Myrkir músíkdagar 2025: Einstök samtímatónlistarveisla

18
.  
February
 
2025

Nýafstaðnir Myrkir músíkdagar vörpuðu ljósi á þá gríðarlegu grósku sem finna má í íslenskri samtímatónlist. Hátíðin, sem hefur verið brautryðjandi afl frá stofnun hennar fyrir rúmlega fjörutíu árum síðan, einbeitir sér að því að bjóða upp á gríðarlega fjölbreytt úrval tónlistar, frá sígildum tónsmíðum yfir í djarfa tilraunamennsku og flest þar á milli.

Sinfóníuhljómsveit íslands á Myrkum Músíkdögum (Mynd: Brian Fitzgibbon)

Fjölbreytnin var í forgrunni í ár. Cantoque Ensemble, Caput Ensemble, Riot Ensemble og Sinfóníuhljómsveit Íslands fluttu einstakar túlkanir á samtímatónlist á meðan einleikstónleikar John McCowen og flutningur Masaya Ozaki ögruðu hlustendum hver á sinn hátt.

Masaya Ozaki flytur verk í bílastæðahúsinu undir Hörpu. (Mynd Brian Fitzgibbon)
“Við vorum afar ánægð með frábæra aðsókn og fjölbreyttan áhorfendahóp. Ljóst er að aukin breidd í dagskrárgerð laðar að sér enn fleiri áhugasama gesti – ný tónlist á erindi við marga. Hátíðin er tilraunamiðstöð senunnar, þar sem listafólk getur prófað nýjar leiðir og þróað spennandi verkefni, sem oft finna sér síðar leið á stærri mið.

- Gunnhildur Einarsdóttir, listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga

Einn af eftirminnilegustu tónleikum hátíðarinnar var flutningur Viibra í Ásmundarsal. Flautuseptettinn, sem sprettur úr áralöngu samstarfi við Björk, hefur skipað sér í fremstu röð íslenskra samtímatónlistarflytjenda, og báru tónleikar hópsins í Ásmundarsal þess greinilega vitni. 

Þverfaglega gjörningarlistakonan Ásta Fanney, sem verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum á næsta ári, átti heiðurinn af öðrum eftirminnilegum viðburði þegar hún flutti verk sitt Glossolalia fyrir fullum Eldborgarsal.

Ásta Fanney á Myrkum Músíkdögum 2025 (Mynd: Brian Fitzgibbon)

Myrkir músíkdagar 2025 í hnotskurn - Sjáðu myndbandið:

Við hvetjum öll til að fylgjast vel með fréttum af Myrkum músíkdögum 2026! 

Frekari upplýsingar og miðar Myrkra músíkdaga 2026 má finna hér>>

Lestu einnig

Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar