Komdu með Tónlistarmiðstöð á Classical:NEXT

25
.  
February
 
2025

Classical:NEXT fer fram í Berlín, Þýskalandi dagana 12.-15. maí 2025 og líkt og undanfarin ár tekur Tónlistarmiðstöð þátt ásamt hópi íslensks tónlistarfólks og fagaðila. Þau sem skrá sig fyrir 20. mars geta fengið hjá okkur afsláttarkóða fyrir skráningargjaldi hátíðarinnar, en hægt er að skrá sig alveg fram á síðasta dag. 

Classical:NEXT er alþjóðleg tónlistarráðstefna í sígildri og samtímatónlist og er hún ein af mikilvægustu alþjóðlegu samkomunum fyrir fólk sem starfar í þeim geira. Hátíðin býður upp á einstakan vettvang fyrir tónlistarfólk frá öllum heimshornum til að kynna sig og verkefnin sín og tengjast fagaðilum innan greinarinnar.

Norræni básinn á C:N

Tónlistarmiðstöð verður með samnorrænan bás með Danmörku, Noregi, Finnlandi, Svíþjóð og Færeyjum og nýtist hann öllum sem koma með okkur sem heimasvæði til funda og tengslamyndunar en auk þess að bjóða upp á alþjóðlegt básasvæði býður hátíðin auðvitað upp á tónleikadagskrá og ráðstefnu á heimsmælikvarða ásamt ýmsum öðrum viðburðum.

Hverjir eru á Classical:NEXT?

Á C:N má búast við að hitta annað tónlistarfólk, fulltrúa hljómsveita, skipuleggjendur viðburða, útgefendur, umboðsmenn, listræna stjórnendur o.fl. Hér má sjá þau sem mættu í fyrra en listinn yfir þátttakendur ársins í ár verður birtur þegar nær dregur hátíðinni og nýtist hann vel til skipulagningar og fundabókana. 

Hvað kostar að fara á Classical:NEXT?

Gera má ráð fyrir ferðakostnaði og skráningarkostnaði á hátíðina, en eins og áður sagði getur Tónlistarmiðstöð boðið afslátt af skráningargjaldi til 20. mars. Hér má finna upplýsingar um skráningarkostnað. Einnig hvetjum við áhugasama eindregið um að sækja um ferðastyrk í Tónlistarsjóð.

Hér má sjá ummæli frá nokkrum sem fóru með okkur síðast:

„Þá kem ég m.a. heim ríkari af nýjum samböndum, ósk um samstarf við alþjóðlega þekktan listhóp og alvarlegt tilboð um yfirtöku á sambærilegri starfsemi erlendis.“  

„Við tókum marga fundi og tókst að byggja upp töluvert net nýrra tengsla, sem mörg hver við erum að kanna möguleika á samstarfi við í framtíðinni.“  

„Ég hitti fjölmarga úr flestum geirum klassíska tónlistarbransans sem ég hlakka til að láta reyna á áframhaldandi samstarf við í kringum þau verkefni sem ég er með í farteskinu.“  

Nánari upplýsingar veitir: Signý Leifsdóttir - signy@icelandmusic.is

Lestu einnig

Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar