Dagur íslenskrar tónlistar haldinn hátíðlega í Hörpu
Formleg athöfn vegna Dags íslenskrar tónlistar fór fram í Hörpu föstudagsmorgun en þá nota aðildarfélögin í íslenskri tónlist tækifærið og veita einstaklingum og hópum viðurkenningar fyrir góð störf í þágu íslenskrar tónlistar. Verðlaunahafarnir eiga það oftast sammerkt að mynda eiginlegt stoðkerfi utan um íslenskt tónlistarlíf og veita því vængi á einhvern hátt. Viðurkenningar voru veittar í bland við tónlistaratriði sem voru flutt við þetta tilefni.
Þau sem hlutu viðurkenningar Dags íslenskrar tónlistar í ár voru:
Nýsköpunarverðlaun: R6013
fyrir að setja upp samastað jaðartónlistar í Reykjavík með hinum frumlega tónleikastað R6013 og efla þannig grasrótina meðal ungs fólks í tónlist.
R6013 er tónleikastaður Ægis Sindra Bjarnasonar, tónlistarmanns og útgefanda. Þar á sér heimili mikill suðupottur ólíkra tónlistarstefna. Húsið er í eigu fjölskyldunnar, og allt hófst þetta á því að Ægi vantaði æfingapláss og kom sér þá fyrir í bílskúrnum sem svo varð þessum frumlega og stórfína tónleikakjallara. Nafnið R6013 á staðnum kemur frá númeraplötu sem fylgdi bílskúrnum.
Hvatningarverðlaun: Kolbrún Linda Ísleifsdóttir
fyrir að styðja við íslenskt tónlistarlíf, sækja tónleika og aðra viðburði af miklum móð auk þess að stuðla að jákvæðu og uppbyggjandi hugarfari gagnvart íslenskri tónlistarmenningu.
Eftir því hefur verið tekið hversu Kolbrún mætir duglega á hvers konar tónlistarviðburði og ber út fagnaðarorðið víða. Kolbrún er eflaust einn dyggasti áhangandi tónlistarlífsins hér heima og segist leyfa sér, á sínum aldri, að ferðast og að fara á tónleika. Harpa er t.a.m. næstum hennar annað heimili.
Glugginn: BRJÁN Blús-, rokk- og jazzklúbburinn á Nesi
fyrir að byggja upp hlýlegt heimili íslenskrar tónlistar í Tónspili í Neskaupstað og halda úti fjölbreyttri og metnaðarfullri tónlistardagskrá undanfarin ár.
Blús-, rokk- og jazzklúbburinn á Nesi (Brján) opnaði dyr félagsheimilis síns að Hafnarbraut 22 í Neskaupstað, þar sem verslunin Tónspil var áður til húsa. Þar hefur verið komið upp úrvals æfinga- og upptökuaðstöðu auk tónleikasalar - um leið áfangastaðar íslensks tónlistarfólks fyrir austan og annarra sem eiga leið um. Guðmundur Höskuldsson er formaður BRJÁN og tók á móti viðurkenningunni.
Útflutningsverðlaun: Kælan mikla
fyrir að halda uppi merkjum íslenskrar tónlistar um víða veröld af einstakri eljusemi og með miklum sóma um árabil. Hljómsveitin Kælan Mikla var stofnuð á árinu 2013 eftir ljóðaslamm, Kælan er tríó skipað Laufeyju Soffíu Þórsdóttur, Margréti Rósu Dóru-Harrýsdóttur og Sólveigu Matthildi Kristjánsdóttur. Kæluna miklu má annað slagið sjá á tónleikum á Íslandi en mögulega enn frekar í útlöndum og þá með heimþekktum sveitum á borð við Cure, Pixies, Slowdive og Placebo svo eitthvað sé nefnt.
Lítill fugl - heiðursverðlaun Dags íslenskrar tónlistar: Anna Hildur Hildibrandsdóttir og Gísli Þór Guðmundsson
fyrir að byggja upp íslenskan tónlistariðnað og veita íslensku tónlistarfólki og tónlistarlífi almennt sérstakt atfylgi og stuðning af einlægri ástríðu um áratuga skeið.
Gísli Þór og Anna Hildur höfðu lengi búsetu á Bretlandi og fluttu til Íslands fyrir fáeinum árum. Eftir að Anna Hildur hafði starfað talsvert við fjölmiðla þegar hún söðlaði um og hellti sér í umboðsmennsku fyrir tónlistarmenn. Bellatrix Kolrassa krókríðandi var ein sú fyrsta. Saman ráku þau Gísli umboðs- og ráðgjafafyrirtæki en Anna Hildur var síðar ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri ÚTÓN og síðar Norræna útflutningsverkefnisins NOMEX.
Gísli Þór starfaði um árabil sem umboðsmaður tónlistarfólks, og notaði jafnan nafnið Gis Von Ice á erlendri grundu sem við mörg notuðum einnig hér heima.Gísli var meðal annars umboðsmaður íslensku hljómsveitanna Vök, For a Minor Reflection, tónlistarkonunnar Lay Low og Hatara lengi vel. Gísli lést í sumar eftir erfið veikindi, aðeins 62 ára gamall.
Gísli og Anna Hildur voru sálufélagar og lífsförunautar til 42 ára og lögðu á þeim tíma endalaust til tónlistarsamfélagsins. Anna Hildur er hér með okkur og tekur á móti viðurkenningunni fyrir hönd þeirra öndvegishjóna, Lítill fugl, heiðursverðlaun á Degi íslenskrar tónlistar 2024!
Heiðursmerki Stefs
Loks var veitt heiðursmerki Stefs sem í ár féll í skaut Þorsteins Eggertssonar textahöfundar. Þorsteinn er einn afkastamesti söngtextahöfundur okkar. Hjá STEFi eru skráð u.þ.b. 500 verk eftir Þorstein, langflest textar en óhætt er að segja að afar fáir skilji eftir sig drýgra dagsverk.
Af fjölmörgum öðrum þekktum textum Þorsteins mætti nefna: Gvendur á eyrinni, Leyndarmál, Ég elska alla, Slappaðu af, Er hann birtist, Himinn og jörð, Heim í Búðardal, Harðsnúna Hanna, Síðasta sjóferðin, Söngur um lífið, Við saman, Mývatnssveitin er æði, Dans, dans, dans, Alveg orðlaus, Hátíðarskap, Fyrir jól, Silfurhljóm og Þorláksmessukvöld.
Loks komu fram þau GDRN og Magnús Jóhann, Vigdís Hafliðadóttir sem flutti aðdáendabréf til íslenskrar tónlistar, Silva Þórðardóttir og Steingrímur Teague sem fluttu Ástarsælu, lag Gunnars Þórðarsonar við texta Þorsteins Eggertssonar og loks Helgi Björnsson og Ómar Guðjónsson sem fluttu ásamt stúlknakór úr Laugarnesskóla lagið Húsið og ég (mér finnst rigningin góð) en það lag var valið lag í samvinnu við Syngjandi skóla og tónmenntakennara víða um land og var sungið í nær öllum skólum landsins á sama tíma. Lagið markar tímamót því það er - líkt og starfsferill Helga Björnssonar í tónlistinni - 40 ára í ár.