Upptökustuðningur

Tónlistarfólk, útgefendur og framleiðendur eiga rétt á 25% endurgreiðslu af kostnaði við hljóðritun tónlistar á Íslandi.

Kerfið er á vegum Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins og Tónlistarmiðstöð sér um kynningu þess í samstarfi við Íslandsstofu og Tónlistarborgina Reykjavík.

Markmið verkefnisins að styðja framleiðslu og útgáfu tónlistar, efla innviði tónlistariðnaðarins og hvetja til nýsköpunar og fjölbreytts skapandi starfs um allt land.

Umsóknir eru metnar af fjögurra manna nefnd sem ráðherra skipar sérstaklega til verksins. Í henni sitja tveir fulltrúar frá Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda (einn úr röðum flytjenda og einn úr röðum framleiðenda), einn fulltrúi frá STEF og formaður sem er skipaður án tilnefningar. Varamenn eru skipaðir á sama hátt og formaðurinn hefur úrslitaatkvæði ef atkvæði falla jöfn.

Hvað er endurgreiðsluhæft?

  • Leiga á hljóðverum
  • Laun tónlistar- og tæknifólks
  • Eftirvinnsla (hljóðblöndun, tónjöfnun o.fl.)
  • Ferðir og flutningur á hljóðfærum og aðalflytjendum
  • Þín eigin vinna sem framleiðandi

Helstu skilyrði

  • Útgefið efni þarf að vera minnst 14 mínútur að lengd
  • Allt efni sem sótt er um fyrir þarf að hafa komið út innan 18 mánaða tímabils (frá elsta til nýjasta hljóðrits)
  • Umsókn skal send innan sex mánaða frá útgáfu nýjasta hljóðrits
  • Sundurliðaðir reikningar og bókhald þurfa að fylgja
  • Skráning á hljodrit.is og úthlutaðir ISRC-kóðar verða að vera klár

Sækja um

Umsóknir skulu sendar rafrænt á netfangið mnh@mnh.is og umsóknareyðublaðinu má hlaða niður hér.

Til að umsóknaferlið gangi hnökralaust fyrir sig er gott að kynna sér svörin við algengustu spurningunum hér fyrir neðan og eins er sniðugt að kynna sér reglugerð um umsóknir vegna hljóðritunar.

Spurt og svarað

Hvernig sækir maður um og hvaða fylgigögn þarf?

Umsóknir skulu sendar rafrænt á netfangið mnh@mnh.is og umsóknareyðublaðinu má hlaða niður hér.

Ef ekki er hægt að senda umsókn eða gögn rafrænt, má senda umsóknir með pósti eða skila þeim í Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið (Reykjastræti 8, 101 Reykjavík).

Beðið er um eftirfarandi upplýsingar:

  • Upplýsingar um umsækjanda (nafn, land, símanúmer, kennitala o.s.frv.)
  • Bankaupplýsingar
  • Upplýsingar um hljóðritin (lengd og útgáfudagsetning)
  • Nöfn allra flytjenda á hljóðritunum
  • Reikninga, sundurliðun kostnaðar og staðfestingar á greiðslu
  • Upplýsingar um opinbera styrki sem umsækjandi hefur fengið til útgáfu hljóðritanna, ef við á

Staðfestingu frá STEF (eða sambærilegum samtökum) og innheimtumanni ríkissjóðs um að umsækjandi sé ekki í vanskilum (þ.e. skuldi ekki höfundaréttargjöld eða opinber gjöld/skatta)

Hver eru skilyrðin?
  • Samtals spilunartími hljóðritaðs efnis skal vera a.m.k. 14 mínútur
  • Öll hljóðritin verða að hafa verið gefin út innan 18 mánaða tímabils
  • Ekki mega vera liðnir meira en sex mánuðir frá útgáfu nýjasta hljóðrits þar til sótt er um
  • Sundurliðað bókhald og reikningar ásamt staðfestingu á greiðslu skulu fylgja
  • Upplýsingar um alla sem komu að upptöku og flutningi
  • Hljóðritin skulu hafa verið gefin út og gerð aðgengileg almenningi
  • ISRC-kóðar verða að hafa verið úthlutaðir (nema fyrir kvikmynd/sjónvarp)
  • Fullnaðarskráningu verka skal hafa lokið hjá viðurkenndum höfundarréttarsamtökum
  • Umsækjandi má ekki vera í vanskilum við STEF eða íslenska ríkið
Hvað er endurgreiðsluhæft?

