Íslensk tónskáld á Nordic Film Music Days
.png)
Íslensk kvikmyndatónlist í sviðsljósi á Nordic Film Music Days
Íslensk kvikmyndatónlist verður áberandi á Nordic Film Music Days 2025, þar sem framúrskarandi tónskáld og tónlistarfólk frá Íslandi mun taka þátt í þessari virtu hátíð. Hátíðin fer fram í Berlín í tengslum við kvikmyndahátíðina Berlinale og er mikilvægur vettvangur fyrir tónskáld sem starfa við kvikmyndatónlist á Norðurlöndunum.
Íslenskt tónlistarfólk á Nordic Film Music Days 2025
Meðal íslenskra fulltrúa á hátíðinni í ár eru Högni Egilsson, Eðvarð Egilsson, Margrét Rán, JFDR (Jófríður Ákadóttir) og Hallur Ingólfsson. Högni er tilnefndur til norrænu kvikmyndatónlistarverðlaunanna HARPA í ár, en Eðvarð hlaut verðlaunin í fyrra.
Kynntu þér Tónskáldin sem eru að fara:
Hallur Ingólfsson Hallur Ingólfsson er íslenskt tónskáld sem hefur skapað sér nafn í kvikmyndatónlist, hann hefur samið tónlist fyrir tugi kvikmynda og sjónvarpsþætti, auk fjölda sviðsverka. Hallur hefur verið margtilnefndur til EDDU- og GRÍMU-verðlauna og er þekktur fyrir tónlist sína í vinsælum kvikmyndum eins og Síðasta veiðiferðin (2020) og Amma Hófí (2020).
Margrét Rán Margrét Rán er söngkona, framleiðandi og kvikmyndatónskáld. Hún er þekkt fyrir fjölbreytta tónlistarsköpun og er meðlimur hljómsveitanna Vök og GusGus. Hún hefur samið tónlist fyrir heimildarmyndir á borð við A Song Called Hate (2020), Belonging (2023) og The Day Iceland Stood Still (2024).
JFDR (Jófríður Ákadóttir) JFDR hefur á undanförnum 12 árum gefið út 12 plötur og unnið með listamönnum eins og Ólafi Arnalds og Damien Rice. Hún hefur einnig samið tónlist fyrir kvikmyndir, þar á meðal verðlaunamyndina Backyard Village.
Eðvarð Egilsson og Högni Egilsson Eðvarð Egilsson var sigurvegari norrænu kvikmyndatónlistarverðlaunanna HARPA 2024, en Högni Egilsson er tilnefndur til verðlaunanna í ár fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Vanskabte Land. Lesa meira: Tilkynning um tilnefningu Högna
Nordic Film Music Days er einstakur vettvangur fyrir íslenskt tónlistarfólk til að kynna sig og tengjast alþjóðlegum kvikmyndagerðarmönnum. Tónlistarmiðstöð hefur stutt þátttöku íslendinga á hátíðinni sem gefur tónskáldum og tónlistarfólki tækifæri til að kynna verk sín fyrir bransanum á alþjóðlegum vettvangi.
Meira um Nordic Film Music Days: Heimasíða hátíðarinnar