Classical:NEXT 2025 kallar eftir umsóknum um þátttöku
Tónlistarhátíðin og ráðstefnan Classical:NEXT sem haldin er árlega í Berlín, Þýskalandi, hefur opnað fyrir umsóknir fyrir þátttöku á hátíðinni sem fer fram dagana 12.-15. maí 2025.
Classical:NEXT er alþjóðleg tónlistarráðstefna í sígildri og samtímatónlist og er ein mikilvægasta alþjóðlega samkoman fyrir fólk sem starfar í þeim geira. Hátíðin býður upp á einstakan vettvang fyrir tónlistarfólk frá öllum heimshornum til að kynna sig og sín verkefni og tengjast fagaðilumn innan geirans.
Tónlistarmiðstöð tekur þátt í hátíðinni árlega ásamt hópi íslensks tónlistarfólks og fagaðila innan tónlistar.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um þátttöku
Classical:NEXT 2025 kallar eftir umsóknum um þátttöku. Hvort sem þú starfar við sígilda tónlist, samtímatónlist, listtónlist (e. art music) eða tilraunakennda tónlist, þá er þetta tækifæri fyrir þig til að taka þátt í framúrskarandi viðburði þar sem allir helstu áhrifavaldar innan geirans verða samankomnir.
Umsóknir er hægt að senda inn í fjórum flokkum:
1. Kynningartónleikar (e. showcase)
Einleikarar og minni hljómsveitir geta sótt um að kynna verkefnin sín með tónleikum að degi til eða um kvöld.
2. Klúbba-kynningartónleikar (e. club showcase)
Plötusnúðar, einleikarar og minni hljómsveitir geta sótt um að vera hluti af klúbbadagskránni.
3. Ráðstefnuerindi:
Verið er að leita að erindum á ráðstefnuhluta hátíðarinnar þar sem gefst tækifæri til að deila ákveðnum málefnum, verkefnum og framtíðarsýn sem veita innsýn og hagnýta þekkingu í málefnum sígildrar og samtímatónlistar.
4. Verkefnakynningar (e. project pitch)
Stærri verkefni, stórar hljómsveitir og sviðslistaverkefni geta sótt um að halda kynningu á verkefninu sínu. Hvert verkefni fær 9 mínútur til að kynna verkefnið sitt með myndbandi og svara spurningum.
Hægt er að senda inn umsókn til föstudagsins 4. október 2024 (miðnætti CET), í gegnum vefsíðu Classical:NEXT. Dómnefnd alþjóðlegra sérfræðinga mun fara yfir tillögurnar.
Sækja um hér>>
Tónlistarmiðstöð á Classical:NEXT 2025 - taktu dagana frá og komdu með
Tónlistarmiðstöð mun taka þátt á næsta viðburði Classical:NEXT dagana 12.-15. maí 2025. Við hjá Tónlistarmiðstöð verðum á staðnum með bás og viljum fá sem flest með okkur til að kynna sig og sín verkefni, sem mega þá nýta básinn. Kallað verður eftir fólki sem hefur áhuga á að koma og kynna verkefni sín þegar nær dregur hátíðinni.
Hér má sjá ummæli frá nokkrum sem fóru með okkur síðast:
„Þá kem ég m.a. heim ríkari af nýjum samböndum, ósk um samstarf við alþjóðlega þekktan listhóp og alvarlegt tilboð um yfirtöku á sambærilegri starfsemi erlendis.“
„Við tókum marga fundi og tókst að byggja upp töluvert net nýrra tengsla, sem mörg hver við erum að kanna möguleika á samstarfi við í framtíðinni.“
„Ég hitti fjölmarga úr flestum geirum klassíska tónlistarbransans sem ég hlakka til að láta reyna á áframhaldandi samstarf við í kringum þau verkefni sem ég er með í farteskinu.“