The Line of Best Fit - Í Smekkleysu með lúpínu

Þá er komið að þriðja og síðasta myndbandinu sem The Line of Best Fit framleiddu í samstarfi við Record in Iceland í Airwaves vikunni síðastliðinni. Í þetta skiptið er það hin einstaka lúpína sem dreif sig niður í Smekkleysu árla morguns og flutti þessa kuldalegu hvítabrimsútgáfu af lagi sínu ein á báti. Lagið er lokalag plötunnar Marglytta sem kom út í fyrra og hlaut lof fyrir gríðarsterkar og öruggar lagasmíðar og hljóðheim.
Lúpína er sóló-verkefni hinnar norsk/íslensku Nínu Sólveigar Andersen en hún braust fram á sjónarsviðið árið 2022 með fyrstu smáskífu sinni Ástarbréf. Síðan þá hefur hún gefið út plöturnar ringluð og MARGLYTTA og hefur í kjölfarið vakið athygli langt út fyrir landsteinana fyrir kraftmikla en dulúðuga tónlist sína. Lúpína er náttúruafl sem ætlar sér stóra hluti.
Næst heldur lúpína á SXSW í Austin, þar sem hún kemur fram á Iceland Airwaves-kvöldi hátíðarinnar ásamt Sunnu Margréti og Superserious. Tónleikarnir, sem eru haldnir í samstarfi við Tónlistarmiðstöð og Íslandsstofu, fara fram á tónleikastaðnum Shangri-La þann 11. Mars.
Sjáðu myndbandið í heild sinni hér: