Úlfur Eldjárn og Julie Trouvé taka þátt í tónlistarskiptivinnudvöl á milli Nantes og Reykjavíkur

21
.  
May
 
2025

Tónlistafólkið Úlfur Eldjárn og Julie Trouvé  hafa verið valin til þátttöku í tónlistarskiptivinnudvöl á milli borganna Nantes í Frakklandi og Reykjavíkur.

Markmið verkefnisins er að tengja saman borgirnar tvær og tónlistarsamfélög þeirra, auk þess að stuðla að sjálfbæru samstarfi með því að nýta kraft tónlistar og sköpunar. 

Vinnudvölin býður tónlistarfólki tækifæri til að skapa tónlist í fullbúnu hljóðveri og æfingarými í borgunum tveimur. Dvölin er jafnframt einstakt tækifæri fyrir listafólkið að tengjast tónlistarsenunni í viðkomandi landi jafnt öðru listafólki sem og aðilum úr tónlistariðnaðinum.  

Skiptivinnudvölin er samstarfsverkefni Tónlistarborgarinnar Reykjavík, Nantes, Tónlistarmiðstöðvar, hafnar.haus, STEF og Listasamsteypunnar Trempo í Nantes, Franska sendiráðið á Íslandi,  Allliance Francaise de Reykjavik og ARDIAN.

 

Úlfur Eldjárn er íslenskt tónskáld og raftónlistarmaður sem starfar á mörkum samtímatónlistar og raftónlistar. Úlfur vinnur jafnt að fjölbreyttum og tilraunakenndum verkefnum þar sem hann nýtir ólíka miðla og tækni til að skapa óhefðbundna upplifun fyrir áheyrendur. Hann semur einnig tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarp ásamt því að vera meðlimur í hinni goðsagnakenndu íslensku rafrokkhljómsveit Apparat Organ Quartet.

Julie Trouvé er frönsk tónlistarkona sem notast við listamannanafnið Roukie. Í tónlist hennar mætir tilfinningaríkt popp tölvuleikjaheimi með synthum, ljóðrænum textum og draumkenndum hljómum.

Í tengslum við skiptivinnudvölina mun þau bæði koma fram á tónleikum í Reykjavík síðar á árinu. Við óskum þeim hjartanlega til hamingju.

Lestu einnig

Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar