Annáll Tónlistarmiðstöðvar 2024 - Litið um öxl eftir fyrsta starfsár nýrrar Tónlistarmiðstöðvar

6
.  
January
 
2025

Árið 2024 markaði fyrsta starfsár nýrrar Tónlistarmiðstöðvar en miðstöðin var formlega stofnuð haustið 2023 eftir að Alþingi samþykkti fyrstu heildarlöggjöfina um tónlist á Íslandi og tónlistarstefnu til ársins 2030. Tónlistarmiðstöð tók formlega til starfa þann 1. janúar 2024

Miðstöðin byggir á grunni þeirra tónlistarskrifstofa sem fyrir voru, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (Útón) og Tónverkamiðstöðvar, og tók við hlutverkum þeirra en hefur þó stærra umboð og hlutverk en þær tvær höfðu til samans. 

Á fyrri hluta ársins var fyrirferðamesta verkefnið að koma nýrri miðstöð á koppinn - ráðningar starfsfólks og mótun starfseminnar og skipulagsheildarinnar, flutningar, vinna við nýja ásýnd Tónlistarmiðstöðvar og heimasíðu en formleg opnun Tónlistarmiðstöðvar var haldin með pompi og prakt þann 23. apríl. Einnig var það umfangsmikið verkefni fyrir miðstöðina að taka við umsýslu nýs og stærri tónlistarsjóðs af Rannís. Í því fólst stefnumótun fyrir sjóðinn, breytingar á umsóknarformum, upplýsingamiðlun, fræðsla og allt utanumhald, m.a. með störfum úthlutunarnefnda. Nú eru allir tónlistarstyrkir komnir undir einn hatt, þ.e. styrkir til frumsköpunar, hljóðritunar og útgáfu, styrkir til tónleikaferðalaga innanlands, styrkir til útflutnings (ferða- og markaðsstyrkir) og styrkir fyrir innviði og þróun í íslensku tónlistarlífi. 

Hjá Tónlistarmiðstöð starfar hópur fólks með mikla ástríðu fyrir framgangi íslenskrar tónlistar á innlendri og erlendri grundu. Verkefni miðstöðvarinnar eru fjölbreytt og felast í stuðningi við útflutning íslenskrar tónlistar í nánu samstarfi við Íslandsstofu, varðveislu íslenskra tónverka í samstarfi við Landsbókasafn íslands - Háskólabókasafn, sölu og leigu íslenskra tónverka í gegnum nótnaveitu sem telur um 11 þúsund íslensk tónverk, margvíslegri fræðslu fyrir tónlistarfólk og fagfólk í tónlist og innviðauppbyggingu í íslenskum tónlistariðnaði.

Þótt talsverður tími hafi farið í það að koma nýrri miðstöð á fót á liðnu ári voru verkefni hennar ótalmörg og fjölbreytt og fyrir neðan má sjá yfirlit yfir helstu verkefni. Það er ekki lítið verk að sjóbúa og sigla glænýju skipi úr höfn en það tókst. Áhöfnin er vel mönnuð og framundan eru spennandi tímar. Á nýju ári verður skýr fókus á innviðaþróun og uppbyggingu þeirrar starfsemi miðstöðvarinnar sem í daglegu tali hefur verið kallaður Inntón. Útflutningsverkefni verða áfram fyrirferðarmikil en á þeim vettvangi verða verkefni endurskoðuð með árangur að leiðarljósi. Eins verður áhersla lögð á að kynna nýja nótnaveitu miðstöðvarinnar bæði innanlands og erlendis, með það fyrir augum að auka sölu og leigu á íslenskum tónverkum. Að lokum er Tónlistarmiðstöð ábyrg fyrir nokkrum aðgerðum í nýrri tónlistarstefnu og verður lögð áhersla á að ljúka fyrstu aðgerðunum í ár. 

Það hefur verið einstakt að fylgjast með árangri íslensks tónlistarfólks á síðasta ári sem hefur borið hróður lands og þjóðar út um heim allan. Af mörgu er að taka en þar bera hæst Grammy-verðlaun Laufeyjar Lin fyrir Best Traditional Pop Vocal Album, EMMY-tilnefning og BAFTA-verðlaun kvikmyndatónskáldsins Atla Örvarssonar fyrir tónlistina í Silo, tilnefning Víkings Heiðars til Grammy-verðlauna fyrir flutning hans á Goldberg-tilbrigðum Johanns Sebastian Bach, Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunin sem Eðvarð Egilsson hlaut fyrir tónlistina í Smoke Sauna Sisterhood, tilnefningu Högna Egilssonar til sömu verðlauna fyrir tónlistina í Snertingu og hin virtu Ernst von Siemens tónskáldaverðlaunin sem að þessu sinni féllu í skaut Báru Gísladóttur. Þessum kyndilberum íslenskrar tónlistar sendum við árnaðaróskir.

Tónlistarmiðstöð þakkar að lokum tónlistarfólki, tónlistarlífinu öllu og samstarfsaðilum miðstöðvarinnar fyrir gott samstarf á liðnu ári og sendir öllum óskir um gott og farsælt nýtt tónlistarár 2025. Sérstakar þakkir fær Lilja Dögg Alfreðsdóttir, fyrrum menningar- og viðskiptaráðherra, og hennar samstarfsfólk í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, fyrir að halda merkjum íslenskrar tónlistar á lofti og vinna það þrekvirki á skömmum tíma að koma Tónlistarmiðstöð á koppinn, móta fyrstu heildarlöggjöfina í tónlist og fyrstu tónlistarstefnu landsins til ársins 2030. 

Áfram íslensk tónlist!

Helstu verkefni Tónlistarmiðstöðvar árið 2024

Þátttaka í erlendum tónlistarhátíðum, tónlistarkaupstefnum og ráðstefnum

Eurosonic tónlistarhátíðin í Groningen í Hollandi: Móttaka ásamt Færeyjum sem unnin var í samstarfi við bresku PR stofuna Global Publicity. Blaðamenn og fagaðilar mættu til móttökunnar þar sem Record in Iceland var kynnt, auk þess sem fulltrúar listamannanna sem komu fram á hátíðinni mynduðu tengsl við fagaðila og Blaðamenn. Íslenskt tónlistarfólk sem kom fram á Eurosonic 2024 voru þau Árný Margrét, gugusar, Lón og Vévaki.

Nordic Film Music Days í Berlín: Tónlistarmiðstöð sótti Norrænu kvikmyndatónlistardagana og kvikmyndatónskáldaverðlaunin í Berlín í febrúar sl. til að skoða hvort Tónlistarmiðstöð ætti að taka við hlutverki STEFs sem samstarfsaðili verkefnisins. Niðurstaðan var sú að Tónlistarmiðstöð myndi koma að ráðstefnu- og tengslamyndunarhluta verkefnisins en að STEF myndi áfram sinna þeim hluta er snýr að Hörpu, Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaununum. Tónlistarmiðstöð hefur síðan þá tekið virkan þátt í að undirbúa hátíðina og verðlaunin sem fara fram í febrúar á þessu ári. Kvikmyndatónskáldið Eðvarð Egilsson var tilfnefndur til Norrænu kvikmyndatónskáldaverðlaunanna 2024 fyrir tónlistina í Smoke Sauna Sisterhood og hreppti verðlaunin. Honum til heiðurs var haldin móttaka í samstarfi við sendiráði Íslands í Þýskalandi.

SXSW tónlistarhátíðin í Austin, Texas: Tónlistarmiðstöð, Íslandsstofa og Iceland Airwaves skipulögðu Iceland Airwaves off-venue tónleika á hátíðinni en þar kom fram tónlistarfólkið Myrkvi, JFDR, Axel Flóvent og Árny Margrét. Record in Iceland bauð til móttöku fyrir fagaðila sem haldin var á undan Iceland Airwaves off-venue tónleikunum. Bæði mótttakan og tónleikarnir voru vel sóttir og var húsfyllir nánast allan tíman á meðan dagskránni stóð. Auk þess var boðið til JaJaJa móttöku ásamt norrænu útflutningsskrifstofunum þar sem áhersla var lögð á að kynna Record in Iceland.

Nordic folk Alliance (NFA) í Hróarskeldu: NFA er norræn þjóðlagatónlistarhátíð skipulögð í samstarfi við NOMEX. Þar tróð hljómsveitin Árstíðir upp og fulltrúi Tónlistarmiðstöðvar kynnti Record in Iceland fyrir umboðsmönnum í geiranum.  Einnig var fundað með fulltrúum samtaka þjóðlagahátíða í Kanada þar sem við kynntum möguleika verkefnisins fyrir listafólki sem er á ferðinni yfir Atlantshafið og fengum fjölda fyrirspurna í kjölfarið. 

