Ástarbréf til íslenskrar tónlistar - Innsendingarfrestur til Íslensku tónlistarverðlaunanna rennur út á föstudaginn

15
.  
January
 
2025

Innsendingarfrestur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2025 rennur út föstudaginn 17. janúar. Við hvetjum því öll sem koma að íslenskri tónlist til að senda inn efni sitt og freista þess að taka þátt í þessum stórglæsilega viðburði sem fagnar sköpunarkrafti og fjölbreytileika íslensks listafólks

Innsendingar fara fram á vefsíðu verðlaunanna >>>

Í tilefni tónlistarverðlaunanna langaði okkur að birta "Ástarbréf til íslenskrar tónlistar" sem listakonan Vigdís Hafliðadóttir skrifaði fyrir Dag íslenskrar tónlistar og flutti við hátíðlega athöfn 1. desember síðastliðinn. Þar sagði hún meðal annars:

„Tónlistarfólk hefur opnað huga minn og hjarta. Einhverjir hafa orðað tilfinningar sem ég vissi ekki að ég gæti upplifað, aðrir hafa lífgað mig við, gert erfiðar stundir fallegri, skemmt mér eða tengt mig við fólk ólíkt mér.”

Lagalisti æskunnar

Vigdís setti jafnframt saman sérstakan lagalista með tónlist sem hún ræðir í bréfinu sínu. Playlistinn er aðgengilegur á Spotify og fangar á einstakan hátt anda íslenskrar tónlistarmenningar. 

Áfram íslensk tónlist! 

______________________________________________

Ástarbréf til íslenskrar tónlistar - Vigdís Hafliðadóttir

Komið þið sæl, kæra tónlistarfólk og tónlistarunnendur og til hamingju með daginn!

Ég áttaði mig fljótt á því að Ísland var ekki jafn ofarlega í huga fólks og það var í mínum sem barn. Þegar ég var 11 ára fór ég í alþjóðlegar sumarbúðir þar sem krakkar frá 11 löndum, með starfsfólki allstaðar að, kom saman og lærðu um lönd hvers annars. Þá komst ég að því að almennt vissi enginn nokkurn skapaðan hlut um Ísland. Ég man þá hvað ég varð ánægð og stolt þegar fararstjórinn frá Tyrklandi, sagði við mig „uppáhaldstónlistarmaðurinn minn er frá Íslandi, Björk” og ég gat glöð sagt á bjagaðri ensku “She fixed my dad’s pants once”. En mér hafði oft verið sögð sú saga þegar pabbi reif buxurnar sínar á leið á skrall á sínum yngri árum og í fyrirpartýinu stoppaði Björk í gatið. 


Í skiptinámi á Ítalíu, á sama tíma og flestir töluðu um mig sem stelpuna frá Írlandi, var Little Talks, með Of Monsters and Men, notað í auglýsingu hjá stærsta símafyrirtæki landsins, sem ómaði alls staðar.

Svíarnir sem voru með mér í lýðháskóla eftir stúdentinn vissu það eitt um Ísland að hér væru hestar  – en þau hlustuðu á Sigurrós, Asgeir og jalmar – Eða Hjálma.

Á ferðum mínum um heiminn hitti ég fólk sem gat ekki bent á Ísland á korti eða hélt að hér byggi fólk í snjóhúsum - en það þekkti þetta listafólk. Tónlist sem varð til hér á þessu pínulitla landi sem enginn vissi neitt um, tengdi Ísland við umheiminn og gerði mig, sem Íslending, aðgengilegri og jafnvel spennandi. 

En tónlist, sem hefur ekki notið jafn mikilla alþjóðlegra vinsælda, hefur engu að síður haft djúpstæð áhrif á öll mín æviskeið og fyrir það er ég mjög þakklát. 

Í leikskóla söng ég um eldinn og vatnið þegar þúsaldarljóðin voru flutt á Arnarhóli. 

Í Laugarnesskóla, komu allir nemendur fram á sal kl 8:50 og sungu tvö til þrjú lög, lög sem ég kann enn þann dag í dag.

Í tónskóla Sigursveins voru reglulega þematónleikar þar sem við spiluðum og sungum lög eftir ákveðinn íslenskan listamann. Djössuðu barnalög Aðalsteins Ásbergs og Önnu Pálínu fannst mér krefjandi og skemmtileg og ég heillaðist af lögum Olgu Guðrúnar Árnadóttur. En myndin hennar Lísu, sem spyr spurningarinnar „Er ekki jörðin fyrir alla”, var fallegasta lag sem ég hafði heyrt.

Í bílnum, ef við systur sátum hundfúlar aftur í eftir rifrildi, var alltaf hægt að setja diskinn Vetrarljóð með Ragnheiði Gröndal í gang og þá gleymdum við yfir hverju við vorum fúlar og sungum með eins fallega og við gátum og mættum glaðar á áfangastað. 

