Tónlistarmiðstöð formlega opnuð við hátíðlega athöfn í nýju aðsetri við Austurstræti
Tónlistarmiðstöð var formlega opnuð þann 23. apríl í nýja aðsetri við Austurstræti 5 í Reykjavík. Opið hús kom þar á eftir þar sem gestum gafst tækifæri til að hitta starfsfólk miðstöðvarinnar og skoða nýju skrifstofur þeirra.
Tónlistarmiðstöð var stofnuð með það að markmiði að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og -iðnaðar. Hlutverk Tónlistarmiðstöðvar er að vera samstarfsvettvangur hagsmunaaðila tónlistar á Íslandi, sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð er jafnframt falin umsjón með rekstri og starfsemi nýs Tónlistarsjóðs.
María Rut Reynisdóttir, nýr framkvæmdarstjóri miðstöðvarinnar, heldur ávarp þar sem hún lokar formlega forverum miðstöðvarinnar: Tónverkamiðstöð og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar. Allt starfsfólk þeirra hefur nú verið fært yfir til nýrrar Tónlistarmiðstöðvar og þakkar María því vel fyrir, með sérstökum þökkum til fráfarandi framkvæmdarstjóra þeirra: Sigtryggi Baldurssyni og Signýju Leifsdóttur. Jafnframt þakkar hún ráðherra, undirbúningsnefndum, og þeim fjölmörgu aðilum sem lögðu hönd á plóg við þetta þrekvirki að hafa sett upp nýja skrifstofu og á þvílkum undrahraða.
"Í dag er merkisdagur því við erum að opna miðstöð sem er ætlað að vera hornsteinn íslensks tónlistarlífs. Eitt sem ég vil gjarnan minnast á af þessu tilefni og það er fegurðin í því að við erum hér öll sameinuð undir einum hatti, þvert á tónlistarstefnur og hlutverk okkar í íslensku tónlistarlífi. Það eru ótvíræðir kostir við það að geta samræmt aðgerðir og veitt stuðning og þjónustu, sinnt fræðslu o.s.frv. frá einum og sama staðnum. En það er ekki bara hagkvæmt því í samvinnunni þvert á tónlistarstefnur, í samtalinu og suðupottinum eru að mínu mati fólgin heilmikil tækifæri. Við erum lítið tónlistarsamfélag og það eiga að vera hæg heimatökin að vinna saman frekar en að skipa okkur í hópa. Það er okkar sérstaða, okkar styrkur, og það er einmitt þegar ólíkum hlutum er blandað saman að eitthvað alveg nýtt verður til. Þarna eru sóknarfæri og ef við náum að skapa hér fjölbreytt, skapandi, inngildandi og alþjóðlegt tónlistarsamfélag erum við á grænni grein. Til hamingju með daginn og áfram íslensk tónlist!"
Myndasafn frá opnun og opnu húsi.
Ljósmyndari var Cat Gundry-Beck.
+