Klemens Hannigan, Superserious, og Ensemble Adapter í NYC – MYNDIR
New York ómaði af íslenskri tónlist í september, þegar tveir eftirminnilegir tónleikar – annars vegar bókaðir af hinni margrómuðu Iceland Airwaves hátíð og hins vegar tilraunaeldhúsinu Dark Music Days – heilluðu áhorfendur í nánu en rafmögnuðu umhverfi
Tónleikarnir voru hluti af Taste of Iceland, viðburðaröð sem Inspired by Iceland heldur um öll Bandaríkin, og fagnar því besta sem íslensk menning hefur uppá að bjóða.
Iceland Airwaves kveikir í Pianos með Klemens Hannigan og Superserious
Viðburðurinn á vegum Iceland Airwaves fór fram þann 5. september á tónleikastaðnum Piano’s í Lower East Side. Miðar á tónleikana höfðu selst upp viku fyrir viðburð og taldi biðlistinn meira en 300 manns og því augljóst að marga þyrsti í að upplifa smá sýnishorn af þekktustu tónlistarhátíð Íslands. Þó að staðurinn rúmi einungis 130 áhorfendur var troðið út úr dyrum og stemningin eftir því.
Klemens Hannigan var fyrstur á svið. Hann er einna þekktastur fyrir störf sín með Hatara en sem einyrki sýnir hann nýja hlið á sjálfum sér með sláandi raddsviði og seiðandi sviðsframkomu.
Superserious fylgdi í kjölfarið með sína einkennandi blöndu af hraðskreiðum töktum, glassúruðum “húkkum” og léttleikandi orku. Kvöldið sýndi enn og aftur fram á að Iceland Airwaves er með puttann á púlsinum og að styrkleiki hátíðarinnar felist einna helst í eiginleika hennar að varpa ljósi á áhugaverðustu listamennina sem finnast í íslensku tónlistarsenunni.
Dark Music Days á Ground Zero
Kvöldið eftir tók tilraunatónlistarhátíðin Dark Music Days við keflinu og bauð upp á einstaka tónleika í hinum goðsagnakennda stað Ground Zero Art Centre. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við Perelman Performing Art Centre og laðaði að sér fjöldann allan af fólki sem var spennt fyrir því að sökkva sér í framúrstefnulegan hljóðheim hátíðarinnar.
Sýningin var opnuð af menntamálaráðherra Íslands, Lilju Alfreðsdóttur, sem tók á móti gestum og ræddi menningarleg samskipti Íslands og Bandaríkjanna. Áhorfendum var boðið upp á ferðalag í boði Ensemple Adapter í gegnum þjóðlagahefðir þar sem þar sem íslensk og amerísk áhrif blönduðust saman á skemmtilegan og áhrifamikinn hátt.
Kíktu á myndirnar frá þessum ógleymanlegu viðburðum hér að neðan!