Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar er fremsta samtímatónlistarhátíð landsins. Hún var stofnuð árið 1980 af Tónskáldafélagi Íslands sem vettvangur fyrir íslensk tónskáld til að koma verkum sínum á framfæri og leggur hátíðin sérstaka áherslu á ný íslensk verk og flytjendur.
Tónlistarmiðstöð tekur virkan þátt í hátíðinni með alþjóðlegum kynningum og tengslamyndun. Í samstarfi við almannatengslaskrifstofur á vegum Íslandsstofu komum við að alþjóðlegu almannatengsla- og markaðsstarfi og skipuleggjum gestadagskrá fyrir erlenda fagaðila. Þar er meðal annars vettvangurinn Podium, þar sem íslenskt og erlent fagfólk hittist, deilir þekkingu og eflir tengslanet sitt.