Northern Rising - Allir þættir aðgengilegir
.jpg)
Hlaðvarpsáttaröðin Northern Rising hefur nú lokið göngu sinni. Þáttaröðin, sem var tekin upp í Iceland Airwaves-vikunni í fyrra, fylgir listafólki í gegnum hátíðina og veitir einstaka innsýn í litrík ævintýri þess. Umsjónarmaður þáttanna er Tim Pogo, bandarískur fjölmiðlamaður með áratuga reynslu af útvarpi, sjónvarpi og stafrænni miðlun en Tim hefur einmitt verið fastagestur á hátíðinni frá árinu 2000 og fjallað um hana fyrir margvíslega miðla.
Í þáttunum er rætt við avantpopplistakonuna Sunnu Margréti, ástsæla söngvaskáldið Elínu Hall og jarðýtuindíbandið Virgin Orchestra og leiða þau hlustendur í gegnum hina ómótstæðilegu óreiðu sem einkennir borgina á meðan á hátíðinni stendur. Listafólkið ræðir uppvaxtarárin, sköpunarferlið og íslensku tónlistarsenuna almennt ásamt því að draga hlustendur á hina ólíklegustu staði: kaffihús, plötubúðir, listasöfn, hjúkrunarheimili, kjörbúðir og fleira.
Þáttaröðin er framleidd af Tónlistarmiðstöð, Record in Iceland og The Reykjavík Grapevine.
Allir þættirnir eru nú aðgengilegir á helstu hlaðvarpsveitum!