Hápunktar frá „Top 20 under 30 - Nordic Music Biz“ verðlaunaafhendingunni
Gabríel Ólafsson og Klaudia Gawryluk urðu nýverið handhafar „Top 20 Under 30 - Nordic Music Biz“ viðurkenningarinnar sem er veitt björtustu vonunum í tónlistariðnaði Norðurlandanna.
Nordic Music Biz Top 20 Under 30 verkefnið er á sínu sjöunda ári og hefur það að leiðarljósi að undirstrika fjölbreytileikann í mismunandi greinum iðnaðarins og endurspegla ríkulega og litríka tónlistarsenu svæðisins. Á bak við tjöldin gegna þessir ungu fagmenn mikilvægu hlutverki í vexti tónlistar Norðurlandanna og alþjóðlegum áhrifum hennar, með því að kynna nýjar hugmyndir fyrir iðnaði sem krefst þess að vera í sífelldri þróun.
Sigurvegarar ársins 2024 voru heiðraðir yfir hádegisverði á Nedre Foss Gård í Osló, sem var hýstur af norska utanríkisráðuneytinu. Sigurvegararnir fengu öll viðurkenningar sem voru hannaðar af norska listamanninum Kristian Hammerstad og fulltrúi frá utanríkisráðuneyti Noregs sagði nokkur orð við tilefnið. Viðurkenningin og athöfnin sjálf undirstrikar mikilvægi þessara ungu fagaðila í mótun framtíðar tónlistariðnaðar Norðurlanda.
Myndir teknar af: Ousu Leigh
Íslenskir handhafar Nordic Music Biz Top 20 Under 30 verðlaunanna.
Með heiðrun Gabríels og Klaudiu er fjöldi íslenskra handhafa verðlaunanna orðinn 12. Fyrri verðlaunahafar frá Íslandi eru:
- 2018: Sindri Ástmarsson
- 2019: Unnsteinn Manuel Stefánsson, Sigríður Ólafsdóttir, Anna Ásthildur Thorsteinsson
- 2020: Soffía Jónsdóttir
- 2021: Ægir Sindri Bjarnason, Bergþór Másson
- 2022: Björk Hrafnsdóttir, Árni Hrafn Kristmundsson
- 2023: Bjarni Daníel Þorvaldsson, Junia Lin Jónsdóttir, Sólveig Matthildur
Gabríel og Klaudia bætast við þennan hóp virtra íslenskra frumkvöðla sem í sameiningu lyfta íslensku tónlistarlífi á hærra plan.
Kynntu þér sigurvegarana 2024
Gabríel Ólafsson: Frumkvöðull og stofnandi Reykjavík Orkestra
Gabríel Ólafsson er tónskáld, upptökustjóri og stofnandi sinfóníuhljómsveitarinnar Reykjavík Orkestra (fyrrum Reykjavík Recording Orchestra). Hann gegndi lykilhlutverki við að koma á fót fullkomnu upptökuveri í Hörpu, helsta tónlistarhúsi Íslands. Upptökuverið er tengt við þrjá af stærstu sölum byggingarinnar og getur því tekið að sér stærðarinnar verkefni. Þannig hefur Reykjavik Orkestra getað tekið upp tónlist fyrir stóra alþjóðlega viðskiptavini eins og Netflix, Apple TV, Blizzard, EA Games, Deutsche Grammophon, BBC og Hans Zimmer. Auk starfa sinna sem upptökustjóri er Gabríel tónskáld og hafa tónverk hans, sem gefin eru út af Decca/Universal, sankað að sér yfir 300 milljónum streymum.
Klaudia Gawryluk: DJ, bókari og stofnandi Radar
Klaudia Gawryluk er DJ, bókari og stofnandi Radar, fyrsta rafstónlistarklúbbs Íslands í 20 ár. Hún er drifkrafturinn á bakvið viðburðaröðina „Open Decks“ og „Bi*ch Per Minute“, sem hafa lagt grunninn af líflegri raftónlistarsenu ungra áhugamanna. Radar er orðinn miðpunktur íslenskrar rafstónlistar en klúbburinn dregur að sér alþjóðlega athygli og hýsir heimsþekkta plötusnúða eins og Marco Bailey og Nina Kraviz. Metnaður Klaudiu hefur endurvakið rafstónlistarheim Reykjavíkur og gert senuna sterkari en hún hefur verið síðastliðna tvo áratugi.