Ísland í fókus á Les Arcs Film Festival 2024

10
.  
December
 
2024

Tónlistarmiðstöð tekur þátt í Les Arcs Film Festival 2024 sem fer fram í hjarta frönsku Alpanna, dagana 14.-21. desember.  Í ár hefur Ísland verið valið fókusland hátíðarinnar og auk þess að taka á móti fulltrúum íslensku kvikmyndatónlistarinnar og hýsa tónleika íslensks listafólks mun hátíðin sýna 20 íslenskar kvikmyndir. Hátíðin er mikilvægur menningarviðburður sem miðar að því að kynna fjölbreytileika evrópskrar kvikmyndar, og í ár býður hún þátttakendum upp á einstakt tækifæri til að upplifa framlag íslenskrar tónlistar og kvikmynda til menningarheims Evrópu.

Íslensk kvikmyndartónskáld í frönsku ölpunum

Þetta árið mun „tónlistarþorp“ (e. Music village) hátíðarinnar varpa ljósi á framlag Íslands til kvikmyndatónlistar, með áherslu á þau sterku tengsl sem eiga sér stað á milli tónlistar- og kvikmyndabransans.

Þrjú af fremstu kvikmyndatónskáldum Íslands taka þátt í tónlistarþorpi hátíðarinnar

  • Herdís Stefánsdóttir verður í Feature Film-dómnefnd hátíðarinnar. Hún hefur meðal annars unnið að tónlist fyrir kvikmyndirnar Knock at the Cabin og The Sun Is Also A Star.
  • Eðvarð Egilsson er þekktur fyrir tónlist sína við kvikmyndir eins og Smoke Sauna Sisterhood og Skjálfta.
  • Atli Örvarsson hefur komið að verkefnum eins og The Hitman’s Bodyguard og The Eagle. Atli tekur þátt í  hátíðinni sem framleiðandi The Fires, sem var valin til sérstakrar sýningar í flokknum verk í vinnslu.

Á hátíðinni verða jafnframt tvö íslensk tónlistaratriði:

  • Lúpína kemur fram í opnunarpartýi hátíðarinnar 14. desember. Lúpína er þekkt fyrir draumkennt syntapopp en síðasta plata hennar, Marglytta, hefur fengið mikið lof fyrir margbrotinn hljóðheim og áhrifamikla texta. 
  • Högni Egilsson mun koma á svið í bransaþorpinu (e. Industry village) 16. desember ásamt fiðluleikaranum og tónskáldinu Viktori Orra Árnasyni. Högni hefur verið iðinn við kvikmyndartónlist og samdi þar á meðal tónlistina fyrir  Kötlu og Snertingu.

Aðrir fagaðilar sem fara á hátíðina:

  • Salka Valsdóttir, listrænn ráðgjafi og tónlistarkona.
  • Sveinn Geirsson, tónskáld og framleiðandi.
  • Katrín Helga Andrésdóttir, leikstjóri og höfundur HEX.
  • María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar.
  • Signý Leifsdóttir, sérfræðingur hjá Tónlistarmiðstöð.

Lestu einnig

Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar