Dagana 26.–31. ágúst fer fram Jazzhátíð Reykjavíkur í 35. sinn. Um er að ræða eina af elstu tónlistarhátíðum landsins og sannkallaða uppskeruhátíð íslensku jazzsenunnar.
Í ár býður hátíðin upp á um 30 tónleika og viðburði með yfir 100 flytjendum. Landslið íslensku senunnar verður þar í fararbroddi: ADHD, Tríó Sunnu Gunnlaugs, Óskar Guðjónsson og Magnús Jóhann, Los Bomboneros, Rebekka Blöndal, Róberta Andersen og svo mætti lengi telja.
Einnig býður hátíðin upp á fjölbreytta alþjóðlega dagskrá og má þar nefna ástralska tríóið Brekky Boy, pólska kvartettinn O.N.E.,og ekki síst Cécile McLorin Salvant, þrefaldan Grammy-verðlaunahafa og eina ástsælustu jazzsöngkonu heims. Hún lokar hátíðinni með tónleikum í Eldborg sunnudaginn 31. ágúst kl. 20:00.
Áherslan á norrænt samstarf er jafnframt áberandi, með tónleikum þar sem Arve Henriksen leikur ásamt Hilmar Jenssyni og Skúla Sverrissyni sem og tónleikum Bliss Quintet, undir forystu Benjamíns Gísla og Sigurðar Flosasonar ásamt sænska píanistanum Mattias Nilsson.
Einn af hápunktum hátíðarinnar er sérstakur fjölskylduviðurður í Iðnó, skipulagður í samstarfi við Barnadjass í Mosfellsbæ og Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar (SVoM) með stuðningi frá Barnamenningarsjóði.
Frítt er inn á viðburðinn og fer hann fram sunnudaginn 31. ágúst klukkan 16.00.
Þar stíga fyrst á svið Djasskrakkar, hópur ungmenna á aldrinum 10–15 ára sem spila jazz eftir eyra með mikilli leikgleði.
Einnig koma fram Litlasveit og Stórsveit SVoM sem eru bæði afsprengi Skólahljómsveitar Vesturbæjar og Miðbæjar sem Ingi Garðar Erlendsson stjórnar.
Litlasveit var formlega stofnuð í byrjun árs og samanstendur af sex meðlimum sem njóta þess að spila saman og semja eigin tónlist, innblásna af fjölbreyttum tónlistarstefnum.
Stórsveit SVoM samanstendur af 25 hljóðfæraleikurum á aldrinum 14–16 ára. Þau hafa tekið þátt í árlegu stórsveitarmaraþoni Stórsveitar Reykjavíkur undanfarin ár og koma nú fram undir stjórn Samúels Jóns Samúelssonar.
Gríðarleg gróska einkennir íslensku jazzsenuna þessa dagana. Vilkulega koma helstu flytjendur landsins fram á tónleikum um alla borg og þess á milli eru margir þeirra á ferð og flugi út um allan heim að spila fyrir aðdáendur og jazzáhugafólk. Jazzhátíð Reykjavíkur endurspeglar þessa orku og býður áheyrendum upp á einstakt tækifæri til að upplifa allt það ferskasta og besta sem senan hefur upp á að bjóða.