Eniga Meniga: Fræðsla um skattamál og rekstrarform tónlistarfólks

13
.  
February
 
2025

📅 Fimmtudagur 27. febrúar kl. 16:00–17:30

📍Tónlistarmiðstöð, Austurstræti 5, 101 Reykjavík

Tónlistarfólk starfar oft í blönduðum rekstrarformum sem getur haft áhrif á skattlagningu, réttindi til atvinnuleysisbóta og aðgang að styrkjum. Þessi fræðsluviðburður veitir nauðsynlegar upplýsingar um hvernig tónlistarfólk getur tryggt réttindi sín og forðast algeng mistök í skattskilum.

Fyrirlesari er Ágústa Katrín Guðmundsdóttir, löggiltur endurskoðandi og sérfræðingur í skattamálum tónlistarmanna. Hún er með M.Acc gráðu í endurskoðun og reikningshaldi og Cand. Oecon í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Ágústa Katrín er viðskiptastjóri nokkurra þjóðþekktra tónlistarmanna, en hún er með sérhæfingu í skattalegum/alþjóðlegum málefnum tónlistarmanna.

Á fundinum verður farið yfir helstu málefni sem tengjast skattgreiðslum og rekstri tónlistarfólks t.d.

  • Verktakagreiðslur, rekstur á eigin kennitölu eða fyrirtæki – Hvað hentar þínu starfi?
  • Rekstrarkostnað og frádrátt
  • Virðisaukaskatt
  • Launagreiðendaskrá og áhrif annarra launa á skattlagningu.
  • Samstarfsverkefni og styrki.

Viðburðurinn er ætlaður sjálfstætt starfandi tónlistarfólki, hljómsveitum, fagaðilum í tónlistariðnaðinum og öllum sem vilja öðlast betri skilning á skattalegri hlið tónlistariðnaðarins.

Viðburðurinn á Facebook >>>

Fræðsluviðburðir í Tónlistarmiðstöð

Auk þessa viðburðar mun fræðsludagskrá Tónlistarmiðstöðvar árið 2025 innihalda ýmsar vinnusmiðjur, kynningar og málþing sem snerta á fjölbreyttum þáttum tónlistariðnaðarins. Þar verða m.a. kynningar á rekstrarformum og nýsköpun, vinnusmiðjur fyrir tónlistarhátíðir og tónleikahaldara, fræðsla um Tónlistarsjóð, Bransaveisla og margt fleira. Áhersla verður lögð á að styðja tónlistarfólk í öllu því sem tengist starfsemi þess, hvort sem um er að ræða fjármál, rekstur eða alþjóðleg tengsl.

Allir viðburðir Tónlistarmiðstöðvar eru opnir þeim sem starfa við tónlist á Íslandi og öðrum áhugasömum. Við hvetjum því alla til að skrá sig á fréttabréf Tónlistarmiðstöðvar og fylgjast vel með á vefsíðu okkar. 

Lestu einnig

Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar