Tónlistarmiðstöð formlega opnuð við hátíðlega athöfn í nýju aðsetri við Austurstræti

30
.  
April
 
2024

Tónlistarmiðstöð var formlega opnuð þann 23. apríl í nýja aðsetri við Austurstræti 5 í Reykjavík. Opið hús kom þar á eftir þar sem gestum gafst tækifæri til að hitta starfsfólk miðstöðvarinnar og skoða nýju skrifstofur þeirra.

Tónlistarmiðstöð var stofnuð með það að markmiði að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og -iðnaðar. Hlutverk Tónlistarmiðstöðvar er að vera samstarfsvettvangur hagsmunaaðila tónlistar á Íslandi, sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð er jafnframt falin umsjón með rekstri og starfsemi nýs Tónlistarsjóðs.

María Rut Reynisdóttir, nýr framkvæmdarstjóri miðstöðvarinnar, heldur ávarp þar sem hún lokar formlega forverum miðstöðvarinnar: Tónverkamiðstöð og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar. Allt starfsfólk þeirra hefur nú verið fært yfir til nýrrar Tónlistarmiðstöðvar og þakkar María því vel fyrir, með sérstökum þökkum til fráfarandi framkvæmdarstjóra þeirra: Sigtryggi Baldurssyni og Signýju Leifsdóttur. Jafnframt þakkar hún ráðherra, undirbúningsnefndum, og þeim fjölmörgu aðilum sem lögðu hönd á plóg við þetta þrekvirki að hafa sett upp nýja skrifstofu og á þvílkum undrahraða.

"Í dag er merkisdagur því við erum að opna miðstöð sem er ætlað að vera hornsteinn íslensks tónlistarlífs. Eitt sem ég vil gjarnan minnast á af þessu tilefni og það er fegurðin í því að við erum hér öll sameinuð undir einum hatti, þvert á tónlistarstefnur og hlutverk okkar í íslensku tónlistarlífi. Það eru ótvíræðir kostir við það að geta samræmt aðgerðir og veitt stuðning og þjónustu, sinnt fræðslu o.s.frv. frá einum og sama staðnum. En það er ekki bara hagkvæmt því í samvinnunni þvert á tónlistarstefnur, í samtalinu og suðupottinum eru að mínu mati fólgin heilmikil tækifæri. Við erum lítið tónlistarsamfélag og það eiga að vera hæg heimatökin að vinna saman frekar en að skipa okkur í hópa. Það er okkar sérstaða, okkar styrkur, og það er einmitt þegar ólíkum hlutum er blandað saman að eitthvað alveg nýtt verður til. Þarna eru sóknarfæri og ef við náum að skapa hér fjölbreytt, skapandi, inngildandi og alþjóðlegt tónlistarsamfélag erum við á grænni grein. Til hamingju með daginn og áfram íslensk tónlist!"

Myndasafn frá opnun og opnu húsi.

Ljósmyndari var Cat Gundry-Beck.

Opnun Tónlistarmiðstöðvar fór fram fyrir fullu húsi.
María Rut framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar lokaði formlega Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og Tónverkamiðstöð. Allt starfsfólk og starfsemi beggja forvera hafa nú flust yfir til Tónlistarmiðstöðvar. Þakkaði hún þeim kærlega fyrir vel unnin störf og þolinmæðina við þessar breytingar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sagði í ræðu sinni að skýr samstaða tónlistarsenunnar hefði skipt sköpum við að setja upp Tónlistarmiðstöð.
Kórinn Kliður var með söngatriði, en þeirra sérstaða er að syngja aðeins verk eftir kórmeðlimi. Flutningurinn var í stjórn Snorra Hallgrímssonar. 
Jose Luis Anderson, gengur undir listamannanafninu Anderval, er nýr meðlimur í kórnum og flutti lagið sitt Faðmaðu Mig.

Viðstödd voru hrifin af lifandi tónlistarflutning við opnunina

+

Stjórn Tónlistarmiðstöðvar ásamt ráðherra og nýjum framkvæmdarstjóra. Frá vinstri: Einar Bárðason, Sólrún Sumarliðadóttir, Páll Ragnar Pálsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Gunnar Hrafnsson, María Rut Reynisdóttir, Ásmundur Jónsson, Guðrún Björk Bjarnadóttir og Sigrún Grendal.
Fjölmörg gerðu sér ferð í Austurstræti til að skoða nýtt aðsetur Tónlistarmiðstöðvar. 
Árni Þór Árnason umboðsmaður Ólafs Arnalds, Anna Jóna Dungal umbosðmaður Celebs, og Inga Magnes Weisshappel sem er í forsvari fyrir Wise Music Iceland gerðu sér glaðan dag. 
Steinunn Camilla Sigurðardóttir og Soffía Kristín Jónsdóttir, framkvæmdastjórar umboðsmannaskrifstofunnar Iceland Sync smökkuðu Tónelskur bjórinn okkar.
Öll voru velkomin í Tónlistarmiðstöð, ung sem aldin. 
Helena Sif Gunnarsdóttir, Eðvarð Egilsson, Eydís Evensdóttir, Hrefna Helgadóttir og Yuka Ogura
Tónlistarfólkið Karítas Óðins­dótt­ir, Eydís Evensen, og Ásgeir Trausti komu við. 
Það skapaðist mikil stemning við opnunina. Josie Gaitens, Valgeir Skorri Vernharðsson úr hljómsveitinni Celebs, tónlistarkonan Brynja, tónskáldið Baldvin Hlynsson og starfsmaður tónlistarmiðstöðvarinnar Helena Sif stóðu að spjalli. 
Anna Ásthildur, fyrrum markaðsstjóri Iceland Airwaves, kom ásamt Pierre Leck, eiginmanni sínum.
Margrét Ósk, umboðsmaður Supersport, Valgeir úr Celebs, og Einar Stef fengu túr um nýjar höfuðstöðvar Tónlistarmiðstöðvar.
Bragi Valdimar, formaður Tónskáldafélags Íslands, og Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs gefa nýrri Tónlistarmiðstöð tónverk eftir tónlistarmanninn Baldvin Hlynson, en á verkið er myndræn framsetning á stórri sexund. 

Lestu einnig

Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar