Podium 2025: Kynning á íslenskri samtímatónlist á Myrkum músikdögum

Síðastliðinn laugardag stóð Tónlistarmiðstöð fyrir tengslamyndunarviðburðinum Podium, þar sem fimm íslensk samtímatónlistarverkefni voru kynnt fyrir hópi listrænna stjórnenda, fjölmiðlafólks og annars fagfólks úr greininni.
Podium er árlegur viðburður sem er haldinn samhliða Myrkum Músíkdögum, helstu samtímatónlistarhátíð Íslands, og miðar hann að því að auka sýnileika og alþjóðleg tækifæri íslenskrar samtímatónlistar.
Fagfólk frá hátíðum á borð við Klang, Ultima, November Music og Estonian Music Days, ásamt fulltrúum fjölmiðla eins og Seismograf, Brooklyn Rail og Wallpaper voru viðstödd þennan einstaka viðburð.
Í ár voru kynnt fimm verkefni:
Pípumessa – Ferðalag um efnisheim pípa.

Mynd eftir Julie Rowland
Pípumessa, tónverk eftir Iðunni Einarsdóttur og Þórð Hallgrímsson, er hljóðrænt ferðalag um efnisheim pípa í allri sinni fjölbreytni og er það flutt á hin ólíkustu hljóðfæri úr allskonar áttum. Til að mynda hefðbundin tré- og málmblásturshljóðfæri, blokkflautur úr niðurfallsrörum úr plasti, orgelpípur, drykkjarrör úr gleri og margt fleira.
Í stað hefðbundinnar kynningar leiddu tónskáldin áhorfendur í gegnum gagnvirka upplifun og fengu allir að prófa sig áfram á heimagerð pípuhljóðfæri sem þau höfðu með sér.

Mynd eftir Julie Rowland
Næstur var John McCowen sem kynnti einleiksverk sín fyrir bassaklarinett.

Mynd eftir Julie Rowland
Á tónleikum sínum á Myrkum Músíkdögum frumflutti John röð nýrra verka fyrir bassaklarínett, sem hann samdi seint á árinu 2024. Á Podium kynnti John þessi verk og fjallaði um tilurð þeirra. Verkin ögra möguleikum hljóðfærisins til hins ýtrasta og opinbera þéttan, fíngerðan hljóðheim með glitrandi áferðum og viðkvæmum hreyfingum.
Ásta Fanney Sigurðardóttir kynnti verkefnið sitt Glossolalia

Mynd eftir Julie Rowland
Glossolalia fjallar um tengsl milli manna og eðli tungumálsins og skoðar verkið þessi tengsl í gegnum hljóð, spuna og gjörningarlist. Verkið sameinar frumstæð og andleg einkenni í einu og skapar kaótískt en einfalt ljóðrænt landslag.

Mynd eftir Julie Rowland
Masaya Ozaki kynnti Echoes for the Lighthouse – Staðbundið tónverk.

Mynd eftir Julie Rowland
Echoes for the Lighthouse býður áhorfendum að upplifa hljóð sem lifandi fyrirbæri mótað af umhverfi og rými. Vettvangsupptökur Ozaki og mínimalískar tónsmíðar skapa fljótandi, innhverft verk sem endurspeglar áferð íslensks landslags.

Mynd eftir Julie Rowland
Heiða Árnadóttir og Ásbjörg Jónsdóttir kynntu Mörsugur – Óperu fyrir rödd og myndræna miðlun.

Photo taken by Julie Rowland.
Mörsugur er 50 mínútna tónverk sem sameinar íslenska ljóðlist, raf- og akústíska tónlist, myndlist og leiklist í eina heildrænt verk. Verkið sækir innblástur í andstæður íslensks landslags og árstíða og byggir á fjölbreyttri raddtækni og myndbandsverkum eftir Ásdísi Birnu Gylfadóttur. Verkið hefur hlotið lof fyrir djúpa tilfinningalega skírskotun og óhefðbundinn frásagnarstíl.

Mynd eftir Julie Rowland
Síðast en ekki síst var verkefnið Tacet: Extrinsic eftir Hildi Elísu Jónsdóttur.
Tacet: Extrinsic kannar samband hljóðs og þagnar og leggur áherslu á einstakt og hverfult eðli lifandi flutnings. Í þessu verki ögrar Hildur hefðbundnum hugmyndum um tónlistar- og tímabundna skynjun.
Að kynningum loknum var boðið upp á léttar veitingar, þar sem fleiri listamenn hátíðarinnar tóku þátt áður en haldið var á tónleika í Ásmundarsal