Myrkir músíkdagar lýsa upp skammdegið - Lagalisti

Með Myrka Músíkdaga handan við hornið fengum við tónskáldin Þórð Hallgrímsson og Iðunni Einars til að setja saman sérstakan lagalista fyrir hátíðina. Lagalistinn, sem inniheldur uppáhald þeirra úr heimi íslenskrar samtímatónlistar, fangar fullkomlega anda Myrkra Músíkdaga, helstu og elstu samtímatónlistarhátíðar landsins.
Hátíðin, sem hefur frá árinu 1980 lýst upp dimmustu vetrarmánuðina, fer fram núna um helgina 24.–26. janúar.
Í ár munu Þórður og Iðunn einnig sameinast í flutningi sem nefnist „Pípumessa“. Tónleikarnir, sem fara fram í Kaldalónssal Hörpu, sunnudaginn 26. janúar klukkan 13.00, bjóða upp á forvitnilegt ferðalag sem kannar efnisheim pípa í öllum sínum fjölbreyttu myndum. Búast má við ólíkum hljóðfærum úr alls konar áttum en verkið verður til að mynda flutt á hefðbundin tré- og málmblásturshljóðfæri, blokkflautur úr niðurfallsrörum úr plasti, orgelpípur, drykkjarör úr gleri og margt fleira. Áheyrendum er boðið að stíga inn í þennan hljóðheim pípanna sem samsettur er úr svo fjölbreyttum efnis- og efnisáferðaheimi pípanna og taka þátt í þessari fjögurra þátta áhrifaríku en í senn merkingarlausu messu undir leiðsögn höfunda.
Við mælum eindregið með að sem flestir kíki á hátíðina sem býður upp á einstakt tækifæri til að njóta ótrúlegs sköpunarkrafts íslenskrar samtímatónlistar.