JazzAhead í Bremen: Tónlistarmiðstöð fór með 9 manna hóp úr íslensku tónlistarlífi, m.a. Sunnu Gunnlaugsdóttur, Marínu Ósk, Svein Snorra umboðsmann og Pétur Oddberg, framkvæmdastjóra Jazzhátíðar Reykjavíkur. Tónlistarmiðstöð var með bás og kynnti þar íslenska jazz-senu. Einnig voru bókaðir fundir með  jazzsamböndum, útgefendum og umboðsfyrirtækjum í jazz-geiranum í sama tilgangi. 

Tallinn Music Week: Framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar tók, ásamt Colm O’Herlihy frá INNI, þátt í spjalli fyrir framan fullan sal af áhorfendum þar sem rætt var um Ísland sem tónlistarmarkað. Framkvæmdastjóri fundaði með ýmsum aðilum, m.a. með kollegum hjá Music Estonia og European Music Exporters Exchange o.fl. og sótti innblástur fyrir ráðstefnu Iceland Airwaves.

Nashville Music Biz: ráðstefna og NOMEX viðskiptaleiðangur til Nashville: Framkvæmdastjóri tók þátt í þessari ferð fyrir hönd Tónlistarmiðstöðvar og átti fundi með ýmsum aðilum til að ræða flöt á auknu samstarfi á milli tónlistarsenunnar í Nashville og á Íslandi, sérstaklega í ljósi þess að beint flug kemst á á milli staðanna árið 2025. M.a. var rætt við Ben Swank frá Third Man Records og RII sérstaklega kynnt fyrir honum. Aðrir íslenskir þátttakendur í ferðinni voru Colm O’Herlihy frá INNI og Soffía Kristín Jónsdóttir frá Iceland Sync. 

Classical:NEXT í Berlin: Ásamt fulltrúa Tónlistarmiðstöðvar voru þátttakendur þær Sif Margrét Tulinius fiðluleikari, Valgerður Halldórsdóttir, umboðsmaður, Crescendo Cultural Management, Hallveig Rúnarsdóttir, söngkona og listrænn stjórnandi Cantoque Ensemble og Hildigunnur Einarsdóttir, söngkona og framkvæmdastjóri Cantoque Ensemble. Tónlistarmiðstöð deildi bás með öðrum Norðurlöndum og kynnti þar íslenska samtímatónlist og Record in Iceland.  

The Great Escape (TGE) og Alda Music showcase í Brighton og í London: Record in Iceland stóð fyrir móttöku og tengslamyndunarviðburðum í tengslum við Alda Music showcase tónleika í London þann 14. maí og The Great Escape hátíðina í Brighton 16.–18. maí 2024. Verkefnið samanstóð af showcase tónleikum í London með listamönnum Öldu (Superserious, Hyl og Kára Egilssyni), þar sem fagaðilar og blaðamenn mættu til móttöku undir merkjum Record in Iceland, og tengslamyndunardögurði á The Great Escape í Brighton í samstarfi við Music Norway og Music Export Sweden. Á TGE komu fram þau Sunna Margét, Superserious og Kári Egilsson.

SONAR í Barcelóna: Tónlistarmiðstöð fór með sendinefnd á tónlistarhátíðina SONAR. Samhliða hátíðinni er keyrð öflug ráðstefnudagskrá auk "expo" hluta þar sem fyrirtæki og menntastofnanir kynna verkefni og starfsemi. Sendinefnd íslands að þessu sinni samanstóð af fulltrúa Tónlistarmiðstöðvar, Hildi Maral fyrir Opia community/ umboðsmanns Ólafs Arnalds, Óla Dóra - DJ og tónleikabókara frá KEX hostel, auk teymis Intelligent Instruments verkefnisins sem hýst er af Listaháskóla Íslands. Intelligent Instruments tóku þátt í Expo hlutanum og voru með sýningarbás opinn þá dagana sem hátíðin fór fram. Auk þess tók Þórhallur Magnússon, forsvarsmaður verkefnisins þátt í pallborði um gervigreind sem tól í skapandi umhverfi dagsins í dag. Ferðin var unnin í samstarfi við Music Export Finland og Business Finland. Record in Iceland var kynnt á móttöku sem haldin var ásamt finnskum samstarfsaðilum innan ráðstefnuhlutans, auk kvöldverðar með fagaðilum síðasta kvöld hátíðarinnar. 

by:Larm í Osló: Fulltrúar Tónlistarmiðstöðvar tóku þátt í by:Larm tónlistarhátíðinni í september og voru viðstaddir afhendingu NOMEX Top 20 under 30 þar sem Ísland átti tvo fulltrúa, þau Gabríel Ólafsson og Klaudiu Gawryluk. Verðlaunin eru veitt árlega ungu tónlistarbransafólki á Norðurlöndunum sem þykir skara fram úr. Framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar sat að auki stjórnarfund NOMEX í Osló, auk þess sem ferðin var nýtt til ýmissa fundarhalda, m.a. með íslenska sendiráðinu í Osló til að ræða samstarf sendiráðsins og Tónlistarmiðstöðvar. Ein íslensk hljómsveit, sideproject, kom fram á hátíðinni.

Reeperbahn í Hamborg: Þrjár íslenskar hljómsveitir komu fram á Reeperbahn hátíðinni í ár. Kusk + Óviti komu fram sem hluti af dagskrá Music Cities Network. Múr komu fram á showcase tónleikum og Kiasmos voru eitt af "headline" atriðum hátíðarinnar. Múr gekk sérstaklega vel og fengu samning við þýskan tónleikabókara strax á meðan hátíðinni stóð. Leifur var á Reeperbahn fyrir hönd Tónlistarmiðstöðvar og var hljómsveitunum til halds og trausts, auk þess að taka þátt í vinnustofu á vegum Eurosonic hátíðarinnar og sérstakri kynningu á Record in Iceland fyrir fagaðila í tónlist frá Kanada. 

Amsterdam Dance Event (ADE): Fulltrúi Tónlistarmiðstöðvar fór til Amsterdam til að kynna sér ADE og tækifærin sem felast í þeirri hátíð fyrir íslenska raf- og danstónlistarsenu, auk þess sem Tónlistarmiðstöð tók þátt í JaJaJa móttöku NOMEX samstarfsins. Tónlistarmiðstöð hefur undanfarin ár lagt áherslu á SONAR hátíðina á meðan aðrar norrænar skrifstofur hafa frekar einblínt á ADE. Niðurstaðan var sú að halda áfram aðkomu að SONAR sem er smærri og viðráðanlegri hátíð. 

World Music Export (WOMEX) tónlistarráðstefnan í Manchester: Tónlistarmiðstöð fór á WOMEX ásamt 7 manna sendinefnd, fjórum aðilum frá hljómsveitinni Brek, tveimur aðilum frá Umbru og Svavari Knúti. Tónlistarmiðstöð hélt úti bás og kynnti þar íslenska heimstónlist, Record in Iceland og lagalista Iceland Music auk þess að funda með umboðsaðilum og útgefendum. Tónlistarfólkið nýtti einnig básinn til að kynna sín verkefni og tengjast mögulegum samstarfsaðilum. Íslenska tónlistarfólkinu var jafnframt boðið að taka þátt  í tengslamyndunarfundum sem bæði Svíar og Danir skipulögðu. 

Nordic Music Days / Norrænir músíkdagar í Glasgow: Nordic Music Days er árleg hátíð þar sem verk eftir norræn tónskáld eru í forgrunni. Auk tveggja fulltrúa frá Tónlistarmiðstöð fóru 6 íslenskir bransaaðilar á hátíðina, þar af þrír sem Tónlistarmiðstöð bauð - þau Þráinn Hjálmarsson, Tryggvi M. Baldvinsson og Gunnhildur Einarsdóttir. Þeirra þátttaka var framlag Íslands inn í norræna samstarfið STATUS um að koma með listræna stjórnendur frá hverju landi sem gætu þá kynnt sér tónlist frá hinum löndunum. Þátttaka fulltrúa Tónlistarmiðstöðvar fólst í STATUS fundum, ráðstefnu og tónlistarhátíð NMD. 

Les Arcs kvikmyndahátíðin í frönsku ölpunum: Ísland var fókusland hátíðarinnar og stór hópur íslenskra kvikmyndagerðarmanna og kvikmyndatónskálda sóttu hátíðina heim. Hátíðin sýndi 20 íslenskrar kvikmyndir og íslensk kvikmyndatónskáld tóku þátt í tónlistarþorpi (e. Music Village) hátíðarinnar. Kvikmyndatónskáldin sem tóku þátt voru þau Herdís Stefánsdóttir sem sat í Feature Film-dómnefnd hátíðarinnar, Eðvarð Egilsson, Högni Egilsson og svo Atli Örvarsson sem sótti hátíðina sem framleiðandi The Fires auk þess að sitja í dómnefnd fyrir 22D Music Awards fyrir verk í vinnslu. Högni Egilsson kom að auki fram á hátíðinni sem og tónlistarkonan Lúpína.

Taste of Iceland í Bandaríkjunum

Taste of Iceland var haldið fjórum sinnum í Bandaríkjunum árið 2024 - í New York, Washington DC, Denver og Seattle. Þar kom íslenskt tónlistarfólk fram á sérstökum tónleikum og kynningar fóru fram á Record in Iceland. Eins og alltaf í kringum TOI viðburðina var mikið samstarf við Íslandsstofu og PR stofu hennar í kringum pressu og umfjöllun um þá íslensku menningu sem er í kastljósinu hverju sinni. Á Taste of Iceland í New York var sérstök kynning á Myrkum músíkdögum þegar Ensamble Adapter lék í anddyri Perelman Performing Arts Center en það er nýnæmi þegar kemur að Taste of Iceland að draga að borðinu aðrar tónlistarstefnur en popp/rokk og indí og verða áfram gerðar tilraunir með það. Annað tónlistarfólk sem kom fram á Taste of Iceland á árinu 2024 var Axel Flóvent, Árný Margrét, Gróa, JFDR, Klemens Hannigan, Lúpína, Sunna Margét og superserious.

Samstarf við innlendar tónlistarhátíðir 

Myrkir músíkdagar

Tónlistarmiðstöð átti í góðu samstarfi við skipuleggjendur Myrkra músíkdaga sem fram fóru í janúar. Í samstarfi við Íslandsstofu var nokkrum velvöldum erlendum gestum boðið að sækja hátíðina heim til að kynna sér íslenska tónlist en það voru fulltrúar frá frá Huddersfield Contemporary Music Festival, Spor festival, New Music Dublin, Oslo Philharmonic, Sono Luminus, BBC og SWR Deutschlandfunk. Tónlistarmiðstöð kom einnig að því að skipulegga kynningardagskrána PODIUM þar sem íslensk tónskáld fengu einstakt tækifæri til að kynna sig og sína tónlist fyrir erlendum fagaðilum. 

Jazzhátíð Reykjavíkur

Jazzhátíð Reykjavíkur fór fram dagana 27. - 31. ágúst. Opnunarmóttakan var haldin í Tónlistarmiðstöð og fagaðilum og íslensku tónlistarfólki sem spilaði á hátíðinni var boðið í morgunmat á laugardeginum til að mynda tengsl. Í kjölfarið var pallborð og opnar umræður um umhverfi og tækifæri í útflutningi á íslenskri djasstónlist undir stjórn breska blaðamannsins Kevin Whitlock frá Jazzwise. Alls komu þrír blaðamenn til landsins vegna hátíðarinnar fyrir tilstilli Tónlistarmiðstöðvar og Íslandsstofu. 

Iceland Airwaves Summer Press Trip

Dagana 5. - 7. september stóðu Tónlistarmiðstöð, Iceland Airwaves og Íslandsstofa fyrir Iceland Airwaves Summer Press Trip fyrir fimm velvalda erlenda miðla. Á dagskrá var stutt móttaka í Tónlistarmiðstöð og kvöldmatur með Iceland Airwaves teyminu, ferð í Sky Lagoon, heimsókn í INNI & Fischer, hádegismatur og tónleikar í sumarbústað í Kjós ásamt tíma fyrir blaðamenn til að sinna sinni vinnu - taka viðtöl og safna efni í umfjöllun. 

Bransaveisla + Iceland Airwaves

Vikuna 4. - 6. nóvember stóðu Tónlistarmiðstöð og Tónlistarborgin í samstarfi við hina ýmsu aðila fyrir Bransaveislu sem samanstóð af spennandi fræðsluviðburðum fyrir íslensku tónlistarsenuna. Dagskráin var afar fjölbreytt og metnaðarfull og á meðal hápunkta voru samræður við Júníu Lín, listrænan stjórnanda Laufeyjar, masterclass fyrir umboðsmenn í umsjón James Sandom og Al Mills frá Red Light Management UK og fyrsti tími af fjórum 

í nýju námskeið sem ber heitið ÚTRÁS og er ætlað tónlistarfólki sem er í útrásarpælingum. 

Aðgangur að öllum viðburðum Bransadaga var ókeypis og góð mæting var á flesta viðburði.

Að Bransaveislu lokinni hófst Iceland Airwaves. Tónlistarmiðstöð, í samstarfi við Tónlistarborgina og Íslandsstofu, hafði veg og vanda af skipulagningu eins ráðstefnudags af tveimur og var þar meðal annars fjallað um listrænt frelsi og tjáningarfrelsi, íslenska tónlistarmenningu, markaðsmál og tónlistarhátíðir út frá samfélagstengingu. Að lokum var hlustunarpartý þar sem Tim Burgess úr The Charlatans ræddi við þau Nönnu og Brynjar úr OMAM um gerð plötunnar My Head is an Animal.

Í samstarfi við Íslandsstofu, heldur Tónlistarmiðstöð utan um alla erlenda fjölmiðla sem koma til landsins í tengslum við hátíðina og voru þeir 16 talsins á síðasta ári. Til viðbótar við fjölmiðla fluttu Tónlistarmiðstöð / Íslandsstofa / Tónlistarborg og Iceland Airwaves 34 aðila til landsins til að taka þátt í ráðstefnunni og bransadögum. Á laugardaginn var farið með þennan hóp í dagsferð sem samanstóð af slökun í Sky Lagoon, heimsókn í Höfuðstöðina þar sem snæddur var hádegismatur og menningar- og viðskiptaráðherra ávarpaði hópinn og að lokum heimsókn í hljóðverið Sundlaugina þar sem hópurinn fræddist um Record in Iceland og Tim Burgess úr The Charlatans ræddi við Kjartan Sveinsson úr Sigur rós um gerð plötunnar ( ). 

Record in Iceland - nýr samningur

Tónlistarmiðstöð endurnýjaði samninginn við menningar- og viðskiptaráðuneyti um kynningar á 25% endurgreiðslu kostnaðar sem tilfellur vegna hljóðritunar á tónlist á Íslandi. Undanfarin ár hefur ÚTÓN sinnt kynningu á þessu verkefni á erlendri grundu en Tónlistarmiðstöð hefur nú tekið við keflinu en heldur nú að auki utan um kynningu á verkefninu gagnvart innlendum aðilum. Tónlistarmiðstöð nýtir öll tækifæri sem gefast erlendis til að kynna endurgreiðslumöguleikann, með formlegum kynningum, fundum og kynningarefni, en hér heima var verkefnið kynnt í fræðsluferðum miðstöðvarinnar úti á landi, á sérstökum kynningarfundi þann 12. desember og með innleggi á hinum ýmsu viðburðum, námskeiðum og vinnubúðum, svo sem Hitakassanum fyrir úrslitahljómsveitir Músíktilrauna, þungarokkshátíðinni SÁTUNNI í Stykkishólmi og lagasmíðabúðunum Airsongs sem Iceland Sync stendur fyrir.

Alþjóðlegt samstarf - NOMEX, IAMIC, STATUS og EMEE 

Tónlistarmiðstöð er þátttakandi í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi. NOMEX er samstarf norrænna útflutningsskrifstofa, IAMIC er alþjóðlegt tengslanet Tónverkamiðstöðva, STATUS er norrænt tengslanet Tónverkamiðstöðva og EMEE er evrópskt tengslanet útflutningsskrifstofa. Í slíku alþjóðlegu samstarfi verða til margvísleg verkefni en ekki síst gengur slíkt samstarf út á þekkingarmiðlun. NOMEX stendur m.a. fyrir verkefninu Top 20 under 30 þar sem 20 ungir fagaðilar í tónlistar á Norðurlöndunum fá viðurkenningu fyrir gott starf en verðlaununum er ætlað að varpa ljósi á störf þeirra sem láta til sín taka í tónlistariðnaðinum og veita þeim á sama tíma tækifæri til að efla tengslanetið á alþjóðlegum vettvangi. Á síðasta ári hlutu þau Gabríel Ólafsson (Reykjavík Recording Orkestra) og Klaudia Gawryluk (Radar) þessa viðurkenningu og tóku á móti henni á by:Larm hátíðinni í Osló í september.

