru ekki síðri í ár. 15 aðilar úr alþjóðlega tónlistarsamfélaginu, bókararar, umboðsfólk og þess háttar, settust niður og spjölluðu við íslenskt tónlistarfólk og bransalið.
Bransaveislu lauk með Happy Hour á Bingó
Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt í ár og hlökkum til að halda þessa einstöku viðburðarröð aftur að ári!