Teymi Tónlistarmiðstöðvar vex
Starfshópur Tónlistarmiðstöðvar telur marga af helstu sérfræðingum landsins á sviði tónlistariðnaðar og hafa fjórir starfsmenn bæst í teymi miðstöðvarinnar á undanförnum mánuðum. Það eru þau Árni Hjörvar Árnason, Finnur Karlsson, Ólafur Dan Snorrason og Anna Rut Bjarnadóttir.
Árni Hjörvar býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu á flestum sviðum tónlistariðnaðarins. Hann er stofnmeðlimur hljómsveitarinnar The Vaccines en samhliða tónlistarferlinum hefur Árni starfað við upptökustjórn ásamt því að sinna tónlistarblaðamennsku í hjáverkum. Undanfarin ár hefur hann tekið að sér ráðgjöf, verkefnastjórnun og almannatengslastörf fyrir hönd Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og Íslandsstofu.
Anna Rut Bjarnadóttir hefur víðtæka reynslu í verkefna- og viðburðastjórnun á sviði menningarmála, einkum tónlistar. Hún er með meistaragráðu í menningarstjórnun frá King's College í London og hefur leitt fjölbreytt verkefni fyrir tónlistarhátíðir og stofnanir, svo sem Iceland Airwaves, Listahátíð í Reykjavík, ÚTÓN og Tónlistarborgina Reykjavík ásamt því að vinna kynningarstarf fyrir tónlistarfólk og útgáfufyrirtæki.
Ólafur Dan er menntaður hagfræðingur frá Álaborgarháskóla og hefur meðal annars unnið hjá danska varnarmálaráðuneytinu, Danmarks Radio og Orkustofnun. Ólafur hefur sýslað við tónlist frá unga árum - er í tveimur hljómsveitum og hefur einnig fengist við hljóðritun.
Finnur er með MMus og viðbótardiplóma í tónsmíðum frá Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn og Listaháskóla Íslands. Hann hefur unnið sem tónskáld, kirkjutónlistarmaður og tónlistarkennari, og hafa verk hans verið flutt af fjölmörgum hópum og hljómsveitum á borð við Cauda Collective, Dönsku útvarpshljómsveitinni, Kammersveit Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Strokkvartettinum Sigga, TAK og Århus Sinfonietta.
Tónlistarmiðstöð býður Árna, Önnu, Ólaf og Finn velkomin til starfa.