Endurgreiðsluhæfur kostnaður er sá samanlagði kostnaður sem endurgreiðslan byggist á:

  • Leiga á hljóðveri
  • Laun aðkeyptra flytjenda, tæknifólks eða starfsfólks hljóðvers
  • Eftirvinnsla (hljóðblöndun og tónjöfnun)
  • Ferða- og flutningskostnaður fyrir hljóðfæri og aðalflytjendur
  • Laun aðalflytjanda

Ef upptökur fara fram á tónleikum, sýningu eða sambærilegum viðburði, má aðeins reikna með beinum upptökukostnaði, eftirvinnslu og þóknunum til flytjenda.Endurgreiðslukerfið nær ekki til upptaka sem eru sérstaklega ætlaðar til kynningar á vöru eða þjónustu eða upptöku hljóðbóka.

Hver má sækja um?

Útgefandi hljóðritsins sækir um endurgreiðslu.

Hve mikið er endurgreitt?

Endurgreiðslan nemur 25% af endurgreiðsluhæfum kostnaði sem fellur til á Íslandi við hljóðritun.

Hvað með erlent samstarf?

Endurgreiðslukerfið gildir um kostnað sem fellur til á Íslandi. Kostnaður innan EES getur einnig talist með ef að minnsta kosti 80% af kostnaðinum fellur til á Íslandi. Ef minna en 80% kostnaðar fellur til á Íslandi, byggist endurgreiðslan á því að heildarkostnaður innan EES sé að lágmarki 20%.

Hvenær telst hljóðrit gefið út?

Hljóðrit telst gefið út þegar það hefur verið gert aðgengilegt almenningi, t.d. selt, leigt, lánað eða dreift á annan hátt.

Hljóðritið þarf að hafa ISRC-kóða (nema þegar um er að ræða tónlsit fyrir kvikmynd/sjónvarp).

Geta erlendir aðilar sótt um?

Já, bæði innlendir og erlendir aðilar geta sótt um endurgreiðslu.

Hvað ef hluti upptökunnar fer fram erlendis?

Endurgreiðslan er 25% af kostnaði innan EES ef meira en 80% af heildarkostnaði fellur til á Íslandi.

Hvað með tónlist í kvikmyndum og sjónvarpi?

Ekki þarf að skila ISRC-kóðum með umsókn. Verkið telst gefið út þegar því hefur verið skilað til framleiðslufyrirtækis kvikmyndar eða sjónvarpsþáttar.

Samtals spilunartími þarf að vera a.m.k. 14 mínútur, óháð því hversu mikið af efninu endar í lokaútgáfu.

Ef verkefnið fær þegar endurgreiðslu í gegnum Kvikmyndasjóð á það ekki rétt á endurgreiðslu vegna hljóðritunar.

Þarf útgáfan að vera á föstu formi?

Nei, það er ekki krafa um að gefa efnið út á föstu formi, stafrænar útgáfur eru einnig gjaldgengar.

Hvað er ekki endurgreiðsluhæft?
  • Upptökur sem tengjast kynningu á vöru eða þjónustu
  • Hljóðbækur
  • Sama verkefni getur ekki fengið meira en 30.000.000 kr. endurgreitt á þriggja ára tímabili
  • Viðburðaupptökur: aðeins beinn kostnaður við upptöku, eftirvinnslu og útgáfu
Hvað ef verkefnið hefur fengið styrk?

Opinberir styrkir til sama verkefnis dragast frá endurgreiðsluhæfum kostnaði. Samtals styrkir og endurgreiðsla mega ekki fara yfir 85% af heildarkostnaði.

Eru laun innifalin?

Já, laun aðkeyptra flytjenda, framleiðenda, tæknimanna eða starfsfólks hljóðvers teljast með.


Einnig má framleiðandi telja með eigin laun sem nemur einum mánuði á listamannalaunum, ef hann er skattlagður á Íslandi eða innan EES.

Hver skal skráður á umsókn?

Útgefandi hljóðritsins. Ef fleiri en einn útgefandi er skráður, sækja þeir saman um endurgreiðslu.

Hvenær skal sækja um?

Umsókn þarf að berast ráðuneytinu innan sex mánaða frá útgáfu síðasta hljóðrits.

Þarf dvalarleyfi?

Almenna reglan er að allir sem starfa á Íslandi þurfi bæði atvinnu- og dvalarleyfi.Undanþágur gilda m.a. fyrir listamenn í allt að 90 daga á ári, og starfsmenn innan EES/EFTA í tiltekinn tíma.

Tákn Tónlistarmiðstöðvar