Faghátíðir (e. showcase festivals) eru frábrugðnar hefðbundnum tónlistarhátíðum að því leyti að á þeim er stór hluti tónleikagesta fagfólk úr tónlistariðnaðinum. Faghátíðir geta virkað sem stökkpallur þátttakenda á alþjóðlegan tónlistarmarkað og því eru slíkar hátíðir mikilvægur liður í útflutningi á íslenskri tónlist.
Tónlistarmiðstöð starfar náið með mörgum af helstu faghátíðum heims; við styðjum við þátttöku íslensks listafólks, skipuleggjum kynningarviðburði og sendum íslenska fagaðila í þeim tilgangi að efla tengslanetið.