The Line of Best Fit - Í sumarbústaðnum með Sunnu Margréti

Í miðri Airwaves-vikunni síðastliðinni tók Sunna Margrét sér stutta pásu frá látunum í borginni og hélt í sveitasæluna í Hvalfirði þar sem flutti draumkennda útgáfu af lagi sínu Fern fyrir breska tónlistarmiðilinn The Line of Best Fit. Sumarbústaðarsessjónið er hluti af myndabandaröð sem TLOBF hafa unnið í samstarfi við Record in Iceland verkefnið undanfarin ár.
Sunna Margrét hefur verið iðin við tónlistarsköpun allt frá því að hún gekk til liðs við hljómsveitina Bloodgroup árið 2010, þá aðeins 18 ára gömul. Sólóferill hennar hófst svo á loft í fyrra við útgáfu fyrstu breiðskífu hennar Finger on Tongue sem hlaut einróma lof gagnrýnenda. Í kjölfar útgáfunnar hefur Sunna komið fram á hinum ýmsu tónlistarhátíðum, þar á meðal Iceland Airwaves og Eurosonic.
Næst heldur Sunna til SXSW í Austin í mars, þar sem hún kemur fram á Iceland Airwaves-kvöldi hátíðarinnar ásamt Elínu Hall, Lúpínu og Superserious. Tónleikarnir, sem eru haldnir í samstarfi við Tónlistarmiðstöð og Íslandsstofu, fara fram á tónleikastaðnum Shangri-La þann 11. mars.
Sjáðu myndbandið í heild sinni hér:
Ásamt Sunnu munu Elín Hall, Lúpína og Superserious koma fram á Iceland Airwaves kvöldinu á SXSW sem haldið verður á tónleikastaðnum Shangri-La þann 11. mars.