CYBER og Spacestation koma fram á The Great Escape 2025
.jpg)
Íslensku sveitirnar CYBER og Spacestation munu koma fram á The Great Escape hátíðarinni sem fer fram dagana 14.–17. maí í Brighton, Bretlandi.
Báðar sveitirnar létu mikið fyrir sér fara árið 2024 og hafa að sama skapi hafið 2025 af miklum krafti.
Plata CYBER, SAD:'( hlaut almennt lof gagnrýnenda þegar hún kom út í fyrra og var þar á meðal nefnd plata ársins af Morgunblaðinu, auk þess sem sveitin hlaut verðlaunin listafólk ársins á Reykjavík Grapevine Music Awards. CYBER eru náttúruafl og hafa skipað sér í fremstu röð íslenskra tónleikasveita. Hljómsveitin er hluti af hinni dularfullu marvöðu—útgáfufyrirtækii, kollektívi og sköpunarkjarna sem hefur látið mikið fyrir sér fara upp á síðkastið.
Spacestation gaf út sína fyrstu plötu, Reykjavík Syndrome, fyrr á þessu ári og fylgdi henni eftir með uppseldum útgáfutónleikum á Iðnó sem munu eflaust fara í sögubækurnar. Hljómsveitin hefur verið á mikilli siglingu síðan fyrsta smáskífan þeirra Hvítt Vín kom út árið 2023—en lagið var einmitt tilnefnt lags ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2024. Spacestation sneru svo aftur á Íslensku tónlistarverðlaunin 2025 og hlutu sömu verðlaun fyrir stærsta lag sitt til þessa, Í Draumalandinu.
Um The Great Escape
The Great Escape (TGE) er líklega frægasta hátíð sinnar tegundar í Evrópu. Um er að ræða árlega faghátíð sem fer fram um miðjan maí í strandborginni Brighton í Bretlandi. TGE tekur yfir 35 tónleikastaði víðs vegar um borgina og býður jafnan upp á um 500 tónleika, þvert á stefnur.
TGE hefur orðspor á sér sem einn af mikilvægustu vettvöngunum til að uppgötva björtustu vonirnar hverju sinni og er því ómissandi viðburður fyrir listafólk, fagaðila og tónlistarunnendur almennt.