Á tímabili var ég svo heltekin af Stuðmönnum að 9 ára ætlaði syngja “Út á stoppustöð ég skunda nú með flösku í hendi” í söngkeppni í Ölveri, þar til mamma benti mér á að það væri kannski ekki viðeigandi lag í kristilegum sumarbúðum.

Sem unglingur spilaði ég Sigurrós svo hátt inni í herbergi að mamma þurfti að biðja mig um að slökkva á þessum óhljóðum. „ÓHLJÓÐUM? Þú skilur ekki neitt!“ kallaði ég á móti. Á svipuðum tíma kynntist ég ljóðum Davíðs Stefánssonar því að Pascal Pinon sömdu svo fallegt lag við „En þú varst ævintýri“. Ég kynntist líka stórkostlegri tónsmíð Jóns Múla, því Sigríður Thorlacius gaf út dásamlegan disk.

Í MH urðu geisladiskar svo gjaldmiðill í deilihagkerfi þar sem við skiptumst á þeim til að hlaða inn á tölvurnar. „Ég á Kimbabwe með Retro Stefson.”  „Á einhver eitthvað með múm eða Hjaltalín?“ „Ég á ‘Sorrí’! Á einhver ‘Búum til börn’?”

Þegar fólk settist í rauða Yarisinn sem ég keyrði um á þessum tíma (blessuð sé minning hans) var diskurinn ‘Komdu til mín svarta systir’ með Mammút, iðulega í tækinu og það fyrsta sem var gert ef einhver kom um borð var að stilla á lag númer 4: Salt.

Í Hamrahlíðarkórnum kynntist ég útsetningum Jórunnar Viðar og verkum Jóns Nordals, Atla Heimis, Jóns Leifs og samtímaverkum Huga Guðmundssonar. Í rými með fólki sem ég var óörugg í kringum, og jafnvel smá hrædd við, gátu raddirnar hljómað svo fallega saman í útsetningum sem voru jafnt ögrandi og látlausar að ekkert skipti máli nema augnablikið.


Tónlistarfólk hefur opnað huga minn og hjarta. Einhverjir hafa orðað tilfinningar sem ég vissi ekki að ég gæti upplifað, aðrir hafa lífgað mig við, gert erfiðar stundir fallegri, skemmt mér eða tengt mig við fólk ólíkt mér.  

Ég hef alla tíð borið ómælda virðingu fyrir tónlistarfólki sem af elju og óeigingirni miðlar sköpunargáfu sinni, hæfileikum og krafti til okkar sem megum njóta.

Eftir að ég varð sjálf virkari í tónlist hefur virðing mín bara aukist, því á litlum markaði í grein sem er aðeins arðbær fyrir sárafá, þar sem dæmi er um að hljómsveitir hafi fyrst fengið eitthvað í vasann á 10 ára afmælistónleikum sínum eða að stórstjörnur komi út á sléttu eftir uppselda tónleika í Eldborg í Hörpu, er auðvelt að spyrja sig: af hverju er ég að þessu? 

Það er ekki sjálfsagt að svona fámenn þjóð eigi svona frábært tónlistarfólk og ef við viljum sem samfélag að hér fái fjölbreytt tónlistarlíf að blómstra þá þarf stuðning og hvatningu.

Við þurfum fólk, sem hlustar á tónlist og mætir á tónleika, og þá þurfum við tónleikastaði, sem hverfa í Reykjavík, fyrir jólahlaðborðum og árshátíðum stórfyrirtækja.

Við þurfum fólk sem nennir að reka þessa tónleikastaði og finnst mikilvægt að listamenn fái greitt fyrir vinnu sína.

Við þurfum öfluga tónlistarskóla og skólahljómsveitir og kennara. 

Við þurfum tónlistarfólk sem styður við annað tónlistarfólk og ýtir eigin egoi til hliðar fyrir hag heildarinnar. 

Við þurfum útvarpsstöðvar sem leggja sig fram við að spila sem flesta íslenska titla.

Við þurfum verðlaunahátíðir, sem verðlauna líka það sem er minna áberandi. 

Svo þurfum við stjórnmálafólk sem sér stuðning við tónlist sem fjárfestingu, sem skilar ekki endilega alltaf hagsæld eða auknum kaupmætti – heldur farsæld, innblæstri og vellíðan, sem á það til að gleymast.

Til allra þeirra sem hafa samið tónlist sem hefur auðgað líf mitt, eða á kannski eftir að gera það, og til allra þeirra sem hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar í þágu íslenskrar tónlistar, vil ég segja það sama og nafnið á plötunni sem mömmu þóttu vera óhljóð: Takk...

Ég er gríðarlegur aðdáandi ykkar allra. 

Lestu einnig

Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar