Þakkarorða íslenskrar tónlistar veitt 1. desember við hátíðlega athöfn í Hörpu
Magnúsi Eiríkssyni fagnað og þjóðinni boðið
Hinn ástsæli laga- og textahöfundur Magnús Eiríksson hlýtur Þakkarorðu íslenskrar tónlistar við hátíðlega athöfn í Hörpu á Degi íslenskrar tónlistar, þann 1. desember. Verðlaunin eru heiðursverðlaun nýstofnaðs Tónlistarráðs og er þeim ætlað að heiðra starf og sköpun þess listamanns er fyrir valinu verður og um leið bjóða landsmönnum upp á einstaka tónlistarveislu.
Í tilefni Þakkarorðunnar býður Tónlistarráð landsmönnum á tónleika til heiðurs Magnúsar í Eldborg í Hörpu kl. 20:00 þann 1. Desember. Landsmönnum öllum gefst kostur á að sækja tónleikana með því að ná sér í boðsmiða á harpa.is/takk frá kl. 12:00 föstudaginn 29. nóvember en vert er að benda á að fyrra upplag af miðum rauk út á innan við klukkutíma og færri sem komust að en vildu. Framboð miða er takmarkað og við hvetjum við alla áhugasama til að hafa hraðar hendur til að missa ekki af þessum einstaka viðburði.
Á tónleikunum verða helstu lög Magnúsar flutt af mörgum af fremstu flytjendum landsins. Þeirra á meðal eru Bríet, Ragga Gísla, Pálmi Gunnarsson, Ellen Kristjáns, Mugison, KK og Valdimar Guðmundsson, auk einvala liðs hljóðfæraleikara undir stjórn tónlistarstjórans Eyþórs Gunnarssonar. Kynnar verða Jón Jónsson og Salka Sól. Tónleikarnir verða einnig teknir upp og sendir út sem hluti af hátíðardagskrá RÚV á milli jóla og nýárs í von um að sem flestum gefist kostur á að upplifa þennan stórbrotna tónlistarviðburð.
Hlekkur á viðburðinn á Facebook