European Music Exporters Exchange (EMEE), stóðu fyrir "Trade Mission" hingað til lands í júní með það fyrir augum að kynna sér íslenskt tónlistarlíf. Hópurinn samanstóð af 15 fulltrúum tónlistarútflutningsskrifstofa víðsvegar að úr álfunni og tóku þau þátt í tveggja daga skipulagðri dagskrá sem Tónlistarmiðstöð sá um að setja saman. Hópurinn hitti fagaðila íslenska tónlistariðnaðarins, tónlistarfyrirtæki, tónlistarhátíðir og einyrkja sem starfa í tónlist hérlendis, auk vettvangsferða í hljóðver og á tónleikastaði. Mikil almenn ánægja ríkti meðal hópsins með ferðina og er óhætt að setja að þetta hafi verið jákvætt skref í að efla evrópskt samstarf á vettvangi tónlistarútflutnings, nokkuð sem mun gagnast íslensku tónlistarfólki í útflutningi til langframa. Á vettvangi EMEE fór starfsmaður Tónlistarmiðstöðvar einnig í viðskiptaleiðangur  til Japan í nóvember til að gera greiningu á japanska tónlistarmarkaðnum sem er sá næst stærsti í heimi, og sóknarfærum fyrir íslenska tónlist inn á Japansmarkað. Ferðin nýttist einnig vel til skipulagningar Taste of Iceland í Osaka og Tokyo sem fram fer í maí á næsta ári, í tengslum við Heimssýninguna í Osaka. 

Í nóvember fór fram aðalfundur IAMIC (International Association of Music Information Centers). Fulltrúar Tónlistarmiðstöðvar tóku þátt í aðalfundinum og þriggja daga lærdómsríkri ráðstefnu sem haldin var af því tilefni með áherslu á sjálfbærni, inngildingu og fjölbreytileika. 

Umsýsla tónlistarsjóðs færðist frá Rannís yfir til Tónlistarmiðstöðvar

Á árinu 2024 sinnti Tónlistarmiðstöð alls þremur úthlutunum úr Tónlistarsjóði, fyrri og seinni úthlutunum fyrir árið 2024 og fyrri úthlutun fyrir árið 2025. Seinni úthlutun ársins 2024 var sú fyrsta þar sem veitt var úr öllum fjórum deildum nýs Tónlistarsjóðs og jafnframt fyrsta úthlutunin sem var að fullu í umsýslu Tónlistarmiðstöðvar en ekki Rannís. Áður en sú úthlutun gat farið fram þurfti að fara í heilmikla vinnu við stefnumótun fyrir nýjan sjóð, gera margvíslegar breytingar á umsóknarformum, koma upplýsingum um sjóðinn á heimasíðu miðstöðvarinnar, sinna kynningarmálum, upplýsingamiðlun og fræðslu. Starfsmaður á vegum Tónlistarmiðstöðvar hefur síðan yfirumsjón með úthlutunum úr sjóðnum og heldur utan um störf sjálfstæðra úthlutunarnefnda sem ráðherra skipar.   

Útrás! - námskeið um útflutning tónlistarverkefna

Nýtt námskeið, Útrás, hóf göngu síðan þann 5. nóvember og lauk 10. desember. Markmiðið með því námskeiði er að búa íslenskt tónlistarfólk undir útflutning á tónlist sinni með markmiðasetningu og fræðslu. Einnig vinna þátttakendur hagnýt verkefni sem þeir kynna undir lok námskeiðsins. Námskeiðið mæltist vel fyrir og er mikill áhugi á að halda slíkt námskeið aftur. 

Samstarf við Tónlistarborgina Reykjavík um margvísleg verkefni

Tónlistarmiðstöð á í nánu og góðu samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík um margvísleg verkefni en þar helst að nefna Hitakassanna sem er námskeið um tónlistarbransann fyrir hljómsveitir sem komast í úrslit Músíktilrauna, Reykjavík - Nantes skiptivinnudvölina og Iceland Airwaves bransaveisluna og ráðstefnuna. 

Samstarf við ISAVIA / KEF um kynningu á íslenskum lagalistum

Tónlistarmiðstöð hóf samstarf við ISAVIA / KEF um kynningu íslenskra lagalista fyrir ferðamönnum á leið inn í landið. Lagalistarnir og QR-kóði birtast á skjám og skiltum í farangursrými flugvallarins. Vilji er fyrir því að víkka út samstarfið með það að markmiði að ná betur til erlendra ferðamanna og verður það skoðað á nýju ári. 

Tónaflakk - fræðsluferðir innanlands

Fulltrúar Tónlistarmiðstöðvar fóru til Egilsstaða og Ísafjarðar til að fræða tónlistarsamfélagið þar um Tónlistarmiðstöð, Tónlistarsjóð og endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist á Íslandi. Ferðin til Egilsstaða gekk sérlega vel en Signý Þormarsdóttir frá Austurbrú fór með fulltrúa miðstöðvarinnar um alla koppa og grundir til að sýna það blómlega menningar- og tónlistarlíf sem fyrirfinnst Austfjörðum. Ferðin á Ísafjörð var einfaldari í sniðum en mikil 

ánægja var með þetta framtak Tónlistarmiðstöðvar. Á þessu ári verður farið í fleiri slíkar fræðsluferðir, m.a. til Akureyrar. 

Þakkarorða íslenskrar tónlistar 1. des

Þakkarorða íslenskrar tónlistar var afhent Magnúsi Eiríkssyni við hátíðlega athöfn í Hörpu þann 1. desember síðastliðinn. Þrátt fyrir stuttan aðdraganda og erfiða fæðingu tókst viðburðurinn afar vel, Magnús var hrærður og þakklátur og mæting góð. Þakkarorðan er veitt í nafni nýskipaðs Tónlistaráðs og vonir standa til að viðburðurinn verði árlegur. Tónlistarmiðstöð hafði yfirumsjón með verkefninu. Samstarfsaðilar voru Harpa og RÚV og tónleikahaldarinn var Móðurfélagið. Tónleikarnir voru teknir upp og voru sýndir á RÚV annan í jólum, ásamt sérstökum viðtalsþætti við Magnús Eiríksson. Gullsmiðurinn Erling Jóhannesson hannaði orðuna glæsilegu.

Samningur við Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn um varðveislu íslenskra tónverka

Undir lok árs undirrituðu Tónlistarmiðstöð og Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn samstarfssamning um um varðveislu íslenskra tónverka. Markmið samstarfssamningsins er að tryggja áframhaldandi varðveislu á tónlistarhandritum Tónlistarmiðstöðvar í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, koma afhendingu á tónlistarhandritum, sem eru úr höfundarétti og í vörslu Tónlistarmiðstöðvar, í réttan farveg til safnsins og koma skylduskilum á útgefnu efni tónskálda sem Tónlistarmiðstöð hefur milligöngu um að merkja með ISMN-númerum í réttan farveg til safnsins og ákveða með hvaða hætti aðgengi að því efni skuli háttað.

Önnur verkefni

Mörg önnur verkefni voru á dagskrá Tónlistarmiðstöðvar á liðnu ári. Miðlar Tónlistarmiðstöðvar, heimasíða og samfélagsmiðlar, eru afar fréttadrifnir og ganga að miklu leyti út á það að miðla fréttum af íslensku tónlistarlífi bæði gagnvart innlendum og erlendum lesendum. Starfsfólk Tónlistarmiðstöðvar er einnig ötult við að kynna starf miðstöðvarinnar og íslenska tónlist og íslenskt tónlistarlíf við hin ýmsu tækifæri. Einnig tekur miðstöðin á móti hinum ýmsu hópum sem eru forvitnir um starfsemi miðstöðvarinnar og íslenskt tónlistarlíf allt árið um kring. Á síðasta ári tók Tónlistarmiðstöð t.a.m. á móti nýjum sendiherrum og starfsfólki sendiráða Íslands víða um heim og menningarfulltrúum á landbyggðinni. Einnig kynnti Tónlistarmiðstöð starfsemi sína, Record in Iceland og íslenska tónlist á fjölmennri ráðstefnu 140 ræðismanna Íslands sem haldin var í Reykjavík. Í tengslum við kosningar til Alþingis á liðnu ári stóð Tónlistarmiðstöð, ásamt öðrum miðstöðvum og Rannsóknarsetri skapandi greina, fyrir kosningafundum með fulltrúum flokka sem buðu sig fram til Alþingis og beitti sér fyrir því að málefni lista, menningar og skapandi greina væru á dagskrá frambjóðenda sem og þeirra flokka sem síðar mynduðu nýja ríkisstjórn.

Lestu einnig

Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar